Alþýðuflokkurinn

Stiklur úr sögu Alþýðuflokksins

1916. Alþýðuflokkurinn og Alþýðusamband Íslands stofnað sem ein skipulagsheild.
1919. Alþýðublaðið, málgagn Alþýðuflokksins, kom fyrst út 24. okt. árið 1919 undir ritstjórn Ólafs Friðrikssonar. Blaðið var prentað í Alþýðuprentsmiðjunni, sem komið var á fót með samskotum flokksfélaga.
1921. Jón Baldvinsson, formaður Alþýðuflokksins, kjörinn á þing og tekst á sínu fyrsta þingi að fá vökulögin samþykkt sem tryggja hvíldartíma sjómanna.
1921. Alþýðuflokkurinn fær hreinan meirihluta í bæjarstjórn á Ísafirði og heldur honum nær óslitið til 1946. Undir stjórn Alþýðuflokksins tekur bæjarfélagið helstu atvinnutækin í sínar hendur og gerir Ísafjörð að fyrirmyndarbæ.
1926. Alþýðuflokkurinn fær hreinan meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og heldur honum óslitið til 1954.
1927. Þingmenn Alþýðuflokksins orðnir fimm og eiga í fyrsta sinn óbeina aðild að ríkisstjórn undir forystu Framsóknarmanna.
1929 Lög um verkamannabústaði sett fyrir atbeina Alþýðuflokksins.
1930. Kommúnistar kljúfa sig út úr Alþýðuflokknum og stofna Kommúnistaflokkinn.
1934. „Stjórn hinna vinnandi stétta“, samsteypustjórn  Framsóknar- og Alþýðuflokks. Haraldur Guðmundsson, atvinnumálaráðherra, fyrsti ráðherra jafnaðarmanna. Stjórnin byggir á áætlunarbúskap og endurskipulagningu atvinnuveganna.
1936. Almannatryggingum komið á fyrir atbeina Alþýðuflokksins og alræmd fátækralög afnumin. Þeir Haraldur Guðmundsson, atvinnumálaráðherra og Jón Blöndal, hagfræðingur voru höfundar laganna, sem urðu grundvöllur íslenska velferðarríkisins.
1938. Hinn áhrifamikli Héðinn Valdimarsson gengur úr Alþýðuflokknum til liðs við kommúnista í Sameiningarflokki alþýðu – Sósíalistasflokknum. Hann segir sig úr flokknum ári síðar.
1938. Lög um stéttarfélög og vinnudeilur sett að frumkvæði Guðmundar Í Guðmundssonar. Samningsréttur launþega um kaup og kjör innsiglaður.
1940. Skipulagstengsl við Alþýðusamband Íslands rofin.
1944. Aðild að nýsköpunarstjórninni. Meðal þess sem Alþýðuflokkurinn fékk framgengt var stórbætt almannatryggingakerfi.
1947. Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, myndar stjórn  og Ísland verður stofnaðili Atlantshafsbandalagsins 1949.
1954. Hannibal Valdimarssyni vikið úr þingflokki Alþýðuflokksins. Hann stofnar Alþýðubandalagið sem kosningabandalag með Sósíalistaflokknum 1956.
1958.. Emil Jónsson myndar minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, og fer árangursríka niðurfærsluleið í baráttunni við mikla verðbólgu.
1959. Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem stóð í 12 ár. Undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar tók Alþýðuflokkurinn upp nýja og frjálslynda hagstjórnarstefnu. Hafta- og bótakerfi lagt niður, og fyrstu skref stigin í átt til frjálsra milliríkjaviðskipta. Þjóðnýtingu hafnað, en ríkisforsjá viðhaldið á mörgum sviðum.
1961. Alþýðuflokkurinn nær fram lögum um sömu laun karla og kvenna fyrir sömu vinnu, sem verið hafði baráttumál flokksins á þingi frá 1948.
1961. Lánasjóði íslenskra námsmanna komið á fót fyrir atbeina Gylfa Þ. Gíslasonar. Á næstu árum var skólakerfinu umbylt, einkum til að opna aðgang allra að því. Vísindastarf var stóreflt og grunnur lagður að blómlegu tónlistarlífi með eflingu tónlistarskóla um land allt.
1970. Ný lög um verkamannabústaði sett fyrir frumkvæði Alþýðuflokksins. Sveitarfélög eiga nú í fyrsta sinn aðild að verkamannabústöðum.
