Samþætt barátta: Verkalýðshreyfing og jafnaðarmenn á Ísafirði 1921-1946

Sigurður Pétursson

Í upphafi þykir mér rétt að setja fram fullyrðingu: Meginstraumur verkalýðshreyfingarinnar hér á landi var frá upphafi umbótasinnaður og starfaði á forsendum lýðræðisjafnaðarstefnu. Þessi armur verkalýðshreyfingarinnar var ráðandi þar sem jafnaðarmenn náðu meirhluta í bæjarstjórnum, á Ísafirði og í Hafnarfirði, en einnig í Reykjavík um allt Vesturland og Vestfirði og víðast hvar um landið. Þetta gilti almennt fram yfir árið 1938, en lengur á Ísafirði og víðast á Vestfjörðum.

Í þessu erindi er ætlunin að ræða aðstæður á Ísafirði. En fyrst þetta:

Söguritun um íslenska verkalýðshreyfingu og íslensk stjórnmál hefur fram að þessu nær algerlega sniðgengið þennan meginstraum: Hina umbótasinnuðu verkalýðs- og stjórnmálabaráttu Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins frá 1916 til 1942.

Öld fjöldans
20. öldina má með sanni nefna öld fjöldans. Á 20. öld fékk almenningur í sínar hendur þau réttindi sem frjálslyndi 19. aldar lagði grunninn að: Kosningaréttur hélst í hendur við skoðanafrelsi, prentfrelsi og félagafrelsi. Félagsleg og efnahagsleg réttindi til handa öllum almenningi voru viðurkennd og jafn réttur karla og kvenna. Hér áttu verkalýðshreyfingin og jafnaðarmenn stærstan hlut að máli.

Á Ísafirði náði verkalýðshreyfingin og jafnaðarmenn meirihluta í stjórn kaupstaðarins strax árið 1921 og jafnaðarmenn héldu pólitískri forystu í bænum í aldarfjórðung, til 1946.

Nokkrar spurningar vakna, sem hér verður reynt að svara: Hvernig gerðist það og hvers vegna? Hverjar voru pólitískar áherslur jafnaðarmanna á Ísafirði og hver voru þau tæki sem notuð voru til að ná fram markmiðum þeim sem sett voru? Hvaða úrræðum var beitt og hvernig ríma þau við stefnumál jafnaðarmanna í Alþýðuflokknum á þessum tíma?

Ísafjörður var annar stærsti kaupstaður landsins um aldamótin 1900. Næstu tíu ár gekk vélvæðing bátaflotans yfir. Hún breytti byggðamynstri á Vestfjörðum. Byggðin þéttist. Á Ísafirði fjölgaði íbúum úr 1100 í um 1900, eða um tvo þriðju á einum áratug. Margir sjálfstæðir útgerðarmenn tóku að gera út vélbáta, óháð stóru verslununum sem áður stjórnuðu öllu lífi manna í plássinu.

Fjölbreytnin jókst og möguleikarnir með.
Á þessum árum var fyrsta verkalýðsfélagið stofnað á Ísafirði, árið 1906 (sama ár var Verkamannafélagið Dagsbrún stofnað í Reykjavík). Félagið á Ísafirði var skipað bæði körlum og konum, setti fram ákveðnar kröfur um styttingu vinnutíma og hærri laun og setti á verkstöðvun til að fylgja þeim eftir. Atvinnurekendur höfnuðu öllum samningum og knésettu félagið á nokkrum vikum. Tíu ár liðu þar til aftur voru stofnuð verkalýðsfélög í bænum.

Á þeim tíma voru bæði góðtemplarareglan og iðnaðarmenn áberandi í bæjarlífinu.
Góðtemplarareglan var öllum opin, bæði körlum og konum og öllum stéttum. Í henni öðlaðist margt alþýðufólk félagsreynslu og tók þátt í menningarstarfi, sem það hafði ekki möguleika á annars staðar. Iðnaðarmannafélagið vann að hagsmunamálum félagsmanna sinna bæði með samhjálp og með þátttöku í almennum framfaramálum. Bæði góðtemplarar og iðnaðarmenn tóku þátt í kosningum til bæjarstjórnar á Ísafirði eftir 1903.

