Grundvallarsjónarmið

Grundvallarsjónarmið

Alþjóðasamband jafnaðarmanna
YFIRLÝSING UM GRUNDVALLARSJÓNARMIÐ
Samþykkt af XVIII. sambandsþinginu í Stokkhólmi, júní 1989

I. Breytingar á heimsvísu og framtíðarhorfur

1. Hugmyndir jafnaðastefnunnar hafa hrifið hugi manna um heim allan, alið af sér árangursríkar stjórnmálahreyfingar, bætt með afgerandi hætti líf vinnandi karla og kvenna og sett mark sitt á 20. öldina.
En þrátt fyrir réttmæta ánægju með að mörg okkar markmið hafi náðst verðum við að gera okkur glögga grein fyrir þeim hættum og þeim vanda sem við er að eiga núna. Okkur er ljóst að framundan eru enn mikilvæg verkefni sem við getum ekki leyst nema með sameiginlegu átaki, því að afdrif mannkyns velta í vaxandi mæli á samvinnu fólks um víða veröld.

2. Þær efnahagslegu, tæknilegu, pólitísku og félagslegu breytingar sem nú eiga sér stað endurspegla djúptæka umbreytingu okkar heims. Sú grundvallarspurning sem við nú stöndum frammi fyrir er ekki hvort komandi ár muni færa okkur breytingar heldur hver muni stjórna þessum breytingum og hvernig. Svar jafnaðarmanna er ótvírætt. Það er mannkyn allt sem á að taka stjórnina með enn þróaðra lýðræði á öllum sviðum: pólitískum, félagslegum og efnahagslegum. Í huga jafnaðarmanna er pólitískt lýðræði nauðsynlegur rammi og forsenda annarra réttinda og frjálsræðis.

3. Allar þjóðir heims ættu að taka þátt í að umbylta samfélögum okkar og vekja mannkyni nýja von. Alþjóðasamband jafnaðarmanna skorar á alla karla og konur sem styðja frið og framfarir að vinna saman að því að raungera þessa von.

4. Það ögrandi viðfangsefni sem breyting heimsins er opnar gríðarlega möguleika:
– Alþjóðavæðing efnahagslegar starfsemi og víðtækt aðgengi að upplýsingum og nýrri tækni getur, ef hún er undirsett lýðræðislega stjórnun, lagt grunn að heimssamfélagi sem er betur búið undir samvinnu. Augljóst er að heimsfjölskyldan er ekki lengur staðleysudraumur heldur í vaxandi mæli praktísk nauðsyn.
– Tæknibyltinguna á og er hægt að nota til umhverfisverndar, til að skapa ný störf og til að gera það kleift að losa menn undan rútínustörfum en ekki til að þröngva mönnum vægðarlaust til iðjuleysis sem þeir ekki kæra sig um.
– Með hentugum og mannúðlegum lýðræðisaðferðum má tryggja frið, jafnrétti, öryggi og velmegun innan ramma lýðræðis um heim allan.

5. En margskonar þróun sem nú á sér stað vekur upp áður óþekktar hættur:
– Útbreiðsla gjöreyðingartækni ýtir undir ótraust ógnarjafnvægi þar sem öryggi mannkyns er ekki nægilega tryggt.
– Efnislegum aðstæðum lífsins á jörðinni er ógnað af stjórnlausri útþenslu borga og iðnaðar, eyðingu lífhvolfsins og órökrænu arðráni lífsnauðsynlegra auðlinda.
– Hungur, fæðuskortur og dauði ógna heilum svæðum og samfélögum á suðurhveli jarðar, þó að nægar náttúruaðulindir og tækni séu til staðar svo jörðin geti brauðfætt allt mannkyn.

6. Þessi umbreyting félagskerfa og efnahagskerfa er að minnsta kosti eins stórbrotin og víðtæk og umskiptin frá afskiptaleysi – laissez-faire – til kapítalisma stórfyrirtækja og nýlendustefnu áranna fyrir seinni heimsstyrjöld. Félagslegar afleiðingar þessara breytinga – atvinnuleysi, hnignun einstakra svæða, eyðing samfélaga – hefur snert ekki bara þá allra snauðustu heldur allt vinnandi fólk.

7. Hin hraða þróun í átt til alþjóðavæðingar og samtengingar efnahags heimsins hefur vakið upp mótsagnir innan núverandi pólitískra, félagslegra og þjóðlegra stofnana. Þessi vaxandi gjá milli alþjóðlegrar efnahagsstarfsemi og ófullkominna alþjóðlegra pólitískra stofnana hefur átt þátt í fátækt og vanþróun á suðurhveli jarðar og einnig víðtæku atvinnulífi og áður óþekktri fátækt víða á norðurhveli.

8. Frá síðari heimsstyrjöld hafa orðið verulegar framfarir á sviðum eins og sjálfstæði fyrrum nýlendna, útbreiðslu velferðar og nú nýlega afvopnun þar sem tekin hafa verið fyrstu varfærnu skrefin. En margt aldagamalt óréttlæti er enn við lýði. Enn er verið að brjóta mannréttindi, mismunun kynja og kynþátta er enn útbreidd og tækifæri einstaklinganna eru enn háð því hvar og í hvaða stétt þeir fæddust.

9. Andspænis þessum mikilvægu viðfangsefnum áréttar Alþjóðasamband jafnaðarmanna grundvallarviðhorf sín. Enn sem fyrr vill það einbeita sér að því að lýðræðisvæða á heimsvísu efnahagsleg, félagsleg og pólitísk valdakerfi. Það eru sömu grundvallaratriðin og sömu pólitísku markmiðin sem jafnaðarstefnan hefur ávallt barist fyrir sem verður að ná fram í heimi sem hefur með róttækum hætti breyst síðan Frankfurtyfirlýsingin var samin 1951.

10. Alþjóðasamband jafnaðarmanna var stofnað fyrir hundrað árum til þess að samræma starf hreyfinga lýðræðisjafnaðarmanna um félagslegt réttlæti, mannlega reisn og lýðræði. Það tengdi saman flokka og samtök með mismunandi hefðir sem áttu sér sameiginlegt markmið: lýðræðisjafnaðarstefnuna. Sögulega hafa sósíalistar, jafnaðarmenn og verkamannaflokkar staðið fyrir sömu gildi og grundvallaratriði.

11. Nú á dögum sameinar Alþjóðasamband jafnaðarmanna hefðbundna baráttu sína fyrir frelsi, réttlæti og samstöðu með einlægum stuðningi við frið, umhverfisvernd og þróun á suðurhveli jarðar. Á öllum þessum sviðum er þörf sameiginlegra lausna. Í þeim tilgangi leitar Alþjóðasamband jafnaðarmanna eftir stuðningi allra þeirra sem deila með því gildum og skuldbindingum gagnvart þessum málefnum.

