laekjarbrekka

Aðalfundur 11. febrúar, fréttir og skýrsla stjórnar

Aðalfundur Bókmenntafélags jafnaðarmanna var haldinn í Lækjarbrekku í Reykjavík miðvikudaginn 11. febrúar 2015.
Magnús Jónsson, fráfarandi formaður, setti fundinn og flutti skýrslu stjórnar, sem hér fylgir. Þá ræddi Ásgeir Jóhannesson, stjórnarmaður, undirbúning að afmælishátíð Alþýðuflokksins, en 12. mars á næsta ári verða 100 ár liðin frá stofnun hans og Alþýðusambands Íslands.

Talsverðar umræður urðu um starf félagsins og nokkrir nýir félagar bættust í hópinn. Fyrir stjórnarkjör lýsti Magnús Jónsson yfir því, að vegna mikilla anna og nýrra verkefna, hefði hann ákveðið, að láta af formennsku. – Nýr formaður var kjörinn Árni Gunnarsson og aðrir í stjórn Ásgeir Jóhannesson, Eiður Guðnason, Guðmundur Árni Stefánsson og Guðrún Helga Jónsdóttir.

Fljótlega verður greint frá yfirliti Ásgeirs um undirbúning afmælishátíðar flokksins.

Skýrsla stjórnar
Skýrsla þessi nær yfir starfsemi Bókmenntafélags jafnaðarmanna á tímabilinu 8. nóvember 2012 til ársloka 2014. Stjórn félagsins skipuðu á þessu tímabili: Magnús Jónsson formaður, Árni Gunnarsson ritari, Guðrún Helga Jónsdóttir
gjaldkeri og þeir Ásgeir Jóhannesson og Eiður S. Guðnason meðstjórnendur.

Á þessu starfstímabili beindist starfsemi félagsins einkum í tvo farvegi. Annars vegar að undirbúa hlutverk sitt og þátttöku í 100 ára afmæli Alþýðuflokksins- jafnaðarmannaflokks Íslands á árinu 2016 og hins vegar að halda málþing/
fyrirlestra um málefni sem tengjast jafnaðarstefnunni. Auk þess kom félagið að ýmsum málum sem hafa verið til þess fallin að styrkja jafnaðar-stefn-una og draga fram mikilvægi hennar.

Þann 24. janúar 2013 var formlega opnaður vefaðgangur að einkaskjalasöfnum sjö forystu-manna jafnaðarmanna á fyrri hluta 20. aldarinnar. Um er að ræða samstarfsverkefni Þjóðskjala-safns-ins, Landsbókasafnsins og Alþýðuhúss Reykjavíkur ehf. en verkefnið var kostað af sjóði í eigu þess síðastnefnda sem og sjóði sem Magnús Bjarnason kennari á Sauðárkróki lagði grunn að fyrir meira en fjórum áratugum. Bókmenntafélagið studdi framkvæmd þessa verk-
efnis og við opnunina flutti Ásgeir Jóhannesson stjórnarmaður í Bókmenntafélaginu sem einnig á sæti í stjórn Alþýðuhúss Reykjavíkur ehf. erindi sem er að finna á heimasíðu félagsins www.bokjafn.is.

Í mars 2013 ræddi félagið undirbúning að ritun á sögu Alþýðuflokksins í tilefni þess að hinn 12. mars 2016 verða liðin 100 ár frá því að flokkurinn og Alþýðusamband Íslands voru stofnuð. Eftir að stjórn félagsins lagði til að fá
Guðjón Friðriksson sagnfræðing til að rita söguna samdi stjórn Alþýðuhússins ehf við Guðjón og var miðað við að verkinu yrði lokið snemma árs 2015.

Stjórn Bókmenntafélagsins tilnefndi þá Árna Gunnarsson, Ásgeir Jóhannesson, Helga Skúla Kjartansson og Jón Baldvin Hannibalsson í ritnefnd verkefnisins og staðfesti stjórn Alþýðuhúss Reykjavíkur ehf. þá tilnefningu við höfundinn.

Er áætlað að bókin/bækurnar verði gefnar út fyrir afmælið í mars 2016 og eru samninga-umleitanir um útgefanda hafnar þegar þetta er skrifað. Guðrún Helga Jónsdóttir hefur tekið að sér að sjá um söfnun áskrifanda að verkinu á „tabula gratulatoria“ sem miðað er við að verði unnin í samstarfi við útgefanda.

