Ný stefnuskrá handa Jafnaðarmönnum

Dagana 13. til 22. maí, 2011 komu um 370 stúdentar frá 40 þjóðum saman í Thüringen í Þýskalandi til þess að skiptast á skoðunum um frelsið. Gestgjafinn var samstarfsnet háskóla í Türingen – í borgunum Weimar, Jena, Erfurt, Ilmenau o.fl.. Þetta var í tíunda sinn, sem þessir aðilar efna til alþjóðlegs málþings af þessu tagi. Íbúar þessara háskólaborga opna heimili sín fyrir gestum þessa tíu daga, sem málþingið stendur. Við það myndast tengsl milli heimamanna og hinna erlendu gesta, sem einatt standa órofin, löngu eftir að gestirnir hafa kvatt og horfið til sinna heima.

Fyrir utan opinbera fyrirlestra (sem standa öllum opnir) um helstu þætti meignþemans hverju sinni, mynda hinir erlendu stúdentar samstarfshópa með heimamönnum til að ræða efni fyrirlestranna í þaula. Meðan á málþinginu stendur vinna stúdentarnir að ýmsum verkefnum í tengslum við umræðuefnin: Þeir reka útvarpstöð, gefa út blöð og bæklinga, búa til heimildamynd og gefa út bók með helstu fyrirlestrum og niðurstöðum umræðuhópa.

Að þessu sinni var rætt um frelsið í tíu umræðuhópum að loknum fyrirlestrum: Þar var fjallað um heimspekilega greiningu hugtaksins, sögu frelsisins, um stjórnmálalegt frelsi, um frelsið og frumþarfirnar, um friðhelgi einkalífs vs. öryggi ríkisins, um markaðsfrelsi vs. samfélagslega ábyrgð, um takmörk frelsisins (vegna samfélagslegra krafna, menningarhefða eða lífsstíls). Loks var rætt um frelsið og trúarbrögðin og frelsið í vísindum og listum.

Þetta er í þriðja sinn, sem ég er gestur á þessu “heimsmóti æskunnar” í Thüringen. Fyrsta skiptið (árið 2005) var umræðuefni mitt: “Rhetoric vs. Realpolitik: Failures of Western Foreign Policy, from Vietnam to Irak”. Í annað skiptið (árið 2009) var umræðuefni mitt: “The International Financial Crisis – The Case of Iceland: Are There Lessons to be Learned?” Rannsóknarstofnun Schiller háskólans í Weimar í alþjóðafjármálum gaf þennan fyrirlestur út í sérriti 2010 og hann má finna hér á heimasíðu minni (2009).
Í þetta skipti var heiti fyrirlestrarins: “In Search of Freedom: It´s All about Equality, Stupid!” Í þessum fyrirlestri fjalla ég um markaðskerfið og hina félagslegu ábyrgð (lýðræðislegs) ríkisvalds.

Frekari upplýsingar um málþingið má finna á vefslóðinni:
www.iswi.org – netfang upplýsingaaðila er: info@iswi.org

FRELSI OG JÖFNUÐUR. Stefnumið handa jafnaðarmönnum á öld ójafnaðar.

“Frelsi, jafnrétti, bræðralag” (kjörorð frönsku byltingarinnar, 1789)

“Frelsi fær ekki staðist sem forréttindi fárra” (Olof Palme, sænskur jafnaðarmannaleiðtogi)

“Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða” (Ari fróði, íslenskur sagnfræðingur á l1tu öld)

Ég á rætur að rekja til landnámsmanna, sem héldu því fram, að þeir hefðu fremur kosið að yfirgefa heimkynni sín (meginland Skandinavíu, Skotland og Írland) en að beygja sig undir vald Noregskonungs. Þetta var á níundu og tíundu öld, þegar verið var að sameina Noreg með valdi í eitt ríki. Héraðshöfðingjar og sjálfstæðir landeigendur og áhangendur þeirra stóðu frammi fyrir vali: Að sverja hinu nýja yfirvaldi hollustueiða (þar með að samþykkja skattlagningarvald konungs) eða slíta sig upp með rótum og leita nýrra landa. Landnámsmenn Íslands völdu seinni kostinn.

Síðan hafa meira en þrjátíu kynslóðir alist upp við þá sögulegu goðsögn (eða sannleika), að forfeður okkar hafi fremur viljað hætta lífi sínu en að fórna frelsinu. Draumur þessara hælisleitenda fyrri tíðar var að finna goðsagnakennt draumaland – Ultima Thule – víðs fjarri mannabyggð, þar sem þeir gætu búið að sínu sem frjálsir menn.

Þar sem þeir komu, að sögn, að ónumdu landi (eða er það bara goðsögn sigurvegaranna?), gátu þeir kastað eign sinni á ónumið land. Hvort tveggja, landkostir og dreifbýlið, var lítt til þess fallið að stunda þrælahald. Það var því aflagt, snemma á landnámsöld. Smám saman varð til samfélag sjálfstæðra landeigenda, sem voru staðfastir í þeim ásetningi sínum að lúta engu yfirvaldi af því tagi, sem þeir höfðu flúið frá.

Í þessum skilningi voru þessir ævintýramenn forhertir einstaklingshyggjumenn. Hitt er jafn satt, að samfélag þeirra einkenndist af óvenjulegu jafnræði; þeir litu á sjálfa sig sem jafningja fremur en undirdánuga þjóna sjálfskipaðs yfirvalds. Var þetta ekki sjálft “villta vestrið”, löngu áður en Hollywood gerði það að söluvöru – draumur frjálshyggjumannsins, sem hafði ræst á jarðríki?

Fyrstu tilvísun evrópskra fræðimanna um þetta fyrirbæri mun vera að finna í annálum Adams Bede, biskups í Bremen frá11tu öld. Þar segir biskupinn, að íbúar þessarar fjarlægu eyju væru öðru vísi en fólk er flest að því leyti, “að þeir þýðast engan konung yfir sér”.

Í leit að frelsinu

Í samhengi evrópskrar miðaldasögu var þetta vissulega einstæð þjóðfélagstilraun. Þetta var tilraun til að skapa samfélag frálsborinna manna og kvenna, sem lutu einum lögum, en engu framkvæmdavaldi af neinu tagi. Það var engin ríkisstjórn, ekkert embættisbákn, enginn her, engin lögregla og ekkert miðstýrt þvingunarvald til þess að halda uppi lögum og reglu meðal óstýrilátra landnema. Var þetta ekki líka draumur stjórnleysingjans orðinn að veruleika?