II. Grundvallaratriði
Frelsi, réttlæti og samstaða

12. Lýðræðisleg jafnaðarstefna er alþjóðleg hreyfing um frið, félagslegt réttlæti og samstöðu. Markmiðið er friðsamur heimur þar sem unnt er að efla þessi grunngildi og þar sem sérhver maður getur lifað merkingarþrungnu lífi, þróað einstaklingseðli sitt og hæfileika til fulls og þar sem mannréttindi og félagsleg réttindi eru tryggð innan ramma lýðræðislegs samfélags.

13. Frelsi sprettur bæði af viðleitni einstaklinga og samvinnu þeirra – þetta tvennt er þáttur í einu ferli. Hver maður á rétt á því að vera laus við pólitíska þvingun en einnig á hann rétt á mesta mögulega frelsi til að stefna að eigin markmiðum og nýta einstaklingshæfileika sína.

14. Réttlæti og jafnrétti. Réttlæti þýðir endalok allrar mismununar gagnvart einstaklingum og jafnstöðu varðandi réttindi og tækifæri. Það krefst bóta fyrir líkamlegt, andlegt og félagslegt misrétti, og frelsi frá því að vera háður hvort sem er eigendum framleiðslutækjanna eða pólitískum valdhöfum.
Jafnrétti táknar að allir menn eru jafnverðugir og er forsenda þess að hver maður sé frjáls til að þróa persónuleika sinn. Grundvallarjafnrétti, efnahagslegt, félagslegt og menningarlegt, er nauðsynleg forsenda fyrir margbreytileika einstaklinganna og fyrir félagslega framþróun.
Frelsi og jafnrétti eru ekki andstæður. Jafnrétti er forsenda fyrir þróun einstaklingsins. Jafnrétti og persónufrelsi eru óaðskiljanleg.

15. Samstaða er altæk og alþjóðleg. Hún er í reynd birtingarmynd hins sammannlega og samlíðanar með fórnarlömbum óréttlætis. Allar húmanískar hefðir leggja áherslu á og lofa samstöðu. Nú á dögum þegar einstaklingar og þjóðir eru sem aldrei fyrr háð innbyrðis fær samstaða aukið mikilvægi því hún er afdráttarlaus nauðsyn fyrir framtíð mannkyns.

16. Lýðræðisjafnaðarmenn líta á þessi grundvallaratriði sem jafn mikilvæg. Þau tengjast innbyrðis. Hvert þeirra er forsenda hins næsta. Á hinn bóginn hafa líberalar og íhaldsmenn lagt megináherslu á frelsi einstaklingsins á kostnað réttlætis og samstöðu meðan kommúnistar hafa talið sig ná fram jafnræði og samstöðu en það hefur verið á kostnað frelsisins.

Lýðræði og mannréttindi

17.Hugmyndin um lýðræði er byggð á grundvallaratriðunum um frelsi og jafnrétti. Þess vegna er jafnrétti karla og kvenna – ekki bara í orði heldur á borði, í vinnu, innan fjölskyldunnar og á öllum sviðum félagslífs – hluti af sýn jafnaðarmanna á þjóðfélagið.

18. Lýðræðisjafnaðarmenn stefna að jafnrétti allra kynstofna, menningarhópa, þjóða og trúflokka. Þessi réttindi eru núna í verulegri hættu víða um heim.

19. Lýðræði kann að taka á sig ólíkar myndir. En það er ekki hægt að tala um lýðræði nema menn eigi kost á að velja milli ýmissra pólitískra kosta í frjálsum kosningum, að það sé mögulegt að skipta um stjórnvöld á friðsamlegan hátt að frjálsum vilja fólksins, að réttindi einstaklinga og minnihlutahópa séu tryggð, og að fyrir hendi sé óháð réttarkerfi grundvallað á lögum sem er óvilhallt gagnvart öllum borgurum. Stjórnmálalýðræði er ómissandi þáttur í samfélagi jafnaðar. Lýðræðisjafnaðarstefna er stöðugt ferli í átt til efnahagslegs lýðræðis og vaxandi félagslegs réttlætis.

20. Réttindi einstaklinga liggja til grundvallar gildismati jafnaðarmanna. Lýðræði og mannréttindi eru einnig grundvöllur almannavalds og nauðsynleg tæki fyrir fólk til að það geti stjórnað þeim efnahagskerfum sem hafa svo lengi stjórnað fólkinu. Án lýðræðis geta félagslegar stefnur ekki falið einræðiseðli ríkisstjórna.

21. Vafalaust munu ólíkir menningarheimar þróa sín eigin form lýðræðislegs stofnanakerfis. En hver svo sem sú mynd er sem lýðræðið birtist í – innan þjóða eða alþjóðlega – verður það að tryggja full réttindi einstaklinga sem og skipulegra minnihlutahópa. Fyrir jafnaðarmenn er lýðræði í eðli sínu fjölræðishugmynd og þetta fjölræði er besta trygging fyrir lífvænleika þess og sköpunarhæfni.

22. Frelsi frá gerræðis- og einræðisstjórn er nauðsyn. Það er forsenda þess að fólk og samfélög geti skapað nýjan og betri heim og stundað alþjóðlega samvinnu – heim þar sem hið pólitíska, efnahagslega og félagslega hlutskipti manna ræðst á lýðræðislegan hátt.

Eðli jafnaðarstefnunnar

23. Lýðræðisjafnaðarmenn hafa komið að skilgreiningu þessara gilda eftir margvíslegum leiðum. Þær eru upprunnar í verkalýðshreyfingum, frelsishreyfingum alþýðunnar, menningarhefðum um samhjálp og samstöðuhreyfingum almennings um víða veröld. Þær hafa einnig fengið stuðning frá hugmyndum hinna ýmsu húmanistahreyfinga.
En þrátt fyrir breytileika í menningu og hugmyndum eru allir jafnaðarmenn einhuga um sýn á friðsamt og lýðræðislegt samfélag manna þar sem saman fer frelsi, réttlæti og samstaða.

24. Baráttan í einstökum löndum fyrir lýðræðisjafnaðarstefnu mun leiða í ljós mismunandi stefnumál og breytileika í lagasetningu. Þetta mun leiða af mismunandi sögu og fjölræði mismunandi samfélaga. Jafnaðarmenn telja sig ekki hafa í höndum forsögn að einhverri endanlegri og staðnaðri samfélagsgerð sem ekki verði breytt, endurbætt eða þróuð áfram. Í hreyfingu sem er sannfærð um gildi lýðræðislegrar sjálfsákvörðunar verður ávallt rúm fyrir nýsköpun hugmynda vegna þess að sérhver þjóð og sérhver kynslóð verður að setja sér eigin markmið.

