Siðareglur

Siðareglur

Alþjóðasamband jafnaðarmanna
SIÐAREGLUR ALÞJÓÐASAMBANDS JAFNAÐARMANNA
Samþykktur á XXII ráðstefnu Alþjóðasambands jafnaðarmanna, São Paulo

Við, aðildarflokkar Alþjóðasambands jafnaðarmanna, ítrekum að við erum algerlega skuldbundnir þeim gildum, jafnræði, frelsi, réttlæti, samstöðu og friði, sem liggja til grundvallar lýðræðisjafnaðarstefnunni. Við lýsum því formlega yfir að við munum virða, verja og kynna þessi gildi í anda grundvallaryfirlýsinga og átaksverkefna Alþjóðasambands jafnaðarmanna.

Stuðningur okkar við þessi gildi þýðir að við förum eins stranglega og unnt er eftir eftrfarandi siðareglum:

1. Að reka framsækna pólitík sem stuðlar að velferð einstaklingsins, eflingu atvinnulífs, sanngjörnum viðskiptum, félagslegu réttlæti og umhverfisvernd í anda sjálfbærrar þróunar.
Að veita viðnám gegn allri félaglegri og efnahagslegri pólitík sem styður hag forréttindahópa og vinna að sköpun heimshagkerfis sem leitt geti til sanngjarnari og réttlátari tengsla suður- og norðurhvels jarðar.
Að berjast gegn hverskyns spillingu og hindrunum í vegi góðra stjórnarhátta.

2. Að standa vörð um lýðræðislegt fjölræði. Það þýðir:
• frelsi borgaranna til að velja milli pólitískra valkosta innan ramma frjálsra, tíðra og falslausra kosninga;
• möguleika á að skipta um ríkisstjórn með friðsamlegum aðferðum og með óheftu tjáningarfrelsi borgaranna;
• virðingu fyrir réttindum minnihlutahópa og einstaklinga;
• óháð og óvilhallt réttarkerfi grundvallað á lögum;
• frjálsa og óháða fjölmiðlun;
• lýðræðislega stjórnarhætti í stjórnmálaflokkum.

3. Að tryggja við allar aðstæður virðingu fyrir mannlegri reisn og starfa í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og aðra mikilvæga sáttmála sem Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra hafa samþykkt.
Að banna dauðarefsingar.
Að virða og efla grundvallarmannréttindi, hvort sem er um að ræða einstaklingsréttindi (virðingu fyrir einkalífi, frelsi til hugsunar, trúar, menntunar, kynhneigðar og rétt til jafnrar meðferðar o.s.frv.), félagsleg réttindi (frelsi verkalýðsfélaga, rétt til að stofna til verkfalla, félagslega vernd o.s.frv.) eða pólitísk réttindi (félagafrelsi, almennur kosningaréttur).
Að standa vörð um jafnrétti kynjanna á öllum sviðum einkalífs og opinbers lífs, þar á meðal innan stjórnmálaflokka okkar, í áhrifastöðum á öllum sviðum og á öllum stigum.
Að berjast gegn hverskyns mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar, þjóðernis, kynhneigðar, tungumáls, trúarbragða, heimspekiviðhorfa eða stjórnmálaskoðana.
Að berjast gegn öllum öfgaþjóðernisstefnum, bókstafstrúarstefnum, útlendingahatri og kynþáttafordómum og að samþykkja ekki neins konar pólitískt bandalag eða samvinnu, á hvaða stigi sem er, við hvern þann stjórnmálaflokk sem hvetur til eða reynir að kynda undir þjóðernis- eða kynþáttahatri.
Að hafna og hvika hvergi frá andstöðu við hverskyns tilhneigingar til valdboðsstefnu og hvert það stjórnmálakerfi sem leyfir eða stundar mannréttindabrot til að ná eða viðhalda völdum (pólitískum morðum, pyntingum, óréttmætum fangelsunum, ritskoðun fjölmiðla, banni við eða niðurbælingu friðsamlegra mótmæla o.s.frv.)

4. Að styðja alþjóðlegar aðgerðir til stuðnings friði, umburðarlyndi, samræðu, skilningi og samvinnu þjóða í milli.
Að beita ekki hervaldi til að ná völdum eða til að framfylgja utanríkisstefnu, umfram það sem leyft er af viðeigandi alþjóðasamtökum.
Að vinna að útrýmingu gereyðingarvopna og að greiða götu afvopnunar.
Að styrkja hlutverk Sameinuðu þjóðanna og svæðisstofnana sem vinna að friðsamlegri lausn ágreiningsmála.

5. Siðanefnd sér um að fylgjast með hvernig allir aðildarflokkar virða þessar siðareglur og hefur vald til að veita ráðgjöf eða jafnvel gera tillögur um viðurlög til meginstofnana Alþjóðasambands jafnaðarmanna.

,

Inline
Inline