Einar Kárason, rithöfundur

Hreyfing sósíaldemókrata

Einar Kárason er einn af þekktustu og hæfileikaríkustu rithöfundum þjóðarinnar. Greinin, sem hér fylgir, hefur vakið mikla athygli og veitti höfundur okkur leyfi að birta hana hér á vef Bókmenntafélags jafnaðarmanna.

Það er rétt sem sumir hafa sagt að hin óvænta og kannski vanhugsaða kosningabarátta um formannsstöðu í Samfylkingunni um síðustu helgi kunni að hafa skaðað báða kandídatana og líka flokkinn, og einnig má taka undir með þeim sem segja að þingið sjálft hafi ekki verið nógu afgerandi og að samþykktir hefðu mátt vera beinskeyttari og stefna meira að því sem mest brennur á almenningi nú um stundir. En fullyrðingar og hróp um að þetta merki allt að Samfylkingin sé óþörf eða jafnvel að tími hennar sé liðinn og erindi hennar lokið, allt er það gersamlega fráleitt – sama á við um tilheyrandi þórðargleði. Þannig sagði það annars lítt glaðværa bloggtröll Jónas Kristjánsson að Gunnar Smári Egilsson hefði „jarðað Samfylkinguna“ með yfirborðslegum hugleiðingum sínum í Fréttatímanum um daginn. Því að þá gleyma menn því að umræddur flokkur er kyndilberi pólitískrar hugmyndafræði á heimsvísu og fulltrúi þeirrar úthugsuðu og þrautreyndu stjórnmálastefnu sem hefur reynst þjóðum og almenningi best þar sem hún hefur fengið að festa rætur.

Engu að tapa nema hlekkjunum
Hér er um að ræða sjálfa Jafnaðarstefnuna, Sósíaldemókratismann, sem er líklega áhrifamesta stjórnmálahugmynd í okkar heimshluta síðustu hálfa aðra öld eða svo; hefur mótað hin bestu samfélög Vesturlanda og víðar, og gerir það enn. Og það er greinilega þörf á að rifja öðru hverju upp þessa sögu. Jafnaðarstefnan, sósíalisminn, verður til snemma á 19. öld og þá sem andsvar við því herfilega misrétti sem hin nýju iðnaðarþjóðfélög höfðu alið af sér, þar sem fámennar yfirstéttir gamla aðalsins og nýríkra borgara áttu allt: jarðnæði, atvinnutæki og húsnæði, en hinn fjölmenna alþýða lifði við sult, seyru og þrældóm. Fyrstu jafnaðarmennirnir í nútímaskilningi eru venjulega taldir Saint-Simon markgreifi í Frakklandi og Robert Owen í Bretlandi. Kenningasmiðir á borð við þá Karl Marx og Friedrich Engels áttu einnig mikinn þátt í að móta þessa stefnu, meðal annars með riti sínu „Kommúnistaávarpið“, og má það raunar merkilegt heita miðað við hve sósíaldemókrata hefur lengi greint mjög á við kommúnista. En hugmynd þessarar verkalýðssinnuðu vinstrihreyfingar var sameign á atvinnutækjum og öðrum lífsgæðum, í stað þess að allt slíkt væri í einkaeign fárra.

Þjáðir menn í þúsund löndum
Hreyfingin breiddist hratt út um Vesturlönd, enda áttu hugmyndir hennar um jöfnuð og réttindi allra til sómasamlegs lífs mikinn hljómgrunn, þótt lögregla og ríkisvald yfirstéttanna berðust hart á móti. Flokkar jafnaðarmanna voru stofnaðir eftir því sem við varð komið og verkalýðsfélög skipulögð í nánum tengslum við það. Til varð alþjóðasamband, „Annað alþjóðasamband sósíalista“ – sem á táknrænan hátt var stofnað í París á hundrað ára afmælisdegi frönsku byltingarinnar, undir gunnfána kröfunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það alþjóðasamband leystist reyndar upp í Fyrri heimsstyrjöldinni, aðallega vegna mismunandi afstöðu til stríðsátakanna, en hitt var ekki síður afdrifaríkt að upp var kominn grundvallarklofningur í hreyfingunni, á milli þeirra sem ahylltust byltingu til að koma á nýrri þjóðfélagsskipan – það voru kommúnistarnir – og hinna sem vildu vinna eftir leikreglum lýðræðis og almennra kosninga í sama augnamiði; eftir það kallaðir sósíal-demókratar, eða jafnaðarmenn á íslensku.