Og meðal annarra orða: Kvenréttindi virðast hafa verið drjúgum meiri en annars staðar í Evrópu á þeirri tíð.Meðal fyrstu landnemanna voru víðkunnar og virtar ættmæður. Konur gátu ekki einasta kastað eign sinni á lönd og landgæði; réttur þeirra til hjónaskilnaðar var virtur, sem og eignarréttur þeirra við hjúskaparslit. Brimarbiskupi hefði ugglaust þótt þetta tíðindum sæta, hefði hann bara vitað af því.

Miðpunktur landnemasamfélagsins var Alþingi, þjóðþingið. Alþingi var hvort tvggja, löggjafarsamkunda og dómstóll. Það var haldið á Þingvöllum í þrjár vikur í ágústmánuði (fordæmi, sem margir telja, að væri til bóta, að Alþingi okkar tíma tæki sér til fyrirmyndar).

Þótt Alþingi væri ekki samkunda kjörinna fulltrúa, eins og nú tíðkast, var það engu að síður býsna lýðræðisleg samkunda. Þingfulltrúar komu úr röðum héraðshöfðingja, sem kvöddu með sér til þings nánustu ráðgjafa sína. Ráðgjafarnir voru valdir í héraði, væntanlega vegna meintrar stjórnvisku þeirra eða pólitískra áhrifa. Þótt hollusta við höfðingjann væri talin dyggð, gátu heimamenn engu að síður sagt sig frá stuðningi við héraðshöfðingja eða jafnvel afsagt þá. Þetta þýddi, að varasamt var að vanmeta áhrif heimamanna.

Alþingi kaus sér lögsögumann – forseta – sem gegndi starfinu tiltekið kjörtímabil. Lögsögumaður var valinn úr hópi lögvísra manna og stýrði einnig dómstörfum. Áður en lögin voru skráð (elsti lagatextinn er frá því snemma á 12tu öld), fór lögsögumaðurinn með ágrip helstu laga í heyranda hljóði á Alþingi. Þetta hefur verið eins konar háskóli (eða fullorðinsfræðsla) og getur sennilega talist með elstu lagadeildum háskóla í heiminum.

Er eitthvað í þessari sögu, sem skiptir máli fyrir samtímann? Ætli það fari ekki að einhverju leyti eftir lífsskoðun lesandans eða gildismati: Hvar dregur þú markalínuna milli einstaklingsfrelsis ogsamfélagsábyrgðar? Hvert er hlutverk hins svokallaða frjálsa markaðar – athafnafrelsisins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar?Hvernig viljum við leysa fyrirsjáanlegan árekstur millihagvaxtarkröfunnar annars vegar og endimarka vaxtar, sem náttúran setur okkur, hins vegar? Allar þessar spurningar, sem við nú leitum svara við, voru þá þegar áleitnar í veruleika forfeðra okkar. Meira að segja fyrirbæri eins og ofbeit og jarðvegseyðing voru vandamál sem, landnemaþjóðfélagið stóð frammi fyrir.

Jöfnuður: Forsenda frelsisins

Margir helstu málsvarar nýfrjálshyggjunnar á okkar dögum, talsmenn frjálsra markaða og lágmarksríkisins, eru kunnir aðdáendur hins forna þjóðveldis Íslendinga. Einn þeirra, David Freedman, (sonur Miltons, spámanns Chicago-skólans og Nóbels-verðlaunahafa í hagfræði) hefur meira að segja skrifað um það bók. Í samræmi við sína eigin lífssýn leggur hann áherslu á dyggðir þessa þjóðfélags frjálsra einstaklinga undir einum lögum og takmörkuðu ríkisvaldi – eða , það sem meira var í þessu tilviki – alls engu ríkisvaldi yfirleitt!

Öðrum þykir henta að leggja meiri áherslu á jöfnuðinn, sem ríkti í þessu þjóðfélagi, a.m.k. framan af, á blómaskeiði þess, meðan það virtist ráða við að leysa innri vandamál sín og að halda valdbeitingaráráttunni í skefjum.

En við, seinni tíma jafnaðarmenn, viljum fyrst og fremst leggja áherslu á, að það var vaxandi ójöfnuður – og þar með pólitískt ójafnræði – sem undir lokin batt endi á þessa merkilegu þjóðfélagstilraun. Þá hafði hið upphaflega jafnvægi milli frelsis einstaklingsins og jafnræðis þegnanna farið úr skorðum.

Smám saman færðist landareign (helsta andlag auðs í landbúnaðarsamfélagi) á hendur æ færri fjölskyldna eða ættbálka (oft í bandalagi við kirkjuvaldið, eftir að kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000). Þessir ráðandi ættbálkar urðu að lokum svo valdamiklir, að þeir urðu í skjóli valds hafnir yfir lögin. Á fyrri hluta 13du aldar brutust innbyrðis átök þessara valdaætta út í blóðugri borgarastyrjöld. Að lokum skarst Noregskonungur í leikinn í því skyni að stilla til friðar og koma á lögum og reglu. En friður og stöðugleiki var dýru verði keyptur. Alþingi varð að sverja Noregskonungi hollustueiða og beygja sig undir skattlagningarvald konungs.

Sagan hafði snúist fullan hring. Þeir sem misnotuðu frelsið og skeyttu í engu um samfélagslega ábyrgð sína, glötuðu því. Frelsi einstaklingsins varð ekki viðhaldið til lengdar, án íhlutunar og aðhalds frá (lýðræðislegu) ríkisvaldi. Frelsi allra varð ekki tryggt, nema allir nytu jafnræðis fyrir lögunum. Hvort tveggja þetta, lýðræðislega ábyrgt ríkisvald og sjálfstæða dómstóla þarf til að halda í skefjum inngróinni tilhneigingu í mannlegu samfélagi, þess eðlis, að hinir fáu kúgi hina mörgu – í skjóli auðs eða valds. Að lokum var það ójöfnuðurinn, sem eyðilagði drauminn um frelsi og samstöðu. Það er lærdómurinn, sem dreginn verður af þessari sögu.

Það er svo annað mál, að það tók Íslendinga um það bil sjö aldir að bæta fyrir afglöp sín og endurheimta sjálfstæðið, snemma á tuttugust öld.

“Villta vestrið” og ameríski draumurinn

Það er margt ótrúlega líkt með gamla íslenska þjóðveldinu og landnemaþjóðfélaginu í Norður-Ameríku, sem varð til nokkrum öldum síðar, eftir gríðarlega þjóðflutninga, í upphafi aðallega frá Evrópu, til hins fyrirheitna lands í vestri.

Í báðum tilvikum var fólk að flýja valdstjórn og stéttaskiptingu, þjóðfélög, þar sem erfðaaðall réði lögum og lofum og trúarofstæki kirkjuvaldsins þoldi ekki frjálsa hugsun. Í báðum tilvikum voru hælisleitendur að leita nýrra tækifæra til að bæta efnahagslega afkomu sína og sinna, í krafti athafnafrelsis. Í báðum tilvikum var fólk reiðubúið að taka áhættu og þola líkamlegt harðræði í leit sinni að frelsinu, með vonina um frjálst og réttlátt þjóðfélag að leiðarljósi.