25. Auk þeirra grundvallarsjónarmiða sem eru leiðarljós allra lýðræðisjafnaðrmanna er greinilegur samhljómur um gildi meðal jafnaðarmanna. Þrátt fyrir allan margbreytileikann er það sameiginlegt álit að lýðræði og mannréttindi séu ekki bara pólitísk tæki til að ná markmiðum jafnaðarmanna heldur séu þau kjarni þessara markmiða – lýðræðislegt efnahagskerfi og samfélag.

26. Frelsi einstaklingsins og grundvallarréttindi innan samfélagsins eru forsendur þess að allir búi við mannlega reisn. Þessum réttindum verður ekki skipt út hverju fyrir annað, og þeim verður ekki teflt hverju gegn öðru. Jafnaðarmenn standa vörð um þann óafsalanlega rétt manna til lífs og til öryggis, til skoðanafrelsis og tjáningarfrelsis, til félagafrelsis og til verndar gegn pyntingum og niðurlægingu. Jafnaðarmenn eru staðráðnir í að ná fram frelsi frá hungri og örbirgð, raunverulegu félagslegu öryggi og rétti til vinnu.

27. Lýðræðisjafnaðarstefna tekur einnig til menningarlegs lýðræðis. Mismunandi menningarhópar innan hvers þjóðfélags verða að búa við jöfn réttindi og tækifæri og allir verða að hafa jafnan aðgang að menningararfi þjóðar og heimsins alls.

III. Friður
Friður – grundvallargildi

28. Friður er forsenda allra vona okkar. Hann er grunngildi sem er sameiginlegt áhugamál allra stjórnmálakerfa og nauðsyn mannkyns. Stríð eyðir mannslífum og grundvelli félagsþróunar. Kjarnorkublóðbað gæti þýtt endalok mannlífs eins og við þekkjum það.

29. Varanlegur friður verður ekki tryggður með fælingarmætti kjarnorkuvopna né með vopnakapphlaupi hefðbundinna herja. Þess vegna eru afvopnun og nýjar aðferðir til að tryggja öryggi allra aðkallandi.

30. Það sem nú er brýnt er að ná ekki bara hernaðarlegum stöðugleika með minnstu mögulegu varnarvopnum heldur andrúmslofti þar sem ríkir gagnkvæmt pólitískt traust. Þessu má ná með samvinnu um verkefni sem lúta að okkar sameiginlegu framtíð og með nýjum áherslum á friðsamlega samkeppni milli þjóðfélaga með mismunandi pólitískt, efnahagslegt og félagslegt skipulag.

31. Friður er ekki bara það að vera laus við stríð. Hann má ekki byggjast á ógn eða á hverfulum velvilja milli stórveldanna. Það verður að eyða efnahagslegum og félagslegum orsökum ágreinings milli ríkja með því að koma á réttlæti um heim allan og með því að koma á fót nýjum stofnunum til að leysa á friðsamlegan hátt ágreining um veröld víða.

32. Alþjóðleg nýskipan efnahagsmála og stjórnmála er nauðsynlegur þáttur friðar. Sú skipan verður að virða fullveldi þjóða og rétt þeirra til sjálfstjórnar, úrlausn deilumála með samningum og stöðvun vopnasölu til deiluaðila. Um allan heim þurfa að starfa stofnanir, á heimsvísu og staðbundnar, sem vinna að friðsamlegri lausn deilumála. Þær gætu orðið til að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna og verið til viðbótar sérstökum samningum stórveldanna.

33. Friður innan þjóðríkja er líka nauðsynlegur. Ef deilur eru settar niður með ofbeldi eru tækifæri til þróunar og mannréttindi fyrir borð borin. Það verður að efla menntun um frið og afvopnun.

34. Hervæðing samskipta þjóða á suðurhveli er alvarleg ógn við framtíð mannkyns, og svo er einnig um spennuna milli austurs og vesturs. Stundum hafa stórveldin, sem hafa tilhneigingu til að breiða ágreining út um heiminn, stundað fjarátök í löndum á suðurhveli. Í annan stað hafa vopnasalar bæði austurs sem vesturs stuðlað að auknu ofbeldi á suðurhveli drifnir af pólitískum sjónarmiðum eða ábatavon. Því verður ekki neitað að öll stríð síðustu fjögurra áratuga haf verið háð í þessum heimshlutum. Það verður að útrýma félagslegum, efnahagslegum og öðrum orsökum átaka á suðurhveli jarðar.

Frumkvæði að friði

35. Lýðræðisjafnaðarmenn hafna því heimsástandi þar sem vopnaður friður ríkir milli austurs og vesturs en stöðugt blóðbað er í þróunarlöndum. Friðarumleitanir hljóta að beinast að því að binda enda á þessi átök. Í þessu ferli hefur Evrópa einstöku hlutverki að gegna. Áratugum saman var hún líklegasti orustuvöllur vopnaðra átaka austurs og vesturs. Nú getur Evrópa orðið það svæði sem fóstrar nýtt andrúmsloft trausts og hófsemdar.

36. Frumkvæði að friði er háð því að mismunandi félags- og efnahagskerfi og þjóðir vinni saman að því að byggja upp trúnaðartraust og að afvopnun, réttlæti á suðurhveli jarðar og að verndun lífhvolfs jarðar. Jafnframt ættu þau að keppa með friðsamlegum hætti að auðsköpun, velferð og samstöðu. Samfélög ættu að vera tilbúin að læra hvert af öðru. Hið eðlilega ástand verður að vera þannig að ólík kerfi versli og semji innbyrðis og starfi saman. Einnig verða að eiga sér stað opin og hreinskilin skoðanaskipti, ekki síst þegar um er að ræða mannréttindi og friðarmál.

37. Samvinna milli austurs og vesturs um það sameiginlega verkefni að minnka bilið milli norðurhvels og suðurhvels og að vernda umhverfið er það svið sem mestir möguleikar eru á árangursríku starfi að samstöðu án tillits til landamæra og ríkjablokka.

IV. Norður og suður
Hnattvæðing

38. Síðustu áratugir hafa einkennst af sívaxandi alþjóðavæðingu heimsmálanna, heimsvæðingu (globalisation). Olíukreppur, gengisflökt og verðbréfahrun hafa bein ahrif milli efnahagssvæða heimsins, í norðri og suðri. Ný upplýsingatækni miðlar fjöldamenningu til allra heimshorna. Fjárhagslegar ákvarðanir fjölþjóðafyrirtækja geta haft víðtækar afleiðingar á svipstundu. Átök innan þjóða og milli þjóða valda gríðarlegum og vaxandi flutningum flóttamanna innan og milli meginlanda.