Klofningurinn
Á Íslandi varð þessi þróun svipuð og annarsstaðar; árið 1916 var Alþýðuflokkurinn stofnaður, og þá sem breiðfylking sósíalista, hinna byltingarsinnuðu jafnt sem hinna hægfara, og í nánum tengslum við stofnun flokksins var Alþýðusambandi Íslands komið á laggirnar. Þessi hreyfing átti eftir að klofna hér sem annarsstaðar – byltingarsinnarnir gengu út og stofnuðu eigin flokk; Kommúnistaflokkinn, sem varð hluti af „Þriðja alþjóðasambandinu“ þar sem Moskvuvaldið réðu mestu; seinna breyttist nafnið í Sósíalistaflokkinn og loks Alþýðubandalagið, sem fljótlega varð að hefðbundnum krataflokki svo að grundvöllur gamla klofningsins var ekki lengur til staðar, og sameining flokkana var rökrétt framhald af því.

En svo við víkjum aftur að klofningi sósíalistahreyfingarinnar í kommúnista og sósíaldemókrata þá varð hann auðvitað ekki bara hér á landi, heldur víðast hvar í Evrópu. Hér gerðist það hinsvegar að hreyfing kratanna fór sumpart halloka, á meðan sósíaldemókrataflokkar ( í sumum löndum hétu þeir það, eða verkamannaflokkar eða alþýðuflokkar) urðu leiðandi stjórnmálaafl í mörgum okkar nágrannalanda, víða stærsti flokkurinn og hafði afgerandi og mótandi áhrif á samfélögin. Hvers vegna þetta gerðist ekki á Íslandi er kannski ekki auðvelt að skýra, en sumpart stafar það eflaust af miklum styrk og áhrifum kommúnistahreyfingarinnar hér, en mikil orka þessara tveggja klofningsarma fór í að slást við hinn. Kommúnistahreyfingin hér á landi átti marga öfluga forystumenn, bæði í flokknum og verkalýðshreyfingunni, og ekki síður geysiáhrifamikla stuðningsmenn sem hrifu fólk með mælsku sinni og sannfæringarkrafti: nægir þar að nefna stórskáldin og stílsnillingana Halldór Laxness og Þórberg Þórðarson.

Áhrif vinstrimanna
Áhrif kommúnistahreyfinga má reyndar ekki vanmeta á jákvæða þjóðfélagsþróun; þeir börðust fyrir bættum hag alþýðunnar, og óttinn við uppgang þeirra og hugsanlega byltingu, eins og varð í Rússlandi 1917, ýtti við sumum hægriflokkum að beita sér fyrir margskonar umbótum og auknu jafnrétti; það átti ekki síst við um borgaralega íhaldsflokka, svipaða þeim sem Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi löngum var. En hversu krataflokkurinn íslenski var löngum smár og veikur varð meðal annars til þess að þjóðfélagsþróun í átt til minni misskiptingar og minni valda fjármagnsaflanna varð ekki sú sama hér og í ýmsum löndum í kringum okkur. Gott dæmi um afleiðingar veikrar vinstrihreyfingar mátti meðal annars lesa í síðasta tölublaði DV, þar sem bent var á að stjórn samtaka atvinnurekenda er skipað fólki með þetta fjórar til sjö milljónir hvert á mánuði, en sama fólk telur fráleitt að almennt launafólk hækki upp í þrjúhundruð þúsund.

Í löndunum í kringum okkur þar sem kratar hafa mótað samfélagið myndi það aldrei vera svo að þeir sem væru á 20-földu kaupi á við almennt verkafólk væru samt að borga sömu skattprósentuna. Þarna hefði hið opinbera verið búið að gera sitt til að jafna kjörin með skattkerfinu.

Áhrif sósíalistahreyfingarinnar hafa þrátt fyrir allt verið töluverð hér á landi; vinstriflokkarnir björguðu
landinu til dæmis frá gjaldþroti eftir Hrun. Sumir gagnrýna réttilega að kvótakerfið skyldi þá ekki vera stokkað upp, en hægt er að skilja það sjónarmið að í þeirri úlfakreppu sem samfélagið var þá hafi ekki
mátt rugga bátnum of mikið. Sömuleiðis má minna á að þrátt fyrir að vinstrimönnum sé ekki tamt að hrósa Viðreisnarstjórninni þá tókst krötum samt á valdatíma hennar að koma merkilegum framfaramálum í gegn, t.d. í húsnæðismálum hinna efnaminni og jafnrétti til náms. En allt hefði þetta mátt vera miklu meira.