Í báðum tilvikum var nóg landrými til að kasta eign sinni á og brjóta til ræktunar. En það var líka reginmunur á aðstæðum landnemanna að öðru leyti. Ameríka var ekki ónumið land. Hinir aðfluttu Evrópumenn beittu yfirburða vopnavaldi til að útrýma hinum innfæddu eða þröngva þeim með valdi út á jaðar samfélagsins til að skapa rými fyrir sig. Og þrælahald festist í sessi í Suðurríkjunum sem undirstaða plantekruhagkerfisins. Það kostaði blóðuga borgarastyrjöld að halda sambandsríkinu saman og að byrja afnám þrælahaldsins, sem náðist þó ekki fram í reynd fyrr en á seinni hluta næstliðinnar aldar, fyrir áhrif öflugrar mannréttindahreyfingar (Civil Rights Movement).

Ameríka varð af þessum sökum afar ofbeldisfullt samfélag, arfleifð aftan úr villta vestrinu, þar sem byssan skar úr um deilur manna. Rétturinn til að bera vopn er verndaður í bandarísku stjórnarskránni. Bandaríkjamenn hneigjast til þess, allt fram á okkar daga, að vera tortryggnir – jafnvel fjandsamlegir – íhlutun ríkisins um þeirra hag, jafnvel þótt um sé að ræða umhyggjusemi af því tagi að tryggja öllum borgurum rétt til sjúkratrygginga.

Þrátt fyrir risavaxinn hallarekstur ríkisins og hraðvaxandi viðskiptahalla og trilljónir dollara í opinberum skuldum, neita margir hverjir að borga skatta. Hægrimenn í Bandaríkjunum hafa að vísu þanið út ríkisbáknið vegna fjárausturs í vígbúnað, en lækka á sama tíma skatta á hina ríku og neita þar með að borga fyrir bruðlið. Og mesta vopnasafn heims er ekki að finna í höndum einræðisherra þriðja heimsins – heldur undir rúmum bandarískra borgara. Hömlulaus einstaklingshyggja og djúprætt tortryggni í garð yfirvalda er enn þann dag í dag eitt helsta sérkenni bandarísks þjóðfélags.

En þótt margt sé ólíkt er annað sláandi líkt með landnemaþjóðfélögum okkar Íslendinga og Bandaríkjamanna, þrátt fyrir aðskilnað í tíma og rúmi. Í báðum þjóðfélögum var öfgakennd einstaklingshyggja ráðandi. Samt einkenndust þessi þjóðfélög af meiri jöfnuði en fyrir fannst í þjóðfélögum erfðaaðals í Evrópu. Ímynd Bandaríkjanna var sú, að þau væru land tækifæranna fyrir hina snauðu og útilokuðu. Þetta er beinlínis skilgreining hins ameríska draums. Viljirðu leggja hart að þér, geturðu orðið ríkur.

Íslenska tilraunin um þjóðfélag, sem byggði á nýfrjálshyggjudraumnum um frelsi einstaklingsins frá þvingunarvaldi ríkisins, stóð í 330 ár. Undir lokin fór þessu þjóðfélagi stöðugt hnignandi vegna vaxandi ójafnaðar, sem leiddi af sér félagslega upplausn, borgarastríð og endanlega uppgjöf.

Hverjir eiga jörðina?

Ameríska tilraunin með frelsið hefur nú staðið í 235 ár. Þótt Bandaríkin hafi enn aðdráttarafl fyrir snauða innflytjendur, aðallega frá hinum “hrundu ríkjum” (e. failed states) Mið-Ameríku, er nú svo komið, að Bandaríkin eru orðin mesta ójafnaðarþjóðfélag heims meðal hinna svokölluðu þróunarríkja. Á s.l. 30 árum hefur ójöfnuðurinn náð slíkri stærðargráðu, að það vekur upp spurninguna: Er frelsið orðið að forréttindum hinna fáu – á kostnað útilokunar hinna mörgu?

Lítum á fáeinar staðreyndir:

Vikuritið Economist birti í jan. 2011 sérhefti um hina ríku og okkur hin (“The Rich and the Rest of Us”), þar sem það birti mikið talnaflóð um vaxandi ójöfnuð innan þjóðfélaga og milli hinna ríku þjóða og afgangsins af mannkyninu. Tímaritið vitnaði í rannsókn, sem The Economic Policy Institute í Washington D.C. birti nýlega, þar sem kannað var hlutfall meðaltekna hinna ríku annars vegar og “botnlagsins”, þ.e. 90% þjóðarinnar hins vegar, á aldarfjórðungstímabili (frá árinu 1980 til ársins 2006). Við upphaf tímabilsins þénuðu 1% hinna ríku tíu sinnum meira en afgangurinn af þjóðfélaginu. Aldarfjórðungi síðar, eða árið 2006, þénuðu þeir 20 sinnum meira en hinir.

En þegar kemur að hinum ofurríku – sem flokkast undir 0.1% framteljenda – þá reyndust tekjur þeirra við upphaf tímabilsins vera 20 sinnum meiri en tekjur 90 % framteljenda, en voru orðnar80 sinnum meiri undir lok þess. Á sama tíma hafa laun millitekjufólks og lágtekjufólks staðnað vegna áhrifa tæknibreytinga, alþjóðavæðingar og hnignandi áhrifa verkalýðsfélaga.

Hollenski hagfræðingurinn, Jan Pen, fann upp myndræna aðferð til að lýsa ójöfnuðinum, semEconomist vitnar til. Ímyndum okkur, að líkamleg hæð einstaklinga sé hlutfallsleg við tekjur þeirra, þannig að meðaltekjumaður birtist okkur í meðalhæð. Ímyndum okkur svo, að allir fullorðnir einstaklingar meðal amerísku þjóðarinnar gangi fram hjá okkur, í stighækkandi hæð, innan einnar klukkustundar. Jan Pen lýsir skrúðgöngunni svona:

“Þeir sem fyrst ganga fram hjá, eigendur fyrirtækja, sem rekin eru með tapi, eru ósýnilegir; höfuð þeirra eru neðanjarðar. Síðan koma hinir atvinnulausu og fólkið á lægstu launum – sem birtist okkur sem dvergar. Eftir hálftíma skrúðgöngu ná þeir sem framhjá ganga venjulegu fólki aðeins í mitti… Það tekur nærri því 45 mínútur, áður en við sjáum fólk af eðlilegri stærð. En á lokamínútunum sjáum við risa storma fram hjá. Þegar 6 mínútur eru eftir af klukkustundinni, eru risarnir orðnir tólf feta háir. Þegar 400 hinna ríkustu ganga fram hjá (billjónerarnir skv. Fortune 500) rétt í blálokin, er hver þeirra um tvær mílur á hæð”.

