Helgi Skúli Kjartansson

SAMVINNUHUGSJÓN JAFNAÐARSTEFNUNNAR

Laugardaginn 16. apríl kl. 14 flytur Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur erindi á efri hæð Iðnós sem hann nefnir SAMVINNUHUGSJÓN JAFNAÐARSTEFNUNNAR. Erindi Helga Skúla er eitt af átta í erindaflokki, sem stofnað var til vegna 100 ára afmælis Alþýðuflokksins.

SAMKEPPNI – SAMVINNA – SAMEIGN. Þannig einkenndi Jónas frá Hriflu meginstefnurnar þrjár um skipan atvinnulífsins: einkarekstrarstefnu Íhaldsflokks/Sjálfstæðisflokks, samvinnustefnu Framsóknarflokksins og þjóðnýtingarstefnu jafnaðarmanna.

Þó allir stjórnmálaflokkar aðhylltust einhvers konar „blandað hagkerfi“ hvað varðar rekstrarform fyrirtækja, þá fór ekki á milli mála hlutverk Sjálfstæðisflokksins sem fulltrúa helstu einkafyrirtækja og Framsóknarflokksins fyrir samvinnuhreyfinguna. Alþýðuflokkinn var ekki á sama hátt fulltrúi ríkisrekinna fyrirtækja. Þjóðnýting var sjaldan áberandi baráttumál hans enda voru önnur úrræði nærtækari til að bæta hag launþega gagnvart fyrirtækjum.

Íslenskir jafnaðarmenn hlutu þó að tortryggja einkarekstur, a.m.k. stórfyrirtækja. Þeir gátu líka lent í árekstrum við einstök samvinnufélög og átt misjafna sambúð við hina pólitísku samvinnuhreyfingu. Hins vegar hlaut sjálf samvinnuhugsjónin að höfða til þeirra rétt eins og Framsóknarmanna. Því olli að nokkru fyrirmynd erlendra systurflokka. En umfram allt var það fullkomlega í anda Alþýðuflokksins að styðja félagslegt eignarhald á grunni samhjálpar og samtakamáttar.

Í því samhengi er fróðlegt að rifja upp frumkvæði og aðild jafnaðarmanna að stofnun og rekstri samvinnufélaga, ekki aðeins pöntunarfélaga eða kaupfélaga heldur byggingarsamvinnufélaga og útgerðarsamvinnufélaga. Sömuleiðis samskiptasögu þeirra við hina skipulegu – og pólitísku – samvinnuhreyfingu.

Inline
Inline