Sýning

Alþýðuflokkurinn 100 áraÍ tilefni af 100 ára afmæli Alþýðuflokksins verður sýning á veggspjöldum sem Wilhelm Beckmann gerði fyrir Alþýðuflokkinn á 2. hæð í Iðnó. Einnig verða sýnd ljósrit af nokkrum myndum þriggja listamanna, sem birtust í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins árin 1934-´35.

Wilhelm Beckmann var íslenskur listamaður, myndhöggvari og myndskeri, fæddur í Hamborg 1909, dáinn 1965 í Reykjavík. Hann lærði útskurð og myndhöggvaralist í Hamborg og lauk námi 1927. Hann setti síðan upp eigin vinnustofu auk þess sem hann kenndi við Listaháskóla Hamborgar.
Wilhelm var félagi í þýska jafnaðarmannaflokknum og átti í útistöðum við þýska nasistaflokkinn og varð að flýja land, fyrst til Danmerkur og þaðan til Íslands 1935. Í Danmörku tóku danskir jafnaðarmenn á móti honum og höfðu síðan samband við Alþýðuflokkinn, Stefán Jóhann Stefánsson, sem greiddi götu hans hér. Á Íslandi bjó hann til æviloka, kvæntist íslenskri konu og eignaðist tvö börn. Hann var félagi í Alþýðuflokknum og gerði mörg veggspjöld fyrir hann.

Wilhelm Beckmann var mjög fjölhæfur listamaður. Allt lék í höndum hans. Hann skar út í tré, hjó í stein, málaði myndir og smíðaði skartgripi. Þekktastur er hann fyrir kirkjulistaverk sín en verk hans, skírnarfontar og ljósasúlur, prýða á annan tug kirkna á Íslandi. Hann varð íslenskur ríkisborgari 1954, var fyrsti bæjarlistamaður Kópavogs 1954 og hlaut listamannalaun Alþingis 1960.

Inline
Inline