Þetta er ekki beinlínis fjölskyldumynd af landi jafnréttisins, þar sem sömu leikreglur gilda fyrir alla í lífskjarakapphlaupinu, eða hvað?

Það má merkilegt heita, að faðir Bills Gates, sem telst vera annar ríkasti maður heims, ogWarren Buffet, sá þriðji ríkasti, hafa tekið höndum saman um að berjast fyrir því, að erfðafjárskattur verði endurreistur í Bandaríkjunum (en hann var afnuminn í forsetatíð Bush jr.). Þeir segjast ekki vilja sjá ameríska drauminn afskræmdan með þeim hætti, að “allsráðandi peningaaðall” (e. plutocracy) hafi kastað eign sinni á samfélagið með gögnum þess og gæðum. En svona er þetta nú samt. Jafnvel hin gömlu og stéttskiptu þjóðfélög erfðaaðalsins í Evrópu eru nú orðin meiri jafnaðarþjóðfélög heldur en hið fyrirheitna land ameríska draumsins.

Og hvað með afganginn af mannkyninu? Samkvæmt Credit Suisse Global Wealth Report árið 2010 – og Svisslendingar ættu að þekkja þetta – eru lykiltölurnar eftirfarandi:

  • 1% auðugustu jarðarbúa (fullorðinna) eiga 43% af öllum verðmetnum eignum í veröldinni
  • 10% hinna auðugustu eiga eða ráða yfir 83% af verðmetnum eignum í veröldinni
  • 90% fullorðinna jarðarbúa eiga einungis 17% af verðmetnum eignum í veröldinni
  • 50% fullorðinna jarðarbúa eiga því sem næst ekki neitt.

Á toppi píramídans finnum við hina ofurríku. Þetta eru u.þ.b. 80 þúsund einstaklingar allt í allt – þeir gætu rúmast vel á miðlungs íþróttavelli – og þeir ráða yfir miklum meirihluta af verðmetnum eignum hér á jörðu. Inngönguskilyrðin í þennan forréttindaklúbb eru ströng. Þótt flestir séu bandarískir (40%), er þetta samt alþjóðlegt þotulið. Meðal þeirra eru fáeinir uppfinningamenn og frumkvöðlar, sem hafa lagt mikið af mörkum í þágu mannskyns. Margir eru innvígðir í launhelgum alþjóðafjármála. Margir eru bankamenn, sem hafa nýverið skilið eftir sig milljarðaskuldir ætlaðar skattgreiðendum til greiða upp á næstu árum og áratugum.

Sumir eru skuggabaldrar úr neðanjarðarveröld alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Þarna er líka að finna ófáa einræðisherra úr þriðja heiminum, sem hafa stungið af með ríkissjóði sinna örsnauðu þjóða í farteskinu. Loks er þarna að finna fjölda erfðaprinsa, einstaklinga, sem hafa erft sívaxandi fjölskylduauð, sem gengið hefur í arf, kynslóð fram af kynslóð.

Þessi yfirþyrmandi ójöfnuður hefur farið ört vaxandi á s.l. 30 árum – á þeim tíma sem nýfrjálshyggjan hefur ráðið lögum og lofum í heiminum. “S.l. áratugur hefur verið sérlega hagstæður stofnun, varðveislu og vexti mikilla auðæfa”, eins og höfundar Credit Suisse- skýrslunnar orða það.

Velferðarríkið og óvinir þess

Hvers vegna hefur ójöfnuður farið svo ört vaxandi á seinustu áratugum? Að fenginni 300 ára reynslu af laissez-faire kapítalisma – hinu frjálsa markaðskerfi – lætur okkur varla að látast vera hissa. Samkeppni á markaði þjónar beinlínis þeim tilgangi að umbuna þeim sem ná árangri, en refsa hinum. Þetta þýðir, að það er innbyggð tilhneiging í markaðskerfinu til þess að auðurinn safnist á æ færri hendur.

Þessi umskautun þjóðfélagsins milli hinna ríku og voldugu annars vegar og hins stritandi lýðs hins vegar, var kveikjan að blóðugum byltingum á öldinni sem leið. Þar sem lýðræðið virkaði hins vegar, beitti almenningur tjáningarfrelsi sínu og samtakamætti til að ná tökum á ríksvaldinu, sem í nafni almannahagsmuna beislaði kapítalismann og beitt sér fyrir meiri jöfnuði í eigna- og tekjuskiptingu en markaðurinn leiddi til. Þekktasta dæmið um þetta er “New Deal” Roosevelts og demókratanna í Bandaríkunum eftir að markaðsbrestur hafði leitt til efnahagshruns og fjöldaatvinnuleysis um veröld víða. Þetta voru viðbrögð lýðræðisins við hruni kapítalismans, eftir að ójöfnuður kerfisins hafði vaxið umfram þolmörk.

Norræna módelið – hin svokallaða þriðja leið jafnaðarmanna milli laissez-faire kapítalisma ogríkisvæðingar (þjóðnýtingar framleiðslutækjanna) – á sér sams konar skýringar. Norrænir jafnaðarmenn aflögðu ekki markaðinn, en settu hann undir húsaga samfélagsins. Tage Erlander, forsætisráðherra sænskra jafnaðarmanna lengur en elstu menn muna, var vanur að segja, að markaðurinn væri þarfur þjónn en óþolandi húsbóndi. Undir forystu jafnaðarmanna nýttu Svíar vald hins lýðræðislega ríkisvalds, með stuðningi fjöldahreyfinga fólks og afl skipulagðrar verkalýðshreyfingar að bakhjarli, til þess að tryggja meiri félagslegan jöfnuð en markaðskerfið óáreitt hefði leitt til.

Tækin sem þeir beittu voru einkum stighækkandi tekjuskattur, ókeypis aðgangur að menntun og skylduþátttaka almennings í heilbrigðistryggingum og lífeyrissjóðum. Ríksvaldið lögfesti og sveitarfélögin sáu um að tryggja faglega umönnun barna til þess að gera konur frjálsar að því að taka fullan þátt í atvinnulífinu. Og ríkið tryggði afkomu allra þeirra, sem af einhverjum ástæðum voru ófærir um að sjá sér farborða á vinnumarkaðnum. Með þessum tækjum byggðu norrænir jafnaðarmenn mestu jafnaðarþjóðfélög á jarðríki. Hvorki með því að afnema kapítalismann né með því að fórna frelsinu. Þvert á móti, eins og Olof Palme var vanur að segja: “Með því að tryggja tækifæri allra, án tillits til efnahags, stéttar eða stöðu, til þess að afla sér menntunar og þroska hæfileika sína, erum við í reynd að færa út landamæri frelsisins”.