39. Ennfremur hefur hnattvæðing alþjóðahagkerfa brotið upp skiptingu heimsins milli tveggja skauta sem réði öllu á dögum kalda stríðsins. Við strendur Kyrrahafs hafa ný iðnveldi risið upp, og eins er um þjóðir Suður-Ameríku sem hafa tekið hröðum framförum þrátt fyrir afturkipp í seinni tíð. Einnig eru til komin ný alþjóðleg öfl eins og Kína og hlutlausu ríkin. Það er staðreynd að ríki eru innbyrðis háð hvort öðru. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að setja á fót fjölþjóðlegar stofnanir innan vébanda Sameinuðu þjóðanna þar sem þjóðirnar á suðurhveli standa meira jafnfætis öðrum.

40. Um heim allan hafa efnahagskreppur og verðhjöðnunarstefna íhaldsmanna vakið upp stóratvinnuleysi í mörgum þróuðum hagkerfum. Þær hafa líka haft eyðandi áhrif á fátæk lönd. Þær hafa eyðilagt útflutningsmarkaði, aukið á skuldakreppuna og ónýtt áður orðnar framfarir. Jafnframt hefur slík hnignun á suðurhveli ásamt þörfinni á að standa undir risaskuldum lokað fyrir stóra markaði á norðurhveli. Þannig hafa versnandi lífskjör skuldugra þjóða átt þátt í að auka atvinnuleysi hjá þeim þjóðum sem eru lánardrottnar þeirra.

41. Gerbreytt efnahagsumhverfi heimsins verður að taka með vaxtarsvæði á suðurhveli á nýjan og róttækan hátt ef það á að geta eflt þróun bæði á norðurhveli og suðurhveli. Verkefni sem ætlað er að örva efnahagsþróun og félagsþróun á suðurhveli geta orðið og verða að vera tæki til að efla efnahag um heim allan. Slík viðfangsefni verða að vera ómissandi þátttur í þjóðhagsáætlunum um heim allan.

42. Í Afríku er áframhaldandi aðskilnaðarstefna stjórnvalda Suður-Afríku ekki bara glæpur gegn meirihluta þjóðarinnar heldur hefur hún grafið undan hagþróun Framlínuríkjanna og haft neikvæð áhrif um alla álfuna. Þar sem annars staðar er baráttan fyrir mannréttindum og lýðræði nátengd baráttu fyrir efnahagslegu og félagslegu réttlæti.

43. Afríka og Suður-Ameríka glíma öðrum fremur við gífurlegan skuldavanda sem hindrar fjárfestingu og innflutning sem þörf er á til að tryggja framþróun og skapa störf fyrir hraðvaxandi fólksfjölda. Heimsátak til að létta á skuldabyrðinni er forsenda framfara. Það verður að vera meginmarkmið samvinnu austurs og vesturs í sameiginlegu starfi að réttlæti milli norðurhvels og suðurhvels.
Umhverfisvandinn

44. Umhverfiskreppan er grundvallarviðfangsefni sem skapar hættu fyrir heim allan. Vistfræðilegu jafnvægi er ógnað, bæði á norðurhveli og suðurhveli. Á hverju ári er tegundum dýra og jurta útrýmt og jafnframt eru vaxandi merki þess að ósónlagið sé að þynnast. Á norðurhveli er skógum eytt með ábyrgðalausri iðnvæðingu; á suðurhveli á sér stað ógnvekjandi minnkun regnskóganna sem eru lífsnauðsynlegir fyrir framtíð heimsins. Mengun fer vaxandi í auðugu löndunum. Í fátæku löndunum þrengja eyðimerkur að siðmenningunni. Hreint vatn er hvarvetna af skornum skammti.

45. Þar sem umhverfisspjöll fara yfir landamæri verður umhverfisvernd að vera alþjóðleg. Hún felst fyrst og fremst í því að viðhalda sambandi milli hringrása náttúrunnar vegna þess að verndun vistkerfa er ávallt hagkvæmari en endurnýjun þeirra. Bestu og ódýrustu lausnir vandans eru þær sem breyta innviðum framleiðslu og neyslu þannig að ekki sé um það að ræða að valda skaða á vistkerfinu.

46. Við mælum með sameiginlegu alþjóðlegu átaki til að skipta út öllum óvistvænum vörum og ferlum fyrir aðra sem eru vistvænir. Yfirfærsla tækni frá norðurhveli til suðurhvels má ekki snúast um að flytja út kerfi sem eru vistfræðilega ótæk, né heldur eitraðan úrgang ríku þjóðanna. Bæði á norðurhveli og suðurhveli ætti að stuðla að notkun endurnýjanlegra orkugjafa og að valddreifðu skipulagi framboðs. Ennfremur verður að vera til alþjóðlegt viðvörunarkerfi sem vekur athygli á umhverfisógn og náttúruhamförum sem ná yfir landamæri þjóðríkja.

47. Auk þess að skaða þróunarlöndin hafa þessi umhverfisvandamál áhrif á samfélag þjóðanna um allan heim. Fátækar þjóðir ráða ekki við þau án fjölþjóðasamstarfs og hjálpar. Af þessum sökum er nauðsynlegt að leggja umtalsvert fjármagn til þróunaraðstoðar.

48. Slík stefnumál samrýmast gæðatengdum hagvexti bæði á norðurhveli og suðurhveli sem er þörf á til að mæta efnahagslegum kröfum til framtíðar. Félagsleg fjárfesting í endursköpun vistkerfa – sem margir sérfræðingar líta á sem gagnslausa eyðslu og sem ekki er reiknuð með í vergum þjóðartekjum – er einhver jákvæðasta fjárfesting sem samfélag getur hugsanlega lagt í.
Félagsleg stýring tækniþróunar

49. Tæknibyltingin sem er þegar hafin í hinum þróuðu iðnaðarhagkerfum mun í grundvallaratriðum breyta umhverfisskilyrðum og auðlindanýtingu á ævitíma núverandi kynslóðar. Auk þess mun áhrifa þessarar breytingar gæta um heim allan. Rafeindaörtækni, þjarkatækni, vopnatækni, lífverkfræði – auk uppfinninga sem við höfum enn ekki látið okkur dreyma um – munu gerbreyta bæði aðstæðum einstaklinga og þjóðfélagsgerðum um heim allan.

50. Tækni snýst ekki einfaldlega bara um hlutlæg vísindi eða dauðar vélar. Hún stjórnast ávallt af tilteknum hagsmunum og er hönnuð eftir gildum manna, hvort sem er leynt eða ljóst. Það verður að koma á hana félagslegum böndum til þess að jákvæð tækifæri sem ný tækni býður upp á nýtist mannkyni, til að draga úr hættunni sem stafað getur af stjórnlausri þróun og til að koma í veg fyrir tækni sem er félagslega ótæk.