Önnur atriði sem félagið hefur unnið að í tengslum við fyrrnefnt aldarafmæli jafnaðarmanna á Íslandi má nefna að ákveðið er að gefa út sönglög Gylfa Þ. Gíslasonar (nótur og texta) og hefur verið leitað eftir samstarfi við Atla
Heimi Sveinsson tónskáld og Þorvald Gylfason prófessor um framkvæmd þess verkefnis. Þá er á afmælisárinu fyrirhuguð hátíðarsamkoma með fyrirlestrum fræðimanna, tónlistarflutningi o. fl. Fundað hefur verið bæði með forystu-mönnum ASÍ (sem er að undarbúa aldarafmæli samtakanna á sama tíma) og Samfylkingar-innar bæði til að upplýsa þessa aðila um fyrirætlanir Bókmenntafélagsins en einnig að kanna áhuga á samstarfi um einstök atriði.

Ýmis önnur atriði í tengslum við aldarafmæli Alþýðuflokksins hafa verið rædd en ekki ákveðin.

Þann 19. nóvember 2013 var haldinn fræðslufundur þar sem Sigurður Pétursson sagnfræð-ingur flutti erindi sem hann nefndi „Samþætt barátta: Verkalýðshreyfing og jafnaðarmenn á Ísafirði 1921-1946“. Fjallað var m.a. um baráttusögu jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingar á Ísafirði við útgerðarauðvald þessa tíma en Sigurður gaf fyrir nokkru út bókina „Vindur í seglum“ sem nær yfir sögu verkalýðsbaráttuna fyrir vestan á árunum 1890-1930.
Var fundurinn allvel sóttur og fjörugar umræður urðu að loknu framsöguerindi Sigurðar.

Í maí 2014 lauk Dr. Hörður Filippusson prófessor við þýðingu sína á stefnuskrá Alþjóðasambands jafnaðarmanna og var hún sett á vefsíðu félagsins www.bokjafn.is. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi 25 ára gamla yfirlýsing
alþjóðlegu jafnaðarmannahreyfingarinnar er þýdd á íslensku. Þykir stjórn Bókjafn mikill fengur að því að þetta skjal, sem samið var á því mikla alþjóðlega umbreytingarári 1989, skuli loks hafa verið þýtt og hyggst félagið
gefa það út.

Þann 19. september 2014 var haldið málþing í salarkynnum Þjóðminjasafnsins á vegum Bókjafn. Þar flutti Jón Baldvin Hannibalsson fv. utanríkisráðherra og formaður Alþýðu-flokksins yfirgripsmikið og afar fróðlegt erindi sem hann nefndi „Endurreist sjálfstæði Eystrasaltsþjóða – upphafið að endalokum Sovétríkjanna“. Þar rakti JBH æsispennandi atburðarás í Eystrasaltsríkjunum á árunum 1989 til 1991 og gerði grein fyrir hlutverki og aðkomu Íslands að þessu endatafli kalda stríðsins.Var málþingið afar vel sótt og erindi JBH fylgdu líflegar umræður. Var þessu merka erindi sumstaðar gerð allgóð skil, m.a. í bók Styrmis Gunnarssonar „Í köldu stríði“ sem kom út sl. haust.

Í september 2014 var formlega gengið frá skráningu félagsins hjá Fyrirtækjaskrá Ríkisskatt-stjóra. Fékk félagið kennitöluna 520914-1960. Í framhaldi af því var stofnaður bankareikningur félagsins og innheimta hófst á félagsgjöldum í fyrsta sinn á vegum félagsins. Árgjaldið var ákveðið kr. 3000.

Hinn 31. október 2014 stóð félagið fyrir fræðslufundi um þróun jafnaðarstefnunnar á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar, þar sem Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir sagnfræðingur flutti fyrirlestur er hún nefndi “Litli bróðir á Íslandi. Um Alþýðuflokkinn á mótunarárum íslenska flokka-kerf-isins, 1916-1944.” Þessi fundur var ágætlega sóttur og urðu miklar umræður um stöðu og þróun jafnaðarstefnunnar allt til þessa dags og hvers vegna staða þessarar merku
stjórnmálahreyfingar er með öðrum hætti á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum.

Á því starfstímabili sem þessi skýrsla tekur til voru haldnir 19 stjórnarfundir auk ýmissa óformlegra funda. Í árslok 2014 voru félagar í Bókmenntafélagi jafnaðarmanna 41.

F.h. stjórnar Bókjafn
Magnús Jónsson

Inline
Inline