Á árinu 2004 var ég beðinn um að flytja stefnuræðu á ársfundi framkvæmdastjóra helstu stofnana norrænu velferðarríkjanna í Kaupmannahöfn. Heiti ræðunnar var: “The Welfare State and its Enemies”. Titillinn vísar af ásettu ráði í rit Karls Popper: “The Open Society and its Enemies”.

Í þessum fyrirlestri lýsti ég því, hvernig velferðarríkjum samtímans væri haldið í gíslingu: Annars vegar væri þar að verki hinn alþjóðlegi peningaaðall. Hann krefðist æ meira athafnafrelsis frá íhlutun og eftirliti ríkisins, af því að það hamlaði hámarksarði og þar með hagvexti, sem allt ætti að snúast um. Hins vegar væri velferðarríkið ekki lengur varið af þeim, sem mest ættu undir því félagslega öryggi sem það veitti. Almenningur var orðinn værukær og tók sem gefinn hlut, það sem fyrri kynslóðir höfðu barist fyrir, í nafni félagslegrar samstöðu.

Kjarninn í boðskap nýfrjálshyggjunnar, sem varð að ríkjandi hugmyndafræði á seinustu áratugum liðnnar aldar er, að allir hafi að lokum hag af því að frelsi einstaklingsins fái að njóta sín; þannig yrði sköpunarkraftur hans leystur úr læðingi; hin “dauða hönd” ríkisins, sem birtist skapandi frumkvöðlum sem lamandi afskiptasemi, myndi leiða til stöðnunar. Frjálshyggjumenn vara við ófyrirséðum afleiðingum vel meinandi en vanhugsaðra aðgerða stjórnmálamanna, sem nota annarra manna peninga til að kaupa sér fylgi. Í leiðinni búi þeir til “fátæktargildrur” og kæfi náttúrlega sjálfsbjargarhvöt fólks í allt-um-vefjandi faðmlagi ríkisforsjárinnar. Kjörorð frjálshyggjunnar er tær populismi: “Valdið til fólksins” og “niður með möppudýrin” (reglugerðaríkið). – Fullyrðingar frjálshyggjumanna um að velferðarríkið lamaði sjálfsbjargarhvöt fólk, hafa ekki reynst réttar. Norrænu velferðarríkin hafa löngum státað af meiri atvinnuþátttöku fólks á vinnualdri en allar aðrar nútímaþjóðir, að Bandaríkjunum meðtöldum, þrátt fyrir að þau tryggðu lágtekjufólki, atvinnulausu, veikum og öldruðum viðundandi lífskjör og öryggi. Þetta var því, og er, áróður.

Áróðurinn bar ótrúlegan árangur, enda þótt ævintýrið endaði á annan veg en höfundarnir höfðu talið hinum ginnkeyptu trú um: Nefnilega í hærri sköttum á almenning og niðurskurði félagslegra útgjalda, til þess að pína skattgreiðendur til þess að borga skuldir hinna ofurríku!

Nýfrjálshyggjumenn eru talsmenn lágmarksríkisins. Þeir fordæma íhlutun ríkisins í starfsemi frjálsra markaða. Þeir telja sjálfum sér trú um, að markaðurinn búi yfir getu til að leiðrétta eigin mistök. Þeir boða einkavæðingu þjóðarauðlinda og almannaþjónustu. Þeir krefjast afnáms reglugerða og eftirlits með starfsemi markaðarins. Til þess að laða að erlenda fjárfestingu er þjóðríkjunum att út í samkeppni niður-á-við til að lækka skatta á fyrirtækjum og fjármagnseigendum. Allt er þetta boðað í nafni aukins hagvaxtar og tækniframfara, í krafti samkeppni. Þegar frjálshyggjumenn eru spurðir, hverjum í hag hagvöxturinn sé, ef bróðurpartur hans kemur í hlut þeirra, sem eru forríkir fyrir – þá er svarið þetta: Fjárfestingar hinna ríku munu skapa störf; og með tíð og tíma munu tekjurnar af fjárfestingunni “leka niður” (e. tricle down) til hinna snauðu. Þetta hét áður, að molar af borðum auðkýfinganna myndu hrjóta niður til hinna hungrandi. Lyftir ekki flóðið öllum bátum jafnt?

Ísland: Tilraunastofa nýfrjálshyggjunnar

Í 30 ár hefur þetta verið ráðandi hugmyndafræði eða viðtekin viska (e. Washington-consensus) þeirra, sem ráðið hafa heiminum: Flestra ríkisstjórna, stjórnarstofnana Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra fjölþjóðauðhringa, sem ráða yfir auðlindum heimsins. Þar að auki hefur þetta verið ráðandi hugmyndafræði í akademíunni, þar sem rétttrúnaðarhagfræði hefur svarist í fóstbræðalag við pólitíska rétthugsun í kennslustofunni til þess að heilaþvo æskuna. Eftir fall kommúnismans árið 1991 boðaði Bush sr. Bandaríkjaforseti, að þessi átrúnaður væri undirstaða nýrrar heimsskipunar (e. New World Order). Sumir fræðimenn gerðu sig að viðundri með því að kalla þetta “endalok sögunnar” (Fukuyama). Þúsundáraríkið var í nánd.

Vöxtur hins fótfráa alþjóðafjármagns, í samanburði við þær tekjur, sem raunhagkerfið (framleiðsla á vörum og þjónustu) skapar, hefur náð allt að stjarnfræðilegum stærðum á þessum þremur áratugum. Hagfræðinga greinir á um það eitt, hvort þetta uppsafnaða fjármagn, sem þarf að skila eigendum sínum arði, er orðið tíu eða fimmtán- sinnum meira en þjóðarframleiðsla heimsins (GDP) á ári. Ameríkanar orða þetta svo, að Wall Street hafi yfirtekið Main Street. Valdajafnvægið hefur með afdráttarlausum hætti snúist hinu alþjóðlega fjármagni í hag, gegn þjóðríkjum, sem eiga í vök að verjast – og gegn vinnuaflinu. Hinn ótæmandi “varaher hinna atvinnulausu” (svo vitnað sé í Karl Marx), sem hefur gengið til liðs við alþjóðhagkerfið meðal fjölmennustu þjóða heims (Kína, Indland o.fl.) hefur haft þau áhrif, að laun verkafólks í þróuðum ríkjum hafa haft tilhneiginu til að staðna og samningsstaða verkalýðshreyfingar hefur veikst.