51. Félagslegar framfarir krefjast tækniframfara og hvetja til þeirra. Það er þörf á tækni sem hentar ólíkum aðstæðum, reynslu og þróunarstigi sem er að finna á norðurhveli og á suðurhveli. Yfirfærsla hentugrar tækni – og grundvallartæknikunnáttu – milli norðurhvels og suðurhvels verður að eiga sér stað. Norðurhvelið á margt ólært af reynslu manna á suðurhveli, einkum á sviði tækni sem myndar lítinn úrgang. Það er þörf á félagslegri umræðu, og einnig pólitískri stýringu á því við hvaða aðstæður ný tækni er tekin í notkun. Hún ætti að tryggja að aðgangur að tækninni:
– stuðli að sjálfstæðri þróun í löndum suðurhvels, nýtingu auðlinda fremur en sóun þeirra, og sköpun nýrra starfa fremur en að auka á atvinnuleysi;
– geri störfin manneskjulegri, efli heilbrigði manna og auki öryggi á vinnustöðum;
– greiði götu efnahagslegra réttinda og skapi tækifæri fyrir valddreifingu á vinnustöðum.

52. Til að tryggja að þessi viðmið séu virt um allan heim þarf stofnanir og verklag til að leggja mat á tæknina. Innleiðing nýmæla ætti að vera í samræmi við félagslegar þarfir og forgangsröðun sem ákveðin er með lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku.

53. Koma verður í veg fyrir breytingar á erfðamengi mannsins og misnotkun kvenna með hjálp nýrrar æxlunartækni. Einnig þarf að finna leiðir til að verja mannkyn fyrir kjarnorkuógn og efnamengun.

Afvopnun og þróunarmál
54. Afvopnunarsáttmálar milli stórveldanna munu gera meira en að eyða hættunni á tortímingu plánetunnar. Að loknum slíkum sáttmálum yrði mikið af þeim fjármunum og aðföngum sem nú er sóað í kjarnorkuvopn, efnavopn, sýklavopn og önnur vopn laus til fjárfestingar í efnahagslegum og félagslegum aðgerðum á suðurhveli. Afvopnun í austri og vestri ætti að tengja aðgerðum sem stuðla að réttlæti í skiptum norðurs og suðurs.

55. Hluta af þeim umtalsverðu fjármunum sem hin háþróuðu iðnríki í austri og vestri mundu spara vegna afvopnunarsamninga ætti að nota til að setja á stofn alþjóðlegan sjóð til að stuðla að öruggri og sjálfbærri þróun í löndum á suðurhveli.

V. Að móta tuttugustu- og fyrstu öldina
Stjórnmálalegt og efnahagslegt lýðræði

56. Vegna nýliðinna atburða er orðið líklegra en nokkru sinni fyrr að unnt verði að koma á pólitísku, efnahagslegu og félagslegu lýðræði um heim allan. Lýðræði er undirstöðutæki til að koma á almannastjórn og gera mannúðlegri þá stjórnlausu krafta sem nú eru að ummynda plánetuna okkar án tillits til þess hvort hún þoli það.

57. Meðal mannréttinda eru efnahagsleg of félagsleg réttindi; rétturinn til að stofna verkalýðsfélög og stofna til verkfalla; rétturinn til félagslegs öryggis og velferðar öllum til handa, þar á meðal vernd mæðra og barna; rétturinn til menntunar, þjálfunar og tómstunda; rétturinn til sómasamlegs húsnæðis í þolanlegu umhverfi; og rétturinn til efnahagslegs öryggis. Úrslitaatriði er rétturinn til fullrar og nytsamlegrar atvinnu í starfi með viðunandi launakjör.

58. Það ber ekki að líta á efnahagsleg réttindi sem bætur greiddar óvirkum einstaklingum sem skortir frumkvæði heldur sem eðlilegan grunn til þess að tryggja virka þátttöku allra borgara í samfélaginu. Þetta er ekki spurning um að styrkja fólk á jaðri samfélagsins heldur að skapa aðstæður fyrir heilsteypt samfélag með félagslegri velferð allra manna.

59. Lýðræðisleg jafnaðarstefna byggir enn í dag á sömu gildum og hún byggði á í upphafi. En þessi gildi verður að setja fram á gagnrýninn hátt, þar sem bæði er litið til fyrri reynslu og horft til framtíðar. Til dæmis hefur reynslan sýnt að þó að þjóðnýting geti í sumum tilvikum verið nauðsynleg þá er hún ekki í sjálfri sér meginlausn á félagslegum vanda. Á sama hátt getur hagvöxtur oft verið afl eyðingar og sundrungar, ekki síst þegar einkahagsmunahópar víkja sér undan félagslegri og vistfræðilegri ábyrgð. Hvorki einkaeign né ríkiseign getur sjálfkrafa tryggt efnahagslega skilvirkni né félagslegt réttlæti.

60. Hreyfing lýðræðisjafnaðarmanna boðar sem fyrr bæði opinberan rekstur og þjóðareign innan ramma blandaðs hagkerfis. Ljóst er að vegna efnahagslegrar alþjóðavæðingar og hinnar hnattrænu tæknibyltingar er lýðræðisleg stýring mikilvægari en nokkru sinni fyrr. En félagsleg stýring hagkerfisins er markmið sem aðeins verður náð með fjölbreyttum hagstjórnaraðferðum og er háð stað og tíma, þar á meðal eru:
– framleiðslustefna sem er lýðræðisleg, dreifstýrð með þátttöku margra; opinbert eftirlit með fjárfestingum; vernd almennings og almannahagsmuna; opinber hagnýting kostnaðar og ávinnings af breyttum efnahagsaðstæðum;
– starfsmannalýðræði og sameiginleg ákvarðanataka í fyrirtækjum og vinnustöðum sem og þátttaka verkalýðsfélaga í mótun efnahagsstefnu þjóða;
– sjálfstjórnarsamvinnufélög verkamanna og bænda;
– opinber fyrirtæki með lýðræðislegri stjórn og ákvarðanatöku þegar þess gerist þörf til að ríkisstjórnir geti raungert félagsleg og efnahagsleg forgangsverkefni;
– lýðræðisvæðing fjármála- og efnahagskerfa heimsins þannig að öll lönd geti tekið þátt;
– alþjóðleg stýring og eftirlit með fjölþjóðlegum fyrirtækjum, þar á meðal að réttindi starfsmanna slíkra fyrirtækja spanni landamæri ríkja.

61. Það er ekki til neitt eitt og óbreytanlegt líkan um efnahagslegt lýðræði og það er svigrúm til djarfra tilrauna í ólíkum löndum. En grundvallarreglan eru skýr – ekki bara formleg og lögbundin stýring af hálfu ríkisins heldur veruleg þátttaka starfsmannanna sjálfra og félaga þeirra í hagstjórnarákvörðunum. Þessi regla verður að gilda bæði innanlands og alþjóðlega.