1971. Undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar gerist Ísland aðili að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu.
1972. Í október 1972 var Samband Alþýðuflokkskvenna stofnað. Stofnendur voru 3 kvenfélög flokksins. Fyrsti formaður Sambandsins var Kristín Guðmundsdóttir. Innan Sambandsins var fjallað um stöðu kvenna og barna, og fyrir þess hönd var m.a. flutt þingsályktun á Alþingi um umbætur í málefnum barna.
1978. Undir formennsku Benedikts Gröndal vinnur Alþýðuflokkurinn stórsigur  í Alþingiskosningum eftir dapurt gengi undanfarinna ára. Sigurinn ekki síst þakkaður Vilmundi Gylfasyni og fjölda ungra frambjóðenda.
1979. Ólafslög sett, m.a. um verðtryggingu til að forða lífeyrissjóðunum og sparifé almennings frá því að brenna upp á verðbólgubáli.
1983. Vilmundur Gylfason klýfur sig út úr Alþýðuflokknum og stofnar Bandalag jafnaðarmanna.
1984. Jón Baldvin Hannibalsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins á grundvelli róttækrar stefnuyfirlýsingar: Hverjir eiga Ísland?
1986. Bandalag jafnaðarmanna gengur aftur til liðs við Alþýðuflokkinn. Jafnaðarmenn vinna sinn stærsta sigur í sveitastjórnarkosningum.
1987. Fjármálaráherra Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, beitir sér fyrir róttækum umbótum á tekjustofnakerfi ríkisins. Staðgreiðslukerfi tekjuskatta tekið upp. Drög lögð að virðisaukaskatti í einu þrepi, og innflutningstollar lagaðir að tollskrá ESB.
1988. Alþýðuflokkurinn á aðild að Vinstri stjórn sem beitir sér fyrir miklum breytingum í peninga- og efnahagsmálum, afnemur höft á gjaldeyrisviðskiptum og opnar landið. Jón Sigurðsson og Jón Baldvin Hannibalsson  helstu hugmyndafræðingarnir.
1988. Alþýðuflokkurinn setur skilyrði fyrir samþykkt nýrra laga um stjórn fiskveiða þess efni, að fiskstofnarnir séu sameign íslensku þjóðarinnar.
1991. Alþýðuflokkurinn nær fram viðbótarákvæði um, að tímabundin nýtingarréttur sjávarauðlindarinnar myndi aldrei lögvarinn eignarrétt.
1991. Undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur er ný félagsmálalöggjöf og jafnréttislög sett. Hún stendur fyrir stofnun Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra. Hún fól Kjartani Jóhannssyni, fyrrum form. Alþýðuflokksins forystu fyrir endurskoðun húsnæðismála. Í framhaldi af því var húsbréfakerfi innleitt, sem og kaupleiguíbúðir og vaxtabótakerfi.  Sameining sveitarfélaga hafin.
1991. Utanríkisráðherra Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson,  beitir sér á alþjóðavettvangi fyrir stuðningi við  baráttu Eystrasaltsþjóða fyrir endurheimt sjálfstæðis. Ísland viðurkennir endurreist sjálfstæði þeirra, fyrst þjóða.
1993. Aðild Íslands að Evrópska efnahgassvæðinu (EES) samþykkt, að frumkvæði formanns Alþýðuflokksins, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Gengur í gildi 1994. Viðamesti milliríkjasamningur Íslands og grundvöllur samskipta við Evrópusambandið.
1994. Jóhanna Sigurðardóttir klýfur Alþýðuflokkinn og stofnar Þjóðvaka.
1996. Þingmenn Þjóðvaka ganga til liðs við þingflokk Alþýðuflokkinn.
1996. Sighvatur Björgvinsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins. Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, tók við formennskunni af Sighvati árið 2000, og gegnir því starfi enn.
2000. Samfylkingin stofnuð. Jafnaðarmenn aftur saman í einum flokki eftir að móðurflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, hafði klofnað fimm sinnum á vegferð sinni.

Inline
Inline