Vilji maður reyna að skilja áhrif þessarar “nýju heimsskipunar” – sem er réttlætt með hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar og byggð á öfgakenndri trú á yfirburðum hins frjálsa markaðar – er ekki úr vegi að líta á ris og fall Íslands á seinasta áratug sem víti til varnaðar.

Fram undir aldamótin síðustu var Ísland talið vera í hópi hinna fimm norrænu velferðarríkja – að vísu vanþróaðra en hin fjögur – en með sömu erfðaeinkenni. Fyrir aldamótin síðustu komst ný kynslóð nýfrjálshyggjumanna til valda í Sjálfstæðisflokknum og náði þar með forystuhlutverki í stjórn landsins í rúmlega þrjú kjörtímabil. Flestir voru einlægir aðdáendur Thatcher og Reaganog sumir hverjir með hagfræðigráðu frá virtum bandarískum háskólum. Þeir gerðu Ísland að eins konar pólitískri tilraunastofu nýfrjálshyggjunnar. Að lokum var þeim hent út fyrir atbeina fjöldamótmæla (einsdæmi í Íslandssögunni), sem voru kennd við “potta-og-pönnur” reiðra kjósenda, sem höfðu fengið sig fullsadda af tilraunastarfseminni.

Þegar nýfrjálshyggjudrengirnir höfðu fest sig í sessi, fylgdu þeir guðspjöllunum í þaula. Þeir einkavæddu fiskistofnana og afhentu þá fyrirtækjum, sem voru pólitískt í náðinni. Þessu er helst að líkja við það, hvernig hinar ríkulegu auðlindir Rússlands voru afhentar fáeinum ólígörkum, sem þar með öðluðust ómótstæðilegt pólitískt vald í Rússlandi. Sama átti við um Ísland. Næst á dagskrá var einkavæðing bankanna og annarra fjármálastofnana. Það var yfirlýst stjórnarstefna að breyta Íslandi í alþjóðlega fjármálamiðstöð. Hinir nýju bankaeigendur áttu greiðan aðgang að ódýru lánsfjármagni erlendis (sem byggðist á lánstrausti ríkisins fram að því) og margfölduðu starfsemi sína erlendis, uns þeir voru orðnir tíu sinnum stærri en þjóðarframleiðsla Íslands.

Þetta var langt umfram það, sem íslenska hagkerfið, íslenski Seðlabankinn eða greiðslugeta íslenskra skattgreiðenda gat staðið undir. Þegar herti að á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum kom á daginn, að þessi fjárhagslega spilaborg var á sandi byggð. Þegar hinn kunni fjármálasérfræðingur, Willem Buiter, var spurður ráða, sagði hann það ekki spurningu um hvort – heldur bara hvenær – spilaborgin mundi hrynja. Sannleiksaugnablikið kom eftir fall Lehmans Brothers í september, 2008. Það var neistinn sem kveikti bálið.

Íslenska þjóðin varð fyrir þrefaldri kreppu. Fjármálakerfi þjóðarinar hrundi í heild sinni. Þjóðargjaldmiðillinn lenti í frjálsu falli, þannig að skuldir fyrirtækja og heimila tvöfölduðust nánast á einni nóttu. Afleiðingin varð verðbólga, sem þýddi, að vextir af lánum ruku upp í á þriðja tug prósenta. Seðlabankinn varð gjaldþrota. Flest fyrirtæki voru tæknilega gjaldþrota. Atvinnuleysið rauk upp. Mörg heimili, sem höfðu tekið lán í erlendum gjaldmiðli – aðallega unga fólkið í landinu – hafa misst eignir sínar. Landflótti hinna ungu er hafinn. Og hvert fara flestir? Aftur til Noregs, landsins sem við yfirgáfum fyrir meira en þúsund árum – á flótta undan ofríki ríkisins og í leit að frelsinu.

Efnahagskreppan hefur einnig valdið djúpri stjórnmálakreppu – jafnvel stjórnkerfiskreppu. Hin alþjóðlega fjársvikamylla, sem sérfræðingar hafa afhjúpað eftir fall, er svo risavaxin og flókin, að hún er langt umfram getu stofnana þjóðfélagsins (t.d. ákæruvalds, eftirlitsstofnana og dómstóla) til að leysa. Það er ótrúlegt en satt, að gjaldþrot íslensku bankanna þriggja er af þvílíkri stærðargráðu, að það nær inn á listann yfir tíu mestu gjaldþrot fjármálasögunnar. Góðu fréttirnar eru þær, að – ólíkt Írlandi – urðu íslensku bankarnir gjaldþrota. Fegin sem þau vildu, var það langt umfram getu íslenskra stjórnvalda að bjarga bönkunum frá falli. Erlendir lánadrottnar – aðallega þýskir bankar – hafa þess vegna tapað morð fjár. Það breytir ekki því, að skuldasúpan, sem íslenskir skattgreiðendur sitja uppi með eftir þessa tilraunastarfsemi nýfrjálshyggjunnar, hefur þýtt atvinnu- og eignamissi fyrir fjölda fólks og lífskjaraskerðingu fyrir þjóðina í heild, meðan hún er að vinna sig út úr skuldafangelsinu.

Hvaða lærdóma má af þessu draga? Þennan meðal annars: Að sleppa lausum eyðileggjandi öflum óbeislaðs kapítalisma, án þess að reynt sé að halda þeim í skefjum með atbeina lýðræðislegs ríkisvalds, leiðir til allsherjar ófarnaðar. Meðal annarra orða: Skefjalaust frelsi hinna fáu leiðir til takmarkana á frelsi hinna mörgu. Maður sem er sokkinn upp fyrir haus í skuldir, er ekki frjáls, er það ? Þetta er okkar saga. Þetta er saga margra annarra þjóða. Það mun taka okkur Íslendinga mörg ár að bæta fyrir þessa skelfilegu tilraun nýfrjálshyggjumanna með okkar þjóðfélag. Vonandi finnum við um síðir réttu leiðina til baka í samfélag norrænna velferðarríkja, þar sem við eigum heima.

Asni klyfjaður gulli

Þegar við hugleiðum eymd hins snauðu fjölda í þriðja heiminum – frá Haiti til Himalaya, eða frá Afríku til Arabaheimsins – staldra flestir fljótlega við niðurdrepandi áhrif spillingarinnar, sem blómstar í ranni stjórnmálaforystu og viðskiptaforkólfa þessara landa. Þeir sem kynnst hafa smitberandi áhrifum spillingarinnar á æðstu stöðum, hafa margir hverjir glatað voninni um, að við getum upprætt fátæktina í mannheimum á þessari öld, þrátt fyrir gnótt fjármagns og tækni til að leysa vandann. Hvers vegna er það, að klíkukapítalismi (e. crony capitalism) í bland við frændhygli, valdbeitingarstjórn eða einhvers konar erfðalénsveldi, virðist vera ráðandi stjórnarfar vítt og breitt um heiminn?