Um sama leyti og sjö verkalýðsfélög í Reykjavík og Hafnarfirði stofnuðu Alþýðusamband Íslands og Alþýðuflokkinn undir merkjum jafnaðarstefnunnar voru Verkalýðfélagið Baldur og Sjómannafélag Ísfirðinga stofnuð á Ísafirði. Félögin náðu viðurkenningu að hluta til strax í byrjun, enda fóru þau sér hægt í kröfugerð. Nýstofnað Verkakvennafélag sem lagði út í verkfall árið 1917, til að ná fram betri kjörum sinna félagsmanna, mætti aftur á móti hvössum klóm atvinnurekenda, eins og séra Guðmundur Guðmundsson kallaði það í blaðinu Nirði. Félagið bar ekki sitt barr eftir það.

Meirihluti jafnaðarmanna á Ísafirði
Séra Guðmundur Guðmundsson var einmitt guðfaðir jafnaðarstefnunnar á Ísafirði. Hann var fyrrum prestur í Gufudalssveit, eldheitur bindindispostuli, blaðaútgefandi og framkvæmdastjóri Bökunarfélags Ísfirðinga (nokkurskonar Alþýðubrauðgerðar). Hann, ásamt öðrum forystumönnum í góðtemplarareglunni, iðnaðarmannafélaginu og verkalýðsfélögunum, mynduðu saman andstöðuafl í bæjarmálum gegn fulltrúum stórverslana og betri borgara. Séra Guðmundur var liðsmaður Sjálfstæðisflokksins gamla, í þversumliðinu, sem studdu Skúla Thoroddsen. Þetta voru sömu öflin og hér í Reykjavík náðu fyrsta verkamannasigrinum í bæjarstjórnarkosningum í janúar 1916 og kusu Jörund Brynjólfsson á þing um haustið. Þetta samstarf varð endasleppt í Reykjavík, en á Ísafirði voru böndin treyst og urðu til þess að jafnaðarmenn ásamt bandamönnum þeirra náðu meirihluta í bæjarstjórninni árið 1921 og héldu honum í 25 ár.

Þessi meirihluti byggði á stjórnmálahefð, sem rekja má aftur til Skúla Thoroddsen og fylgismanna hans, baráttunni fyrir greiðslu launa í peningum og andstöðu við stórverslanirnar í bænum. Hann byggði einnig á samtökum góðtemplara og iðnaðarmanna, sem tóku þátt í almennum málum og kosningum. Hann byggði á ungum félögum verkakarla og háseta.
Og að lokum byggði hinn sterki meirihluti á ungum forystumönnum, sem kynnst höfðu jafnaðarstefnunni og hugsjónum hennar. Það voru póstmeistarinn og héraðslæknirinn, Finnur Jónsson og Vilmundur Jónsson. Í janúar árið 1921 réði þessi breiðfylking jafnaðarmanna 5 mönnum og af 9 í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar og árið eftir réðu þeir 7 af 9 bæjarfulltrúum.
Umboð þeirra var endurnýjað í árlegum kosningum þriggja bæjarfulltrúa frá 1921-1930 og eftir það allrar bæjarstjórnarinnar á fjögurra ára fresti.

En baráttan var hörð. Verkalýðsfélögin stóðu á sama tíma í slag um tilvist sína. Hásetafélagið gerði verkfall í ársbyrjun 1920, til að ná fram viðurkenningu á samningsrétti félagsmanna sinna á vélbátunum. Hann náðist ekki. Verkfallinu var aflýst án þess að nokkuð næðist fram af kröfum sjómanna og sannarlega engin viðurkenning á félaginu. Það var kreppa í sjávarútveginum og laun sjómanna voru þvinguð niður.

