hnefi, rós, styrkur, bókmenntafélag jafnaðarmanna

Fundargerð aðalfundar

Aðalfundur Bókmenntafélags jafnaðarmanna var haldinn í Lækjarbrekku í Reykjavík miðvikudaginn 11. febrúar 2015.
Fundinn sátu tæplega tveir tugir félagsmanna og gesta.

Magnús Jónsson, formaður félagsins, setti fundinn og flutti skýrslu stjórnar, sem fer hér á eftir:

Yfirlit Ásgeirs.

Ásgeir Jóhannesson, stjórnarmaður, greindi frá ýmsum verkefnum, sem væru í undirbúningi í tilefni 100 ára afmælis Alþýðuflokksins og ASÍ hinn 14. mars 2016. Leitað hefði verið samstarfs við Samfylkinguna og ASÍ, en á báðum stöðum hefði verið nokkuð þröngt fyrir dyrum. Í Samfylkingunni væri fólk úr fyrrum starfandi stjórnmálaflokkum og innan ASÍ væri fólk úr öllum flokkum. Formaður Samfylkingarinnar stefndi að ráðstefnu með formönnum norrænu jafnaðarmannaflokkanna, og yrði hún haldin í aðdraganda afmælisins. Stefnt væri að því, að nýta afmælisárið til almennrar kynningar á jafnaðarstefnunni. – Ásgeir vék að sölu Alþýðuhússins, þar sem
Alþýðuflokkurinn hafði skrifstofu sína og nokkur verkalýðsfélög. Fyrst hefði verið reynt að leigja húsið, en síðan ákveðið að selja það. Hlutur Alþýðuhússins ehf. hefði verið nýttur til að skrá sögu Alþýðuflokksins og síðar til að safna og skrá gögn forystumanna flokksins og verkalýðshreyfingarinnar.

Guðmundur Árni Stefánsson hefði orðið fyrstur til að ræða við Þjóðskjalasafnið um skráningu gagna flokksins.
Einnig hefði Gylfi Gröndal verið ráðinn til að skrá söguna frá um 1916. Frá honum hefði komið bókin Fólk í fjötrum. Samið var við Gylfa um skrifa framhald til 1940, en hann lést áður en af því gat orðið.

Ásgeir sagði frá samningi, sem gerður var við Landsbókasafn og Þjóðskjalasafn um skráningu gagna forystumanna Alþýðuflokks og verkalýðshreyfingar. Árið 2013 voru opnuð 7 söfn einstaklinga, sem við sögu komu. Þessu starfi er nú haldið áfram og berast gögn úr ýmsum áttum. Komin eru gögn frá Finnboga Rúti, sem Styrmir Gunnarsson aðstoðaði við að afla, og mikið safn frá Jóni Baldvin. Nú síðast hafa komið bréf og greinar úr fórum Gylfa Þ. Gíslasonar, og von er á meiru. Þá hafa borist bréf og fleira efni frá ættingjum Guðmundar Í. Guðmundssonar, og dóttir Soffíu Yngvarsdóttur hefur tilkynnt, að hún sé að taka saman bréf og ýmis handrit úr safni móður
sinnar. Einnig vill hún færa Bókmenntafélaginu ýmsa gripi, sem Soffíu voru gefnir í þakkarskyni fyrir störf í þágu flokks og kvenna.
Gagnasöfnin er nú opin öllum og er unnt að nálgast þau hér á vefnum.

Þá vék Ásgeir að útgáfu afmælisrits í tilefni 100 ára afmælis flokksins. Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, hefði verið fenginn til að skrifa bókina. Efni, sem hann hefði þegar skilað, sannfærði sig um, að bókin yrði bæði fróðleg, skemmtileg og spennandi; ekki síðri en góður reyfari eftir Arnald Indriðason. Bókin yrði mjög læsileg.

Árni Gunnarsson sagði frá fyrirhugaðri hátíðarútgáfu á lögum Gylfa Þ. Gíslasonar, sem þeir Þorvaldur Gylfason og Atli Heimir Sveinsson hafa umsjón með. Einnig ræddi hann fyrirhuguð málþing og fyrirlestra. Hann nefndi tvær hugmyndir um fyrirlestra; annars vegar um áhuga Einars Benediktssonar, skálds, á jafnaðarstefnunni, og skrif hans um hana. Einnig að fá góðan rithöfund til að fjalla um Þorstein Erlingsson, skáld, sem barðist einarðlega fyrir réttindamálum alþýðufólks og studdi baráttutæki þeirra í ljóðum sínum. ÁG nefndi Guðmund Andra, rithöfund, til að fjalla um Þorstein. Einnig kæmi til greina nafni hans, Þorsteinn frá Hamri.

Guðmundur Árni Stefánsson þakkað hið mikla starf, sem unnið hefði verið. Hann minnti á, að hann, Hörður Zóphaníasson, Ásgeir og fleiri úr síðustu stjórn Alþýðuflokksins hefðu fengið umboð til að safna gögnum úr sögu flokksins. Vel væri að verki staðið, ekki til að státa sig af fortíðinni og sögu flokksins, heldur til að kynna nýjum kynslóðum starf og árangur íslenskra jafnaðarmanna.

Guðrún Helga ræddi söfnun nafna í heiðursáskrift bókarinnar.

Jón Baldvin þakkaði yfirlit Ásgeirs. Sagði starf félagsins tilefni til kynningar- og auglýsingaátaks og spurði hvort reynt hefði verið, að hafa samband við sambærileg félög í norrænu löndunum, væru þau til.

Bjarni P. Magnússon velti þeirri hugmynd upp, hvort ekki mætti koma væntanlegri sögu félagsins í rafbókarform.

Birgir Dýrfjörð spurði hvort eðlilegt væri, að Samfylkingin sæti nú í stól Alþýðuflokksins hjá Alþjóðasambandi jafnaðarmanna.

REIKNINGAR.

Guðrún Helga gerði grein fyrir fjárrreiðum Bókmenntafélagsins. Ekki hefði enn verið komið á formlegu bókhaldi, enda nýbyrjað að innheimta félagsgjöld. Alls hefðu safnast 89.500 krónur. Helstu útgjöld hefðu verið skráning félagsins og opnun bankareiknings. Inneign væri nú 71.000 krónur. – Þessi reikningsskil voru samþykkt.

Fulltrúaráð.

Í fulltrúaráði Bókmenntafélagsins eru 11 manns. Ekki komu fram breytingatillögur og var ráðið einróma endurkjörið.

Stjórn.

Magnús Jónsson, formaður Bókmenntafélagsins, lýsti þvi yfir, að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs. Hann sæi fram á mikið annríki hjá sáttasemjara, þar sem hann hefur starfað að undanförnu. Auk þess væri hann smátt og smátt að flytja sig til Sauðárkróks, þar sem hann gerir út trillu. Hann stakk uppá Árna Gunnarssyni sem næsta
formanni. Það var einróma samþykkt. Aðrir í stjórn voru kjörnir: Ásgeir Jóhannesson, Eiður Guðnason, Guðmundur Árni Stefánsson og Guðrún Helga Jónsdóttir.

Fleira var ekki bókað á þessum fundi.
Árni Gunnarsson.

,

Inline
Inline