Peningarnir tala sínu máli. Gríðarlegur auður, sem safnast hefur á fárra hendur, færir hinni alþjóðlegu fjármálaelítu gríðarleg völd upp í hendurnar. Peningarnir kaupa vald eða aðgang að valdi; peningarnir kaupa stjórnmálamenn og flokka; peningarnir kaupa fjölmiðla og ráða umræðunni; með peningum má kaupa lagasetningu. Þess vegna eru hundruð lobbyista um hvern þingmann á Capitol Hill í Washington D.C..

Alþjóðlegir auðhringar – margir hverjir margfalt auðugri og valdameiri en veikburða þjóðríki – leita kerfisbundið eftir yfirráðum yfir auðlindum jarðar: Olíu, gasi, öðrum orkuauðlindum, dýrum málmum, frjósömu landi og – í vaxandi mæli í framtíðinni – ómenguðu og drykkjarhæfu vatni. Vald helstu auðhringanna spannar allan hnöttinn. Þeir eru oftar en ekki ráðandi á heildsölu- og jafnvel smásölumörkuðum. Þeir hafa sterka vígstöðu í samskiptum sínum við harðstjóra þriðja heimsins. Það vefst lítt fyrir þeim að fá þá til að láta að vilja sínum – fyrir rétt verð.

Hvers vegna er það, þegar örvæntingin loksins knýr hinn undirokaða lýð til uppreisnar gegn kúgurum sínum, að fyrstu fréttirnar af hinum brottreknu harðstjórum snúast ævinlega um að hafa uppi á leynilegum bankareikningum þeirra í Sviss? Eiginkona Ben Ali, harðstjórans í Túnis, sem flúði undan réttlátri reiði landa sinna á náðir olíukónganna í Saudi-Arabíu, rændi gullforða Túnis úr vörslu Seðlabanka landsins og hafði með í farteski sínu úr landi. Segir það ekki sína sögu, að þegar fjöldinn loks reis upp í örvæntingu og reiði gegn kúgurum sínum í Arabaheiminum – undir fánum frelsis og lýðræðis – vissu leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga.

Harðstjórarnir reyndust vera skjólstæðingar Bandaríkjamanna, Breta og Frakka. Hverjir hafa vopnað harðstjórana gegn fólkinu, eða hagnast af vopnasölu til þeirra? Hvort var mikilvægara, að harðstjórarnir tryggðu, að olían héldi áfram að renna til að knýja áfram hagvaxtarvél ríku landanna, eða að fólkið fengi sinn sanngjarna hlut af þeim auði, sem nýting þeirra eigin auðlinda skapaði? Höfðu “leyniþjónustur okkar” ekki verið í nánu samstarfi við starfsbræður sína í þessum löndum, jafnvel þótt við vissum fullvel um pyntingarklefana? Sama gamla sagan enn og aftur: Vald sérhagsmunanna, frelsi hinna fáu til að græða, eða frelsi hinna mörgu til að lifa mannsæmandi lífi? Með hverjum stöndum við? Stöndum við með fólkinu eða forréttindaliðinu?

Auðveldi gegn lýðræði

George Soros, ungverski fjármálasnillingurinn, sem lagði breska sterlingspundið að velli í velheppnaðri fyrirsát árið 1992 – sagði fyrir skömmu, að hættan sem steðjaði að lýðræðinu, væri ekki lengur pólitísk trúarbrögð liðinnar aldar, sem kennd voru við kommúnisma og fasisma; hættan sem steðjaði að fulltrúalýðræðinu væri sú, að það væri að breytast í alræði peningaaðalsins (e. plutocracy), þar sem kosningarétturinn hefði ekki framar neina merkingu og lýðræðið hefði umbreyst í sýndarveruleika, þar sem peningavaldið deildi og drottnaði á bak við tjöldin. Stærsti hópur kjósenda í Bandaríkjunum – hinir óháðu – eiga enga fulltrúa á þingi. Þátttaka í þingkosningum er iðulega undir 30% . Hvers vegna að kjósa, ef það er fyrirfram vitað, að þingmennirnir eru leiguþý sérhagsmuna?

Kunnur hagfræðiprófessor, Dr. Vivek H. Dehejia, og rannsóknarfélagi við CESifo í München, orðar sömu hugsun svona í grein í International Herald Tribune (14.04.11):

“Hvort tveggja spilling og ójöfnuður hefur nú þegar eitrað stjórnmálin svo mjög, að lögmætikapítalismans – markaðskerfisins – stafar ógn af. Þetta vekur þrýsting á umbætur, sem snúast um jafnari tekjuskiptingu. Slíkar umbætur draga úr hvatanum, sem knýr áfram gróðavon kapítalistanna, sem sjálf var undirrót vaxandi ójafnaðar. Nauðsyn jafnari tekjuskiptingar og félagslegra úrræða á vegum ríkisins verður í leiðinni að tæki til að leiðrétta öfgar markaðaskerfisins. Í Bandaríkjunum gerðist þetta á u.þ.b. hálfri öld í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar. Það var ekki fyrr en öflug millistétt lét til sín taka pólitískt og knúði fram umbætur með löggjöf, reglusetningu og ströngum viðurlögum við spillingarbrotum, sem það tókst að sníða af verstu öfgar laissez-faire kapítalismans”.

Hin alþjóðlega fjármálakreppa, sem nú geysar, þar sem skattgreiðendur með atbeina ríkisvaldsins hafa verið látnir borga skuldir banka og fjármálastofnana, vekur einmitt upp alvarlegar spurningar um lögmæti spilavítis-kapítalisma af þessu tagi. Í þessu samhengi er gagnlegt að íhuga hinn óskráða þjóðfélagssáttmála (e. social-contract), sem þrátt fyrir allt, liggur til grundvallar kapitalísku þjóðfélagi.

Það er enginn að tala um algeran jöfnuð. Flest upplifum við það á æviferlinum,að einstaklingarnir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Það kennir okkur að meta fjölbreytni mannlegrar tilveru. Það vefst fyrir fæstum að viðurkenna, að frumkvæði einstaklingsins og dugnaður, einstakir hæfileikar og skapandi uppfinningar, verðskulda réttláta umbun. Flest okkar eru tilbúin að samþykkja allnokkurn ójöfnuð í tekju- og eignaskiptingu, svo lengi sem það er réttlætt með viljanum til að taka áhættu og að taka afleiðingum gerða sinna. Svo lengi sem þeir, sem vilja hámarka gróða sinn, taka áhættu fyrir eigin reikning og færast ekki undan því að bera sjálfir tapið; svo lengi sem fjármagnseigendur fara að settum leikreglum og borga skatta sína og skyldur til samfélagsins (í stað þess að fela illa fenginn auð í skattaskjólum) og sækjast ekki eftir forréttindum í krafti auðs og áhrifa – svo lengi sem þetta stenst – má segja, að þjóðfélagssáttmálinn haldi.

