Alþýðuflokkurinn 100 ára

HÁTÍÐAHÖLD ALÞÝÐUFLOKKS OG BÓKMENNTAFÉLAGS JAFNAÐARMANNA

Alþýðuflokkurinn 100 ára
Bókmenntafélag jafnaðarmanna og Alþýðuflokkurinn efna til hátíðarsamkomu í Iðnó laugardaginn 5. mars. Tilefnið er 100 ára afmæli Alþýðuflokksins, en þann 12. mars árið 1916 stofnaði íslensk alþýða ný baráttusamtök, Alþýðusamband Íslands og Alþýðuflokkinn. Á laugardaginn verður einnig opnuð í Iðnó, uppi, sýning á áróðusspjöldum, sem Wilhelm Beckmann gerði fyrir Alþýðuflokkinn. Þar verða einnig ljósrit af 19 listaverkum, sem ýmsir listamenn gerðu fyrir Sunnudagsblað Alþýðublaðsins á árunum 1934 til ´36. Í framhaldi afmælishátíðarinnar verða fluttir átta fyrirlestrar um Alþýðuflokkinn og jafnaðarstefnuna.

Alþýðuflokkurinn var stofnaður sem stjórnmálaafl verkalýðsfélaganna í landinu og tóku sjö verkalýðsfélög í Reykjavík og Hafnarfirði þátt í stofnun hans. Í framhaldinu voru stofnuð félög jafnaðarmanna um land allt og flokkurinn bauð fyrst fram í kosningum árið 1916 og árið 1926 varð hann aðili að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna. Formlegu starfi hans lauk þegar hann tók þátt í stofnun Samfylkingarinnar en flokkurinn var þó aldrei lagður niður og lifir enn.

Á hátíðarsamkomunni í Iðnó laugardaginn 5. mars kl. 14 verður fjallað um sögu flokksins, jafnaðarstefnuna og mikil áhrif flokksins til hagsbóta fyrir íslenska alþýðu og á þróun velferðarsamfélagsins. Ávörp flytja Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Jóna Ósk Guðjónsdóttir fyrrum formaður Sambands Alþýðuflokkskvenna og bæjarfulltrúi og Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. Ólafur Þ. Harðarson talar um Alþýðuflokkinn og sögu hans og fyrrum formenn flokksins standa á sviði og svara spurningum um minnisstæða atburði og verkefni

Boðið verður upp á ýmis tónlistaratriði, Hornaflokkur lýðveldisins leikur og Söngsveit alþýðunnar flytur íslenska alþýðusöngva. Atli Heimir Sveinsson leikur lög eftir Gylfa Þ. Gíslason og tónlistarkonurnar Ragnheiður Gröndal og Ólöf Arnalds koma fram. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona, les úr bók Gylfa Gröndal „Fólk í fjötrum“. Að dagskrá lokinni verður boðið uppá veitingar.

Í tengslum við afmælið munu átta rithöfundar og fræðimenn flytja erindi um málefni, sem tengjast Alþýðuflokknum og jafnaðarstefnunni. Erindin verða öll flutt í Iðnó, uppi, á laugardögum í mars og apríl og síðan í september og fram í október að bók Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings um 100 ára sögu Alþýðuflokksins kemur út. Fyrsta erindið flytur Guðmundur Andri Thorsson 19. mars og fjallar hann um baráttuskáldið Þorstein Erlingsson. Dagsetningar fyrirlestranna og umfjöllunarefni og aðra dagskrá er að finna á vef Bókmenntafélags jafnaðarmanna, bokjafn.is.

Í tilefni afmælisins efna jafnaðarmenn í „rauðu bæjunum“ Hafnarfirði og á Ísafirði, til hátíðarfunda í september n.k. Í Hafnarfirði mun Steinunn Þorsteinsdóttir sagnfræðingur, flytja erindi og á Ísafirði tala þeir Sigurður Pétursson sagnfræðingur, Sighvatur Björgvinsson og Jón Baldvin Hannibalsson, báðir fyrrum formenn Alþýðuflokksins.

———————————-

Frekari upplýsingar veitir Árni Gunnarsson formaður Bókmenntafélags jafnaðarmanna í síma 861 7788, netfang gunnsa@simnet.is

, , , , ,

Inline
Inline