Veturinn eftir, þegar jafnaðarmenn náðu fyrstu sigrum sínum í bæjarstjórnarkosningum, tóku atvinnurekendur í bænum að krefjast þess að verkamenn afneituðu verkalýðsfélaginu. Verkamenn voru neyddir til að ganga úr félaginu, til að halda vinnunni. Félagið breyttist í hálfgert leynifélag, þegar hætt var að lesa upp úrsagnir eða inntökur á fundum. Og atvinnurekendur neituðu öllum samningum. Sama ár 1921-1922 sigruðu jafnarðarmenn í öllum kosningum til niðurjöfnunarnefndar og bæjarstjórnar gegn framboði borgaraaflanna.

Verkalýðshreyfingin og jafnaðarstefnan: Sterk saman
Fyrstu verkalýðsfélögin á Vestfjörðum, sem stofnuð voru 1906-1908, sofnuðu öll útaf, enda höfðu þau engan pólitískan bakhjarl. Félög háseta og verkamanna á Ísafirði sem stofnuð voru 1916 knúðu fram viðurkenningu með pólitískum stuðningi Alþýðuflokksins eftir 1920.

Árið 1926 háði Verkalýðsfélagið Baldur harða verkfallsbaráttu. Þá voru konur jafnt sem karlar í félaginu. Baldur náði fram viðurkenningu á samningsrétti fyrir hönd félagsmanna og það sem meira var. Félagið náði fram kröfunni um forgangsrétt til allrar verkamannavinnu. Þá hafði bærinn beitt sér fyrir framkvæmdum, keypt upp bæjarlandið og stærstu hafskipabryggjuna og byggt nýtt sjúkrahús. Bærinn var því orðinn virkur aðili á vinnumarkaði, eins og sagt er núna.

Árið eftir voru 11 vélbátar auglýstir til sölu í bænum. Í janúar 1927, nokkrum dögum fyrir bæjarstjórnarkosningar. Útibússtjóri Íslandsbanka, sem seldi bátana burt úr bænum, skrifaði grein þar sem hann réðst á meirihluta jafnaðarmanna í bænum og sagði þá grafa undan öllum atvinnurekstri í bænum. Talaði hann þar um að hæstlaunuðu embættismenn bæjarins þættust vinna fyrir verkafólkið, en væru í raun að leggja niður atvinnu þeirra.
Jafnaðarmenn brugðust við með því að stofna samvinnuútgerð og kaupa sjö stóra vélbáta til bæjarins næstu tvö árin. Samvinnufélagsbátarnir, eða Rússarnir, eins og þeir voru stundum kallaðir, voru stolt Ísafjarðar næstu árin. Samvinnufélagið var stærsta útgerðarfélag á Vestfjörðum og veitti stórum hópi sjómanna trygga atvinnu.
Þannig brugðust jafnaðarmenn við með samþættri hreyfingu stjórnmála og verkalýðshreyfingar.

Þriðja stoðin fyrir utan kosningar og verkalýðshreyfinguna var svo Kaupfélag Ísfirðinga, sem jafnaðarmenn stofnuðu árið 1920 og varð nokkrum árum síðar stærsta verslunin í bænum, með margháttaða starfsemi.

Þannig unnu jafnaðarmenn á Ísafirði að markmiðum sínum um nýtt þjóðfélag, byggt á jafnrétti og bræðralagi. Þeir vissu að verkalýðshreyfing án pólitísks stuðnings eða bakhjarls var máttlaus. Og að kosningar einar og sér myndu ekki breyta samfélaginu, án baráttu verkalýðshreyfingar og að almenningur fengi yfirráð atvinnutækjanna í sínar hendur, með samvinnufélögum og bæjarrekstri.

Allt þetta var gert á Ísafirði. Forystumenn jafnaðarmanna náðu árangri, þeir skiluðu því sem þeir voru kosnir til.