Norðurlöndin stóðu best af sér kreppuna
Íhaldsöflin börðust að sjálfsögðu á hæl og hnakka í þeim löndum þar sem flokkar sósíaldemókrata urðu áhrifamestir, þau töldu hugmyndir um að skattleggja auðsöfnun og gróða til að jafna kjör landsmanna hið versta glapræði, og spáðu því að slíkar aðgerðir myndu engu skila nema veikara atvinnulífi og að framtak yrði drepið niður. Og byggja slíkar spár reyndar á ýmsum útbreiddum hagfræðikenningum. En það merkilega gerðist að þessir spádómar rættust ekki, heldur þvert á móti: í þeim löndum þar sem stefna á jöfnuð var best útfærð vegnaði atvinnulífinu einnig best; í löndum Norður-Evrópu varð efnahagurinn þróttmestur og landsframleiðsla mest. Þetta byggir meðal annars á því að jöfnuður gerir það að verkum að mun fleiri þegnar verða virkir í gangverki samfélaganna, eða nær allir, á meðan misréttisþjóðfélög skilja eftir stóra hópa útundan, í einhverskonar tómarúmi og gagnsleysi. Fyrir vikið hafa allir mælikvarðar heimsrannsókna á gæðum ríkja jafnan skipað hin
kratamótuðu samfélög Norður- og Vesturevrópu í efstu sæti, og það sem meira er, þá hafa þau líka sýnt sig hafa mesta hæfni til að standa af sér efnahagskreppur; á meðan dólgahugmyndir hægrimanna um afskipta- og eftirlitsleysi með kapítalismanum skildi Ísland eftir berskjaldað fyrir bankakreppunni í október 2008, með frægum afleiðingum, þá hristu nágrannalöndin krísuna af sér án þess að skerða stórkostlega kjör þegnanna, eins og hér gerðist.

Um ríkin þar sem hinn klofningsarmur sósíalistahreyfingarinnar, kommúnistarnir, tóku völdin, þarf ekki að fjölyrða, enda eru þau veldi í Evrópu liðin undir lok með allri sinni harðstjórn – enn eru kommúnistar við völd í stöku Asíulöndum, þótt erfitt sé að sjá þess stað í kínverska túrbókapítalismanum, eða miðaldamyrkrinu norðurkóreska.

Hugmyndagrunnur BF og Pírata?
Með öðrum orðum: Mörg sú ógæfa og mörg þau mein sem hrjá íslenskt samfélag, umfram nágrannalöndin, má rekja til of lítilla áhrifa jafnaðarmennskunnar hér á landi. Bara svo ég nefni eitt dæmi: í ríkjum þar sem sósíaldemókratar voru áhrifamestir hefði það aldrei hent að helstu auðlindir þjóðarinnar hefðu orðið eign fámenns útgerðaraðals, eins og hér gerðist. Þetta er sambærilegt við það ef Norðmenn hefðu gefið nokkrum auðmönnum olíulindirnar, og leyft þeim einum að fleyta af þeim gróðann.

Sumir tala jafnan um að Samfylkingin hafi hallast of mikið af Blair-isma, kenndum við Tony Blair í Bretlandi, en ég hef aldrei heyrt rökstuðning með fullyrðingum um þann tendens íslenska krataflokksins, né heldur í hverju sá ismi á að hafa verið fólginn. En hitt er víst að hvað sem því leið þá fara jafnaðarmannaflokkar aldrei langt eða til langframa af sínum öfluga grundvelli , til þess er hann allt of traustur, margreyndur og úthugsaður; sama á einnig við um Verkamannaflokkinn breska. Nú hafa sumir sagt að Samfylking sé óþörf þar sem við höfum bæði Bjarta Framtíð og Pírata. En um hugmyndagrunn þeirra flokka er ekkert vitað, fyrir utan það sem Píratar kenna sig við og snýst um ókeypis dreifingu á höfundaréttarvörðu efni á netinu. Það er margt gott fólk í forystu nefndra flokka, en með því að stefnugrunnurinn er með öllu óljós þá vitum við ekkert hvert þeir ætla til langframa – það getur farið fyrir þeim eins og Framsókn sem var einhverskonar vinstriflokkur undir forystu manna eins og Eysteins Jónssonar og Steingríms Hermannssonar yfir í að vera á sama róli og ameríska tepokahreyfingin, eins og nú virðist helst uppi á teningnum.

Einar Kárason

Inline
Inline