bojkafn-handrit

Einkaskjalasöfn gerð opinber

Ásgeir Jóhannesson, stjórnarmaður í Bókmenntafélagi Jafnaðarmanna flutti neðangreint ávarp þann 24. janúar, 2013 í Landsbókasafninu þegar formlega var opnað aðgengi fyrir almennin og fræðimenn að sjö einkaskjölum forystumanna verkalýðshreyfingarinnar og Alþýðuflokksins á fyrrihluta og um miðbik síðustu aldar. 

Landsbókavörður! Góðir gestir.!

Það er mikil ánægja að vera viðstaddur hér með ykkur í dag þegar opnað er formlega aðgengi fyrir almenning og fræðimenn að sjö einkaskjalasöfnum forustumanna verkalýðshreyfingarinnar og Alþýðuflokksins á fyrrihluta og um miðbik síðustu aldar.

Allir hlutir eiga sér sína sögu.

Að höfðu samráði við síðustu kjörna stjórn Alþýðuflokksins var að frumkvæði og með stuðningi Alþýðuhúss Reykjavíkur og Styrktarsjóðs Magnúsar Bjarnasonar gerður samningur við Landsbókasafn – Háskólabókasafn um að skrá eftirlátin skjöl og gögn sem voru í fórum safnsins og höfðu verið um alllangt skeið. Magnús Bjarnason var kennari á Sauðárkrók , einlægur jafnaðarmaður og stuðningsmaður Alþýðuflokksins, og mælti svo fyrir að öllum eigum hans skyldi , eftir hans dag, varið til stuðnings jafnaðarstefnunni. -Arnbjörn Kristinsson bókaútgefandi sem verið hefur í forsvari Styrktarsjóðsins frá upphafi eða í meira en 40 ár gat ekki verið viðstaddur þessa athöfn vegna fjarveru úr borginni, en bað mig að flytja hér kveðju og heilla óskir frá sér í tilefni þessa merka sögu- og menningarviðburðar.

Eftir að starfsemi Alþýðuflokksins lagðist af við stofnun Samfylkingarinnar ákváðu stjórnir Alþýðuhússins og Styrktarsjóðsins að beita sér sameiginlega fyrir því að heiðra minningu nokkurra forustumanna jafnaðarmanna. Skyldi það meðal annars gert með því að stuðla að söfnun og skráningu allra skjala sem hægt væri að komast yfir og tengdust m.a. ævi og störfum þessara manna.. Einnig var ákveðið að semja um tölvuskráningu og varðveislu skjalanna, til þess að auðvelda öllum þeim, sem vildu kynna sér þau nánar, og jafnframt sögu verkalýðsbaráttunnar og Alþýðuflokksins hér á landi.

Er farið var að kanna þessi mál kom í ljós, að vegna fjárskorts höfðu sum þessara skjalasafna legið víða óflokkuð og óskráð í mismunandi geymslum, meðal annars í Landsbókasafni og Þjóðskjalasafni. Voru því gerðir samningar við bæði þessi stóru söfn um flokkun og skráningu allra skjala er þar finndust eða þangað bærust og tengdust málefnum Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar, þar á meðal þau sjö einkaskjalasöfn hjá Landsbókasafninu sem við kynnumst hér í dag. Með því yrðu þau sem allra fyrst gerð aðgengileg. Afrakstur þessa samstarfs við Landsbókasafnið má sjá hér í dag.

– Jafnframt þessu hafa gögnin verið samtengd hjá Þjóðskjalasafninu samskonar gögnum í öðrum söfnum, þar á meðal í 8 söfnum úti á landsbyggðinni auk allmikils safns slíkra skjala hjá Borgarskjalasafninu í Reykjavík. Í því samhengi má einnig nefna Dagsbrúnarsafnið, skjalasafn Alþýðusambands Íslands og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Söfnun skjala og annara gagna hefur haldið áfram , ásamt söfnun muna , minja og mynda frá þessum tíma til skráningar og varðveislu fyrir síðari tíma.

Fyrir 2 árum var endurreist Bókmenntafélag jafnaðarmanna, en það var upphaflega stofnað af þingi Alþýðusambands Íslands árið 1929 að frumkvæði Ólafs heitins Friðrikssonar. Bókmenntafélagið hefur nú opnað vefsíðu og verður þar fyrir komið slóð sem auðveldar áhugafólki og fræðimönnum að nálgast allar fáanlegar upplýsingar í skjalasöfnum um sögu og starfsemi Alþýðuflokksins svo og mikilvæga þætti í stjórnmálasögu landsins.

Við sem stöndum að þessu margþætta átaki erum þakklát öllu því góða fólki sem hefur afhent gögn forfeðra sinna og formæðra svo og öðrum þeim sem haf a komið á framfæri þeim skjölum sem söfnin varðveita og væntum við áframhaldandi samvinnu um þau mál og vaxandi áhuga fyrir því sögulega og menningarlega starfi sem hér er unnið. Jafnframt væri óskandi að aðrar stjórnmálahreyfingar gerðu gangskör að því að koma skjalamálum sínum frá liðinni tíð í sem best horf.

Að lokum vil ég færa Landsbókaverði Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur og starfsmönnum safnsins þar á meðal sérstaklega Braga Þorgrími Ólafssyni og Erni Hrafnkelssyni þakkir fyrir einstaklega ljúfa og ánægjulega samvinnu við framkvæmd þessa verkefnis og vona að það samstarf megi áfram haldast og leiði til vaxandi áhuga á sögu stjórnmála og jafnaðarstefnunnar á Íslandi.

Hér fyrir neðan eru hlekkir á söfnin sem um ræðir:

Barði Guðmundsson (Lbs 53 NF)

Emil Jónsson (Lbs 36 NF)

Hallbjörn Halldórsson og Kristín Guðmundardóttir (Lbs 52 NF)

Hannibal Valdimarsson (Lbs 51 NF)

Jón Baldvinsson (Lbs 38 NF)

Ólafur Friðriksson (Lbs 46 NF)

Stefán Pjetursson (Lbs 37 NF)

, , , , , , , , , ,

Inline
Inline