Þegar kom að því að kommúnistar stofnuðu sinn eigin flokk í samkeppni við jafnaðarmenn árið 1930, má segja að þeir ættu ekki séns á Ísafirði. Það var að vísu undantekning. Árið 1934 fengu kommúnistar einn bæjarfulltrúa af níu og komust í oddaaðstöðu. Bæjarfulltrúi kommúnista var jafnmikið á móti jafnaðarmönnum, sem voru álitnir svikarar verkalýðsins og handbendi auðvaldsins, og kapítalistunum eða íhaldsmönnunum í Sjálfstæðisflokknum. Fulltrúinn sat því hjá í atkvæðagreiðslum, svo varpa varð hlutkesti um öll embætti og fleiri atriði í stjórn bæjarins.
Þá var gripið til þess að setja sérstök lög um nýjar kosningar til bæjarstjórnar á Ísafirði í janúar 1935, því að bærinn væri stjórnlaus. (Kom sér vel að Alþýðuflokkurinn var þá í ríkisstjórn með Framsókn). Jafnaðarmenn fengu aftur hreinan meirihluta og hélu honum næstu 12 ár, til 1946.

Og verkalýðshreyfingin á Vestfjörðum vann undir sama merki, þó að hvergi yrði hún jafnöflug og á Ísafirði. Sennilega hafa áhrif jafnaðarmanna hvergi verið eins mikil í einum landshluta eins og þegar Alþýðuflokkurinn fékk alla þrjá þingmenn Ísafjarðarsýslu árið 1937, Finn Jónsson í kaupstaðnum, Vilmund landlækni í norðursýslunnni og Ásgeir Ásgeirsson í vestursýslunni. Þegar þeir Vilmundur og Finnur fóru á þing, var Hannibal Valdimarsson kominn í forystu Verkalýðsfélagsins Baldurs og jafnaðarmanna í bæjarstjórn ásamt Guðmundir G. Hagalín.

Hugsjónir í verki
Stundum heyrist sú bábilja að forystumenn jafnaðarmanna hafi ekki verið eins vel að sér í pólitískum kenningum og forystumenn kommúnista. Þá hafi vantað hina fræðilegu undirstöðu. Þetta er ein af þeim klisjum sem sagnaritun á vinstri vængnum hefur alið af sér. Ætla menn í alvöru að halda því fram að Vilmundur Jónsson, Finnur Jónsson og Hannibal Valdimarsson hafi ekki þekkt til sögu verkalýðshreyfingarinnar eða stjórnmálakenninga sósíalískrar hreyfingar?
Framganga þeirra og stefna, hvort heldur var í félagsmálum eða stjórnmálum ber þess einmitt skýr merki, að þeir þekktu vel til bæði fræðikenninga og reynslu jafnarðarmanna í öðrum löndum.
Og það sem meira er, þeir fengu tækifæri til að láta verkin tala.

Kaup á bæjarlandinu, stofnun elliheimilis á vegum bæjarins, bygging sjúkrahúss, bygging og rekstur kúabús á vegum bæjarins, stofnun samvinnuútgerðar, stofnun niðursuðuverksmiðju og þátttaka í togaraútgerð, sýnir bæði pólitíska víðsýni og útsjónarsemi, þar sem saman fóru hugsjónir jafnaðarstefnunnar og raunhæfar lausnir sem miðuðust við aðstæður í kaupstað vestur á fjörðum og pólitískt ástand í landinu.

Meginstraumur verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi var sama marki sett: Hún var umbótasinnuð og lýðræðissinnuð. Hún stefndi ekki að byltingu, heldur róttækum breytingum á samfélaginu. Félagslegum og efnahagslegum réttindum almennings. Og það var þannig sem þjóðfélagið þróaðist, þegar best lét. Með samvinnu verkalýðshreyfingar og stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur. Erindi flutt 18. nóvember, 2013

Inline
Inline