62. Í samfélögum sem þannig eru upp byggð og hafa einsett sér að hafa raunverulegt efnahagslegt og félagslegt jafnrétti geta markaðir – og verða að gera það – starfað sem framsækin leið til að örva nýsköpun og gefa til kynna óskir neytenda í hagkerfinu. Stórfyrirtæki ættu ekki að drottna yfir markaðnum eða stýra honum með villandi upplýsingum.

63. Í stað samþjöppunar efnahagslegs valds í höndum einkaaðila þarf að koma nýtt skipulag þar sem hver og einn – sem borgari, neytandi eða launþegi – getur haft áhrif á stjórnun og dreifingu framleiðslunnar, mótun framleiðslutækjanna og aðstæður á vinnustöðum. Þetta mun gerast með því að borgararnir taki þátt í mótun efnahagsstefnu, með því að launþegar hafi áhrif á sínum vinnustað, með því að hlynna að ábyrgri samkeppni bæði heima og alþjóðlega og með því að styrkja stöðu neytenda gagnvart framleiðendum.

64. Lýðræðislegt samfélag verður að vera mótvægi við galla markaðskerfanna, jafnvel þeirra ábyrgustu. Stjórnvöld mega ekki bara vera viðgerðarstofa fyrir þann skaða sem ófullkominn markaður eða stjórnlaus nýting nýrrar tækni hefur valdið. Þvert á móti verður ríkið að setja reglur um markaðinn fólki til hagsbóta og nýta ávinning tækninnar til handa öllum starfsmönnum, bæði til að bæta vinnuaðstæður og einnig til að auka tómstundir og möguleika einstaklingsins til aukins þroska.

Menning og samfélag

65. Menntun er úrslitaatriði fyrir þróun nútímalgegs, lýðræðislegs og umburðarlynds samfélags. Markmið menntunar sem við styðjum eru:
– upplýsing, lærdómur og þekking;
– flutningur andlegrar og menningalegrar arfleifðar frá kynslóð til kynslóðar;
– að undirbúa einstaklinginn fyrir líf í þjóðfélagi á grundvelli jafnra tækifæra fyrir alla menn;
– að styðja einstaklinginn í að þróa hæfileika sína til fulls.

66. Frelsi, félagslegt réttlæti, samstaða og umburðarlyndi eru þau megingildi sem menntunarferlið hlýtur að boða.
Við berjumst fyrir umburðarlyndi og samvinnu milli ólíkra þjóðfélagshópa í fjölmenningarsamfélögum. Menningarleg fjölbreytni auðgar samfélög okkar en ógnar þeim ekki. Menningarleg einsleitni ógnar frelsi og lýðræði.

67. Það verður að gefa sérstakan gaum að sambandi kynslóðanna. Sérstaklega er nauðsynlegt að yngra fólk sýni eldra fólki virðingu og stuðning. Eldri borgarar þurfa fastar tekjur gegnum almannatryggingar og opinbera lífeyrissjóði, heimili og hjúkrun í heimabyggð, tækifæri til menningar og félagslífs og rétt til að lifa elliárin við reisn.
Hlutverk karla og kvenna í nútímasamfélagi

68. Kynjamisrétti er það form kúgunar sem öðru fremur gegnsýrt hefur sögu mannkyns. Það má rekja næstum til uppruna tegundarinnar og hefur viðhaldist til okkar tíma í nær öllum þjóðskipulögum.

69. Á undaförnum árum hefur risið ný alda feminískrar vitundar, bæði innan og utan hreyfingar jafnaðarmanna, og myndað einhverja mikilvægustu félagshreyfingu okkar tíma. Að hluta til varð enduvakning femínismans við það að konur í hinum þróuðustu velferðarríkjum áttuðu sig á að þær voru, þrátt fyrir orðnar framfarir á mörgum sviðum, enn settar skör lægra á vinnustöðum og í stjórnmálahreyfingum.

70. Konur hafa þurft að bera hlutfallslega mikið af hinum félagslega kostnaði sem leitt hefur af efnahagskreppum, bæði innan einstakra landa og alþjóðlega. Fátækt, atvinnuleysi, heimilisleysi og láglaunamisneyting hafa átt þátt í þessari þróun. Sumsstaðar á suðurhveli er það að sigrast á feðraveldishugmyndum grundvallarforsenda þess að réttindi kvenna séu viðurkennd og að sjálfbær efnahagsþróun geti átt sér stað.

71. Alþjóðasamband jafnaðarmanna styður baráttu kvenna fyrir jafnrétti og jöfnum tækifærum hvarvetna í heiminum. Í sumum löndum hafa orðið framfarir en annars staðar er jafnréttisbaráttan rétt að byrja. Jafnstaða og réttlæti konum til handa er lykilþáttur í að koma á réttlæti og friði. Sameinuðu þjóðirnar hafa leikið lykilhlutverk í því að greiða götu feminískrar vitundar sem tengir saman konur á suður- og norðurhveli.

72. Alþjóðasamband jafnaðarmanna styður sérstaklega eftirtaldar aðgerðir:
– löggjöf og sértækar aðgerðir sem tryggja jafnrétti karla og kvenna;
– stuðning við áætlanir um menntun, starfsþjálfun og þátttöku stúlkna og kvenna í atvinnulífinu;
– löggjöf sem tryggir sömu laun fyrir sömu vinnu;
– opinberan stuðning við fulla og jafna þátttöku kvenna í í félagsstarfi og pólitísku starfi í öllum löndum með jákvæðum aðgerðum sem tryggja hlut kvenna á öllum stigum ákvarðanatöku.

73. Konur eru rúmlega helmingur jarðarbúa. Réttlæti og jöfnuður þeim til handa er alger forsenda – sine qua non – fyrir alþjóðlegt réttlæti og jöfnuð.

Ný alþjóðleg stjórnmálamenning

74. Þjóðir heims eru í vaxandi mæli hver annarri háðar og því er lítið rúm fyrir deilur og fjandskap bókstafstrúarmanna. Sameiginleg þörf fyrir að lifa af og þróun krefjast bæði samvinnu og siðlegrar framgöngu í ágreiningsmálum, jafnvel milli andstæðra stjórnmálaafla og hugmynda. Þess vegna höfnum við hvers kyns trúarlegri eða pólitískri bókstafstrú og fordæmum hana.

75. Kommúnisminn hefur ekki lengur það aðdráttarafl sem hann áður hafði í augum sumra í verkalýðshreyfingunni og sumra menntamanna í kjölfar októberbyltingarinnar eða í baráttunni við fasismann.
Glæpir stalínismans, ofsóknir gegn fjölda manna og mannréttindabrot, auk óleystra efnahagsvandamála, grófu undan hugmyndinni um kommúnisma sem valkost við lýðræðisjafnaðarstefnu eða sem fyrirmynd til framtíðar.