Ef hins vegar almenningi er stillt upp við vegg frammi fyrir orðnum hlut, þannig að hagnaður góðærisins var einkavæddur, en skuldir kreppunnar þjóðnýttar – þá er sjálfur þjóðfélagssáttmálinn rofinn; lögmæti kapitalismans er þar með farið veg allrar veraldar. Í einni af sínum mikilfenglegu sögulegu skáldsögum, Íslandsklukkunni, lætur Halldór Kiljan Laxness eina af sögupersónum sínum, Jón Hreggviðsson, segja um réttlætið, sem danska nýlendustjórnin útdeildi handa hinum sveltandi lýð: “Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti”.

Í sjávarbyggðunum við norðanvert Atlantshaf, þar sem menn hætta lífi sínu á hafi úti á degi hverjum í stríði við óblíð náttúruöfl, hefur það löngum þótt gott og gilt, að skipstjórinn fengi þrjá hluti á móti einum hlut hásetans. Þessi tekjumunur hefur hingað til þótt nægur hvati fyrir metnaðarfullan sjómann til að ná stöðu karlsins í brúnni. Getur nokkur maður axlað þyngri ábyrgð en þá að bera ábyrgð á lífi og limum félaga sinna? Hvers virði er eitt líf?

Að standast dóm reynslunnar

Beittasta gagnrýnin á norræna módelið eða evrópumódelið (e. the i>European social model) er eftirfarandi: (1) Sjálfvirk útþensla allsráðandi ríkisvalds mun að lokum drepa í dróma athafnafrelsi einstaklingsins og lama sköpunarkraft hans með sama hætti og í alræðisríkjum kommúnista og fasista. Velferðarríkið muni því óhjákvæmilega enda í alræði (Hayek). (2) Við þetta bætist gagnrýni af praktískum toga. Því er haldið fram, að velferðarríkið, með sínum háu sköttum til að fjármagna sívaxandi ríkisútgjöld, og með reglugerðabákni, sem lami allt frumkvæði og sköpunarkraft, muni einfaldlega fara halloka í hinni hörðu samkeppni, sem geisar á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta muni leiða til fjárflótta, tæknilegrar stöðnunar, fjöldaatvinnuleysis og hnignunar. Velferðarríkið er, að sögn, ekki samkeppnisfært (Freedman).

Hvernig ríma þessi dómsorð við staðreyndirnar?

Lítum fyrst á algengustu mótbárurnar – að velferðarríkið sé ekki samkeppnishæft. Allt frá aldamótunum seinustu hafa allar alþjóðlegar samanburðarkannanir, hvaða nafni sem nefnast, sýnt að Norðurlöndin (gjarnan í samfloti við Sviss og þau Asíuríki, þar sem ríkið rekur virkasta efnahagsstefnu, eins og S-Kóreu og Taiwan) hafa reynst vera “best í bekknum”, þegar að því kemur að mæla samkeppnishæfni. Þetta á við um áhrif vísindarannsókna, tækninýjungar, þátttöku kvenna á vinnumarkaðnum, atvinnusköpun, lítið atvinnuleysi, aðdráttarafl fyrir erlenda fjárfestingu, hagvöxt, hlut útflutnings í þjóðartekjum o.s.frv., o.s.frv…

Hvers vegna? Ég veit, hvernig Olof Palme hefði svarað þessari spurningu: “Þetta er vegna þess að við jafnaðarmenn höfum staðfastlega lagt áherslu á langtímafjárfestingu í mannauð og innviðum samfélagsins.Þetta er vegna þess að við leggjum höfuðáherslu á jöfn tækifæri fólks með frjálsum aðgangi að gæðamenntun, sem skilur engan útundan”.

Mér finnst þetta vera fullnægjandi svar. Annars tala staðreyndirnar sjálfar sínu máli. Skv.árlegu mati Sameinuðu þjóðanna á mannlegum lífsgæðum eru Norðurlöndin þar í fremstu röð. Hið sama á við um aðrar þjóðir, þar sem jöfnuður er talinn til dyggða. Í nýútkominni bók (Richard Wilkinson og Kate Picket: The Spirit Level) eru færð fyrir því sannfærandi rök, að því meiri jöfnuður sem er í einu þjóðfélagi, þeim mun heilsuhraustara er fólkið, nánast sama á hvaða mælikvarða er mælt: Barnadauði er minni, lífslíkur lengri, glæpir færri og sjúkdómar viðráðanlegri, starfsöryggi er meira og almenn vellíðan meiri.

Um martröð Hayeks, nefnilega að velferðarríkið endi í alræðisríki, er það eitt að segja, að hún blífur sem martröð Hayeks. Raunveruleikinn er allur annar. Lýðræðið stendur djúpum rótum á Norðurlöndum. Það hefur satt að segja aldrei verið meira sprelllifandi. Lýðræðisleg skoðanaskipti og málefnaleg umræða er óvíða jafn beinskeytt og aðgangshörð. Norrænu velferðarríkin hafa í reynd náð að sameina skert lýðræði, almenn lífsgæði, öra nýsköpun, félagslegt öryggi og almenna hagsæld. Engar þjóðir aðrar hafa náð jafngóðum árangri á jafnmörgum sviðum. Frjálshyggjuleið Bandaríkjanna stendur þar langt að baki og virðist nú vera á leið út í miklar ógöngur vegna hraðvaxandi ójöfnuðar og skuldasöfnunar, sem ógnar í sívaxandi mæli lífskjörum millistéttanna. Hörð fátækt undirstéttarinnar, sem löngum hefur verið afskipt þar í landi, virðist einnig stefna í að versna með nýjustu niðurskurðarhugmyndum óvina velferðarríkisins þar í landi.

Og hvað með frelsið? Um það gildir nokkurn veginn það sem Olof Palme sagði í einni af hans seinustu ræðum, skömmu áður en hann var myrtur á götu úti í Stokkhólmi árið 1986:

Með því að tryggja tækifæri allra, án tillits til efnahags, stéttar eða stöðu, til þess að afla sér menntunar og þroska hæfileika sína, erum við í reynd að færa út landamæri frelsisins.

(Þessi grein er unnin upp úr fyrirlestri, sem höfundur flutti á alþjóðlegu málþingi stúdenta við Tækniháskólann í Ilmenau í Thüringen þann 14. maí, 2011. Málþingið fjallaði um frelsið, einstaklinginn og samfélagið.)

Jón Baldvin Hannibalsson

, , , ,

Inline
Inline