Sífelld endurreisn


Sigurður E. Guðmundsson, rakti sögu Bókmenntafélags jafnaðarmanna á stofn- og endurreisnarfundi í Þjóðmenningarhúsinu þann 18. nóvember, 2011. Erindið fer hér á eftir.

Góðir fundarmenn
Á þingslitafundi 26. sambandsþings Alþýðusambands Íslands hinn 12. desember 1926 kvaddi Ólafur Friðriksson sér hljóðs og flutti svohljóðandi tillögu:

Sambandsþingið ályktar að stofna skuli Bókmenntafjealg Alþýðu og felur framkvæmdastjórn að hrinda málinu í framkvæmd. Skal fyrirkomulag þess og lög vera sem líkast því, er segir í meðfylgjandi uppkasti að lögum Bókmenntafjelags Alþýðu.

Tillagan ásamt téðu uppkasti að lögunum, sem kynnt verða hér á eftir, var samþykkt, í einu hljóði, umræðulaust.

Þó að tildrögin að stofnun félagsins virðast ljós, og það hafi verið formlega stofnsett 1927 eða síðar á þriðja áratugnum, er samt á ýmislegt að líta. Í sögusafni alþýðu í Þjóðskjalasafni er til dæmis að finna handrit að tillögu um stofnun þess, er lögð var fyrir 7. sambandsþingið í desember 1926. Hún er samhljóða þeiri, sem áður getur, nema hvað þar stendur að sambandsstjórn skuli hrinda málinu í framkvæmd, en í þingtíðindum segir, að framkvæmdastjórn skuli gera það. Meiru varðar að lítill seðill er festur við skjalið þar sem á stendur að á tillögunni sé rithönd Jóns Baldvinssonar. Hann er ritaður af Björgvini Sighvatssyni, sem á sínum tíma lagði fram mikla og vandaða vinnu við að koma skjalamálum Alþýðuflokksins í sómasamlegt horf. Þessi ábending gæti gefið til kynna, að Jón Baldvinsson hafi verið tillögumaður að stofnun þess, en nú er óyggjandi að það var Ólafur Friðriksson. Þá hefur einnig komið í ljós að þótt félagið hafi tæpast verið stofnað fyrr en 1927 eða síðar, er það skráður útgefandi að tæplega 70 síðna riti, sem kom út árið 1924, tveim til þrem árum fyrr. Það heitir Höfuðóvinurinn, er eftir Dan Griffiths og geymir nokkrar ritgerðir um jafnaðarstefnuna. Ramsay Mac Donald, fyrrv. forsætisráðherra ritar formálann, en þýðendur eru Jón Thoroddsen, Vilmundur Jónsson og Þórbergur Þórðarson.

Fundargerðabækur félagsins hafa enn ekki fundizt, en Almanak alþýðu, sem félagið gaf út árlega árið 1930 til 1932, um og yfir 100 síður að stærð, hverju sinni, geyma miklar upplýsingar um starfsemi þess, auk fróðlegra og merkilegra greina um jafnaðarstefnuna og alþýðusamtökin. Þar er að finna lög þess þau árin, ársreikninga, upplýsingar um stjórn þess og félagsmannaskrá. Í síðasta hefti almanaksins, árið 1932 eru félagsmenn taldir 340 talsins. Lögin eru að mestu efnislega samhljóða því, sem Ólafur Friðriksson lagði til og samþykkt voru á sambandsþinginu 1926.

Auk Almanaksins gaf félagið út nokkrar bækur þau 6-7 ár, sem það starfaði af mestum krafti, en hér gefst ekki tóm til að nefna þær allar.. Það hefur sýnilega lagzt niður fyrir miðjan fjórða áratuginn, bæði vegna þess að félagsmenn voru of fáir til að standa undir viðamikilli útgáfustarfsemi, heimskreppan var í algleymingi, kjör almennings voru rýr og prentskuldir við Alþýðuprentsmiðjuna hljóðust upp. En án hennar hefði útgáfustarfsemin ekki staðið með þeim blóma, sem hún gerði þó, eftir því sem aðstæður leyfðu. Almennt vil ég segja að félagið starfaði af reisn og miklum myndarskap alla sína tíð, að bezt verður séð, og skilur því eftir sig merkilega arfleifð. Og sannarlega er það þeim mönnum til sóma, sem stóðu að starfsemi þess.