76. Alþjóðasamband jafnaðarmanna styður allar tilraunir til umbreytingar kommúnistaríkja með frjálslyndis- og lýðræðisvæðingu. Samskonar stuðning verður einnig að veita við þróun dreifstýrðra markaðsviðskiptakerfa, baráttu gegn skrifræði og spillingu og síðast en ekki síst við aukinn skilning á því að mannréttindi og heiðarleg pólitík eru mikilvægir þættir í kraftmiklu og framsæknu þjóðfélagi.

77. Slökunarstefna, alþjóðasamvinna og friðsamleg samkeppni skapa andrúmsloft þar sem vænlegustu verkefnin ná að dafna. Alþjóðasamband jafnaðarmanna vill efla alþjóðlega samræðumenningu. Þar sem um er að ræða sameiginlega grundvallarhagsmuni verða allir aðilar að vinna saman og sýna gagnkvæmt traust, og ræða opinskátt og heiðarlega þegar í húfi eru mannréttindi, lýðræði og fjölræði. Jafnaðarmenn vilja taka virkan þátt í þeim umræðum.
Nýtt vaxtarlíkan

78. Ef skapa á atvinnu og velsæld um heim allan verður þróunin að vera í vistfræðilegu jafnvægi. Hagvöxtur sem ekki er sniðinn til að mæta vistfræðilegum og félagslegum kröfum vinnur gegn framförum vegna þess að hann mun valda umhverfisspjöllum og fækkun starfa. Markaðskerfið eitt og sér getur aldrei tryggt að félagsleg markmið hagvaxtar náist. Það er fullkomlega lögmætt hlutverk efnahagsstefnu að hún ýti undir þróun sem opnar tækifæri til framtiðar og bætir um leið lífsgæðin.

79. Ef ná á þessum markmiðum á heimsvísu er nauðsynlegt að koma á raunverulega nýju alþjóðlegu efnahagskerfi. Slíkt kerfi verður að sætta hagsmuni iðnríkja og þróunarríkja. Grundvallarendurbætur á fjárhagslegum samskiptum verða að leggja grunninn að alþjóðlegri efnahagssamvinnu. Sanngjarnara alþjóðlegt efnahagskerfi er nauðsynlegt, ekki einungis vegna samstöðunnar heldur til að skapa heimsefnahag sem er skilvirkari, framleiðnari og betur í jafnvægi.

80. Að því er varðar alþjóðlegar skuldir verður áherslan að vera á að lækka, afskrifa eða fjármagna skuldir fátækari landa. Þörf er á aðgerðum stofnana til að stöðga bæði viðskiptakjör og útflutningstekjur landa suðurhvels með því að setja á stofn hrávörusjóði með alþjóðlegum stuðningi. Lönd norðurhvels verða að opna markaði sína fyrir vörum frá suðurhveli og hætta að greiða niður útflutningsvörur sínar.

81. Um leið og framleiðni vex hröðum skrefum vegna nýrrar tækni er einnig nauðsynlegt að endurskilgreina vinnuna sjálfa. Tilgangurinn verður að vera að skapa mannlegri aðstæður á vinnustað, bæði með viðeigandi framleiðslutækni og með þátttöku starfsmannanna. Störf ætti að skapa með því að fjárfesta í félagsþjónustu og með því að bæta innviði. Andstætt þessu hafa íhaldssamar aðgerðir í mörgum iðnríkjum leyft stóratvinnuleysi að verða til, og þannig lagt félagslegt réttlæti og öryggi í hættu og valdið nyjum birtingarformum fátæktar í ríkari heimshlutum. Það er sérlega mikilvægt að ríkisstjórnir axli í raun þá ábyrgð að sjá til þess að næg atvinna sé fyrir alla.

82. Í mörgum tilvikum getur fækkun vinnustunda verið þáttur í að dreifa störfum réttlátlega, bæði launuðum störfum og heimilisstörfum, milli karla og kvenna. Slíkt fjölgar líka frístundum verkamanna, bænda og launþega og veitir þeim meiri tíma til að sinna öðrum viðfangsefnum.

Samstaða suðurs og norðurs

83. Tvímælalaust er efnahagsþróunin forgangsmál á suðurhveli. Með því er ekki sagt að til sé einföld formúla til að útrýma fátækt í þróunarlöndum, hvort sem er á grundvelli jafnaðarstefnu eður ei. Hagkerfi þurfa að losna við viðskiptahindranir, bættan markaðsaðgang og yfirfærslu tækni. Þau þurfa tækifæri til að byggja á eigin vísindalegum auðlindum – til dæmis á sviði líftækni – og hætta að vera háð tækni frá öðrum.

84. Fyrir fátækari þjóðlönd er hefðbundin þróunaraðstoð enn lífsnauðsynleg. Hjá mörgum þeirra er þörf á endurbótum á eignarhaldi og notkun lands, hvata til bænda til að tryggja sjálfbært framboð matvæla og stuðning við hefðbundna samvinnu samkvæmt sveitamenningu hvers lands. En aukin matvælaframleiðsla mun ekki binda endi á matvælaskort og hungursneyð. Því miður er það stundum svo að aukinn útflutningur matvæla getur lagt í rúst hefðbundið kerfi matvælaframboðs og þannig samtímis aukið framleiðslumagn og hungur. Stjórmálakerfið verður að hafa það hutverk að tryggja rétt manna bæði til matar og vinnu.

85. Skuldakreppan hefur leitt til nettóflæðis fjármagns frá þróunarríkjum til iðnríkja. Þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu skuli veitt í þróunaraðstoð, sem er tvöfalt núverandi framlag, verður að nást án tafar. Þörf er á samþættum alþjóðlegum aðgerðum til að létta skuldabyrðinni af þróunarríkjum.

86. Samvinnuverkefni við lönd á suðurhveli verða að styðja þróunarmarkmið sem lúta að hagvexti jafnframt réttlátri tekjuskiptingu. Hjálparverkefni verða að leggja áherslu á þróun fátækustu hópanna. Þau ættu að hjálpa til við að bylta forheimskandi félagsgerðum og bæta þjóðfélagsstöðu kvenna. Verkefni sem snúa sérstaklega að börnum eru sérlega mikilvæg. Hjálp sem veitt er gegnum samvinnufélög og fjöldahreyfingar ýtir undir lýðræðisþróun.

87. Þróun á breiðum grunni er líka mikilvægur þáttur í að stöðva hina miklu bylgju fólksflutninga til stórborganna á suðurhveli, en í mörgum þeirra er hætta á stjórnlausri fólksfjölgun og þær að verða risavaxin fátækrahverfi.