Þótt ætla megi, að hér mætti setja amen eftir efninu, er það engan veginn svo. Jafnaðarmenn voru ekki af baki dottnir. Um og fyrir 1940 höfðu þeir sett Menningar- og fræðslusamband alþýðu á laggirnar og völdu Finnboga Rút Valdemarsson til að stjórna þeirri starfsemi. Augljóslega átti það að taka við af bókmenntafélaginu, en færast þó gjarnan meira í fang. Óneitanlega virðist því svipa mikið til systursamtaka sinna á hinum Norðurlöndunum, sem yfirleitt heita Arbejdernes Oplysningsforbund eða annað ámóta. Enn sem komið er vitum við ekki nóg um starfsemina, því að fá skjöl hafa enn fundizt um hana. Það hafði aðsetur í Alþýðuhúsinu, stundaði merkilega útgáfustarfsemi og rak kerfi útsölumanna um land allt. Í Þjóðskalasafni má finna lög þess í Sögusafni alþýðu, og eru þau harla lík lögum Bókmenntafélags jafnaðarmanna að efni til, enda lít ég á það sem arftaka þess. Einnig það starfaði af myndarskap, en það hefur eflaust endað sína daga, snemma á fimmta áratugnum, af svipuðum ástæðum og bókmenntafélagið, nema hvað dýrtíð og verðbólga spilltu nú einnig fyrir. Samt liðu ekki mörg ár þar til menn hófust handa á nýjan leik.

Um og fyrir 1950 var Menningar- og fræðslusamband alþýðu endurreist og enn var það Alþýðuflokkurinn, sem átti það og kom því á laggirnar. Þá var það Gylfi Þ. Gíslason, sem mig minnir að hafi einna helzt gengist fyrir því, nýorðinn ritari Alþýðuflokksins, en ásamt honum hygg ég að þeir Ármann Halldórsson, skólastjóri, Bjarni Vilhjálmsson, cand. mag., og Arngrímur Kristjánsson, skólastjóri, hafi verið í fararbroddi. Í þetta skiptið samdi MFA við Ragnar Jónsson í Helgafelli um rekstur á félaginu og það byrjaði vel. Bæði hófst myndarleg bókaútgáfa á vegum þess og jafnframt hóf það útgáfu á ársriti, sem nefnt var Menn og menntir og kom þrisvar út árin 1950-1952. Ritstjóri þess var Tómas Guðmundsson, skáld og líkt og Almanak alþýðu áður fyrr flutti það margar góðar og vandaðar greinar. Samt fjaraði undan því eftir 3-4 ár og starfsemi þess lauk fyrir miðjan sjötta áratuginn.

Þrátt fyrir þetta höfðum við ekki enn gefizt upp og nú var enn ein tilraunin gerð, þó ekki í það skiptið af hálfu Alþýðuflokksins, að forminu til, heldur nokkurra áhugasamra einstaklinga. Þessi síðasta tilraun var gerð í kjölfar flokksþings Alþýðuflokksins haustið 1952. Enn vorum við jafnaðarmenn áhugasamir fyrir því að koma á laggirnar fræðafélagi, sem legði fyrst og fremst áherzlu á að rækta okkar gamla arf, leggja alúð við hugsjónir okkar og ræða hugmyndir og hugsanlegar lausnir á vandamálum samtímans og framtíðarinnar, allt í farvegi jafnaðarstefnunnar. Jafnframt vildum við fylgjast sem bezt með þróun mála í þeim löndum, þar sem félagar okkar voru áhrifamestir. Því var það að við stofnuðum Málfundafélag jafnaðarmanna á árinu 1953. Ég get trútt um talað, því ég held að hugmyndin hafi komið frá mér og í félagslögunum má sjá ákvæði, sem sýnir glöggt að það var einmitt þetta sem við ætluðum okkur. En þróun mála fór á allt aðra leið. Það gerðist stjórnmálafélag og því urðum við mörg viðskila áður en við gengum í það. En það var eftirsjá að því sem félagi hugsjónamanna, svo sem að var stefnt í upphafi.

Um 60 ára skeið höfum við jafnaðarmenn ekki reynt, fyrr en nú, að koma á laggirnar félagi, sem hefði það fyrir meginmarkmið að rækta okkar upprunalega arf, fylgjast með og ræða kenningar jafnaðarstefnunnar, hugsjónir jafnaðarmanna og hugmyndir okkar um nýjan og betri heim. Þegar ég lít yfir farinn veg, þann, sem ég hef verið að lýsa, finnst mér bæði merkilegt og uppörvandi að sjá, að aldrei hefur þessi neisti slokknað með öllu, þótt hann hafi dofnað á stundum, og alltaf blossað upp á nýjan leik. Hver kynslóðin eftir aðra hefur haft svo mikla trú á jafnaðarstefnunni að hún hefur verið reiðubúin til að fylkja sér undir fána hennar. Samfara því hefur skilningurinn á menntun og fræðslu verið snar þáttur í starfsemi okkar. Hvað eftir annað hefur það merki verið hafið á loft af myndarskap og reisn, þótt við höfum síðan neyðzt til að draga úr starfi okkar af óviðráðanlegum ástæðum.

Ég held, að í þeim hrunadansi kommúnisma og kapítalisma, sem hefur dunið yfir heiminn síðustu ár og áratugi, hafi það komið berlega í ljós, að þær stefnur eru hugmyndalega og siðferðilega gjaldþrota og að Jafnaðarstefnan muni reynast heilladrýgst í bráð og lengd. En hún fær ekki staðizt, ein og óstudd, ef liðsmenn hennar bregðast. Þeir verða sífellt að bæta sprekum á hugsjónaeldinn. Þess vegna erum við hér í dag.

Ég verð að játa, að mér er ekki kunnugt um félög af þessu tagi á vegum alþýðusamtakanna í næstu nágrannalöndum okkar. En skýringin er sennilega sú, að slík starfsemi er innan vébanda þeirrar umfangsmiklu og víðtæku starfsemi, sem menningar- og fræðslusamtök alþýðu reka í þeim löndum. Og það er eflaust einnig ástæðan fyrir því, að um 1940 var bókmenntafélagið ekki endurreist, heldur var Menningar- og fræðslusamband alþýðu stofnað. Þegar MFA var endurreist í annað skiptið, fyrir nokkrum áratugum síðan, gerðist það á þingi Alþýðusambands Íslands, með einróma samþykki þingsins, og hefur síðan að mestu starfað sem skóli fyrir verkalýðshreyfinguna. En þá er spurning hvort það sé ekki löngu komið að okkur að endurreisa okkar gamla Bókmenntafélag jafnaðarmanna? Á því held ég að sé brýn þörf og þótt fyrr hefði verið.

Þótt ég viti ekki um fræðafélög jafnaðarmanna í næstu nágrannalöndum okkar er kunnugt um starfsemi af þessu tagi í Bretlandi og Þýzkalandi. The Fabian Society var stofnað á Bretlandseyjum í janúar árið 1884. Í því eru nú 6500 félagsmenn, í mörgum deildum víðs vegar í Bretlandi og víðar um heim. Félagsgjald er tæp 20 pund á ári og fyrir það fá menn tímarit félagsins, margvísleg önnur rit og bæklinga. Námskeið eru haldin á vegum þess, starfshópar, sem kryfja einstök viðfangsefni til mergjar og sumarskólar starfa á hverju sumri. Óhætt er að segja að starfsemi þess sé viðamikil og þróttmikil og áhrif þess eru geysimikil á stjórnmálaþróunina í Bretlandi. Hefur það alla tíð verið svo. Það er ekki félagsbundið í Verkamannaflokknum, en starfar náið með honum. Við höfum sum verið félagsbundin í því um nokkurra ára skeið og ég held að okkur dreymi einna helst um að taka það til fyrirmyndar. – Friedrich-Ebert-stofnunin í Þýzkalandi var stofnuð árið 1925, ári fyrr en Ólafur Friðriksson flutti tillöguna sína á Alþýðusambandsþinginu, og virðist vera mótuð mjög í sama dúr og menningar- og fræðslusamtök alþýðu á Norðurlöndunum. Hún hefur mátt sæta hremmingum, rétt eins og við og þó miklu meiri. Árið 1933 lögðu nazistar starfsemi hennar í rúst og hún var ekki endurreist fyrr en 1947. Síðan hefur hún verið geysivíðtæk og mjög öflug, bæði um gjörvallt Þýzkaland og í meir en 100 þjóðríkjum öðrum. Meginhlutverk hennar hefur alltaf verið fræðsla um pólitískt lýðræði og stuðningur við það, en hún kemur samt miklu víðar við. Hún nýtur mikilla fjárframlaga úr ríkissjóði og fylkissjóðum Þýzkalands. Að sögn Der Spiegel þann 30. október sl. hefur hún 120 milljónir Evra til afnota í ár og er það miklu meira fé en jafnaðarmannaflokkurinn sjálfur hefur til ráðstöfunar. Að sögn tímaritsins standa nú yfir átök milli hennar og flokksforystunnar vegna þess, að flokksstjórninni finnst sem stefnumið hennar og málflutningur sé ekki nógu nútímalegur, auk þess sem þeir, er halda um stjórnartauma, mættu gjarna draga sig í hlé vegna aldurs. En þeir eru hinir sprækustu, þverskallast við og S. Gabriel hefur enn ekki komið vilja sínum fram!

Þegar bókmenntafélagið starfaði með blóma á árum áður voru nokkrir fremstu menn þess Vilmundur Jónsson, Þórbergur Þórðarson, Jón Thoroddsen, Hallbjörn Halldórsson, Guðbrandur Jónsson, Ingimar Jónsson, Yngvi Jóhannesson, Jakob Jóh. Smári, Sveinbjörn Sigurjónsson og Ólafur Þ. Kristjánsson. Félagsmannatalið ber með sér, að þar voru saman komnir öndvegismenn úr alþýðuhreyfingunni, konur og karlar, þótt ekki væru þeir allir úr einum og sama stjórnmálaflokknum. En allir áhugamenn um jafnaðarstefnuna og gengi hennar. Það er gott að minnast þessara manna og maður getur ekki annað en dáðst að dugnaði þeirra, hugsjónaeldi og baráttuhug. Ég held, að eins og nú er komið fyrir íslenzku þjóðinni, sé brýnt að hefja á loft merkið, sem þeir reistu. Og það megi ekki lengur dragazt. Til þess erum við saman komin hér í dag.

Þökk fyrir áheyrnina, Sigurður E. Guðmundsson

Hlekkur á Almanak alþýðu

, , , ,

Inline
Inline