88. Bætt innbyrðis samband milli ríkja á suðurhveli er mikilvæg leið til efnahagsframfara. Umtalsverður vöxtur viðskipta milli ríkja á suðurhveli mun auka með þeim velmegun og bæta möguleika þeirra til að takast á við kreppur af völdum mikilla breytinga á framleiðslu og atvinnuumhverfi. Náin hagtengsl og hratt vaxandi markaðir í þróunarlöndunum eru lífsnauðsynleg forsenda fyrir jákvæðri þróun efnahags heimsins.

89. Opið efnahagskerfi heimsins getur örvað þróun á suðurhveli. En það getur líka valdið varnarleysi. Þess vegna ættu þjóðir norðurhvels ekki að fylgja efnahags- og viðskiptastefnu sem þvingar fram stórkostlega lækkun lífskjara og grafa undan grundvelli trausts lýðræðis.

90. Ójöfnuður og einræði eru ekki bara óvinir mannréttinda heldur líka raunverulegrar framþróunar. Það má ekki líta á félagslegt og efnahagslegt lýðræði sem lúxus sem auðugu löndin ein geti veitt sér. Þvert á móti er þetta hverju landi nauðsyn til að það geti tekið framförum á vegi þróunar. Það er þess vegna sem svo lífsnauðsynlegt er að styrkja lýðræðisjafnaðarstefnu á suðurhveli jarðar. Í þessu samhengi boðar stækkun Alþjóðasambands jafnaðarmanna á suðurhveli, sérstaklega í Suður-Ameríku og meðal þjóða Karíbahafs, gott fyrir bæði norðurhvel og suðurhvel.

91. Að binda enda á fátækt á suðurhveli er einnig sameiginlegt verkefni þjóða norðurhvels. Það getur leitt til afvopnunar og skapað bæði auð og störf í þróuðum jafnt og vanþróuðum löndum. Þetta er hornsteinn í stefnu jafnaðarmanna um að bregðast við víðtækum efnahagsbreytingum á tímum kreppu og umbreytinga um víða veröld. Það er líka lykilþáttur í hugmyndum jafnaðarmanna um nýtt hagskipulag og félagskerfi sem fært geti heiminn með friðsamlegum og hagfelldum hætti inn í 21. öldina.

VI. Með Alþjóðasambandi jafnaðarmanna í átt að lýðræðislegu heimssamfélagi
Einhugur hinnar alþjóðlegu jafnaðarstefnu

92. Á tímum hraðrar alþjóðavæðingar er ekki hægt að ná markmiðum lýðræðisjafnaðarmanna í einungis fáum ríkjum. Hlutskipti fólks víðs vegar um heiminn er samtengt í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Þess vegna verða hinir ýmsu flokkar jafnaðarmanna um heim allan að vinna saman, bæði að hagsmunum einstakra þjóða og sameiginlegum alþjóðlegum hagsmunum. Alþjóðasamband jafnaðarmanna, sem rekur sögu sína aftur til 1864, var endurreist 1951 í þessum tilgangi.

93. Þó að það sameini hreyfingar sem eiga sér langa sögu hver í sínu landi er Alþjóðasamband jafnaðarmanna ekki yfirþjóðleg, miðstýrð stofnun. Það er samtök sjálfstæðra flokka sem deila sameiginlegum grundvallarsjónarmiðum og þar sem fulltrúar þeirra vilja læra hver af öðrum, sameinast um að kynna hugmyndir jafnaðarmanna og vinna að þessu markmiði alþjóðlega.

94. Tillgangur Alþjóðasambandsins er að auðvelda þetta samstöðu- og samvinnustarf, vitandi það að það eru mismunandi aðferðir við að kynna grunngildi fjölhyggju og lýðræðisjafnaðarstefnu í ólíkum þjóðfélögum. Hver aðildarflokkur um sig ber ábyrgð á því hvernig hann kemur ákvörðunum Alþjóðasambands jafnaðarmanna í framkvæmd í sínu eigin landi.

95. Á undanförnum árum hefur meðlimahópur Alþjóðasambands jafnaðarmanna orðið í reynd alþjóðlegri með verulegri fjölgun í Suður-Ameríku og í Karíbahafi, og nýjum aðildarfélögum í öðrum heimsálfum. Markmið Alþjóðasambands jafnaðarmanna er að eiga samstarf við allar hreyfingar lýðræðisjafnaðarmanna um heim allan.

96. Allt frá Frankfurtyfirlýsingu Alþjóðasambands jafnaðarmanna 1951 hefur heimurinn orðið nánari, efnahgslega og félagslega en ekki að því er lýtur að lýðræðislegu samfélagi og samstöðu. Nú er ljóst að hreyfing jafnaðarmanna – sem nú horfir til 21. aldar – er að verða raunverulega alþjóðasinnuð í viðhorfum og gerðum.
Nýtt lýðræðisskipulag

97. Hið alþjóðlega viðfangsefni er hvorki meira né minna en upphaf nýs lýðræðislegs heimssamfélags. Við megum ekki leyfa samsteypum, þjóðum eða einkafyrirtækjum að móta pólitíska grunngerð heimsins eins og hún væri einungis aukaafurð frá hagsmunum þeirra sjálfra.

98. Að styrkja Sameinuðu þjóðirnar er mikilvægur þáttur í sköpun þessa nýja, lýðræðislega heimssamfélags. Ef almenn samstaða næst meðal stórþjóðanna er mögulegt að stilla til friðar og halda friðinn. Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna svo sem WHO og SÞ verkefni eins og UNDP og UNICEF hafa sýnt og sannað að ríkisstjórnir og borgarar hinna ýmsu þjóða geta unnið skilvirklega saman að lausn sameiginlegra alþjóðlegra viðfangsefna.

99. Það er ekki raunsætt að gera ráð fyrir að koma réttlæti og friði á með lagasetningu í heimi þar sem ójafnræði ríkir í grundvallaratriðum og milljónir rétt draga fram lífið meðan fámennir forréttindahópar njóta lífskjara sem flesta meðbræður þeirra dreymir ekki einu sinni um. Starf jafnaðarmanna í gömlu löndum kapítalismans leiddi til framfara á sviði velferðar og samstöðu, sem aftur greiddi götu aukins lýðræðis í þessum löndum. Á líkan hatt mun starf að auknu jafnræði á alþjóðavísu verða lykilskref á leið til lýðræðislegs samfélags heimsins.

100. Menn gera sér engar grillur um að þessi hugsjón verði að veruleika á skömmum tíma. En það er nauðsynlegt fyrir framtíð mannkyns að skapa heim fjölræðis og lýðræðis sem byggir á samkomulagi og samvinnu. Þetta er bæði áskorun og stórfenglegt tækifæri. Alþjóðasamband jafnaðarmanna er tilbúið til að takast á við þessa áskorun og vinna í þágu heims þar sem börn okkar geta lifað í friði, við frelsi, samstöðu og mannúð.

, ,

Inline
Inline