Sigurður E. Guðmundsson, lifðu núna

Lífskjarabyltingin 1889-1947

Sigurður E. Guðmundsson. Bókmenntafélag jafnaðarmanna. Erindi í Iðnó 9. apríl 2016.

Góðir fundarmenn,

Í þessu erindi verður fjallað um nokkur af mikilvægustu baráttumálum íslenzkrar alþýðu á síðustu öld, sem öll voru lögfest á fyrri hluta hennar. Það er hvorki ætlun mín að rekja þau efnislega eða flokkspólitískt  heldur  segja frá þeim og tilurð þeirra í stórum dráttum. Fjallað verður um vökulögin 1921, Slysatryggingar ríkisins 1925, verkamannabústaðina 1929 og 1935 og Alþýðutryggingar Íslands 1936. Flest eru þau mál, sem allir þekkja en hafa enn ekki verið krufin til mergjar. Og nú er að sjá hvernig mér gengur !

  1. Vökulögin

Vökulögin 1921 voru mjög sérstæð og merkileg frá mörgum sjónarhornum séð. Sennilega eru þau einstæð í sinni röð, engin önnur fiskveiðiþjóð við Norður-Atlantshaf mun hafa sett slík lög framan af öldinni. En hvers vegna þurftu Íslendingar á slíkri lagasetningu að halda ? Hefur ekki svefninn verið frumburðarréttur sérhverrar mannveru, allt frá upphafi ? Vitaskuld. Hérlendis virðist hins vegar sem óhóflegur vinnutími sveitafólks á sumrin hafi verið tekinn upp á togurunum og hásetarnir sætt sig við langtímavökur meðan skipin vou lítil, framan af öldinni, meðal annars vegna þess að heildarlaunin voru mjög góð. En þegar skipin stækkuðu syrti í álinn. Þá bæði héldust vökurnar og útgerðarmenn tóku að skera niður lifrarpeningana. Við það snarlækkuðu tekjur hásetanna.

Fyrsta sjómannaverkfallið var háð árið 1916  vegna niðurskurðar á lifrarpeningunum, en þótt vökurnar væru hávært umkvörtunarefni voru þær aldrei teknar til meðferðar í samningum, hvorki af hálfu háseta eða útgerðarmanna. Og því síður að verkfallsvopninu væri beitt til að fá svefnréttinn viðurkenndan. Hvers vegna ekki ? Það virðist augljóst, þótt enginn stafkrókur finnist fyrir því, að Sjómannafélag Reykjavíkur hafi ekki viljað taka svefnréttinn inn í kjarasamninga af þeirri einföldu ástæðu að það hefði væntanlega lækkað launaákvæðin í þeim. Útgerðarmenn hefðu væntanlega  frekar átt að beita sér fyrir því, meðal annars vegna þess, að framan af síðustu öld var það hávær krafa atvinnurekenda sums staðar á Vesturlöndum að öll hlunnindi og réttindi ættu að vera hluti af kjarasamningum. Þeir kröfðust þess hins vegar ekki í togarasamningunum. Þess vegna héldu stritvökurnar áfram árum saman, en urðu engum að fjörtjóni á hafi úti, svo vitað sé, þótt yfrið löng vaka hljóti alltaf og ætíð að enda með því að vökumaðurinn falli látinn um koll. Hvernig tókst þeim þá að lifa vökurnar af ? Þessari tilvistarspurningu hafði ég lengi og mikið velt fyrir mér þegar vísindin komu mér til  bjargar og svöruðu henni. Dr. Dóra Lúðvíksdóttir, sérfræðingur við svefnskor lungnadeildar á Landsspítala-háskólasjúkrahúsi benti mér á, að um miðja síðustu öld hefði það verið vísindalega sannað að menn dotta við vinnu sína í óheyrilega löngum vökum, viljandi eða óviljandi, með eða án vitundar sinnar. Það varð hásetunum til bjargar.  

Vökulögin voru lögfest á lokadaginn 11. maí 1921.   Pjetur G. Guðmundsson, sagnritari Sjómannafjelags Reykjavíkur, segir í 10 ára afmælisriti þess að lögin séu ,,mesti sigur, sem enn hefur verið unninn í pólitískri baráttu íslenzkra verkamanna og um leið ein með merkustu lögum í íslenzkri löggjöf“, eins og hann orðar það. Jón Baldvinsson var þá flutningsmaður frumvarpsins og um leið eini fulltrúi Alþýðuflokksins á þingi, er skipað var 44 þingmönnum.  Sú spurning er því harla áleitin hvernig hann fékk því til leiðar komið. Það veit enginn. En hægt er að leiða líkur að því. Svo ég fari fljótt yfir sögu tel ég bæði líkindarök og vísbendingar benda eindregið til þess, að hann hafi leitað eftir og fengið heilshugar stuðning Jóns Magnússonar, forsætisráðherra og formanns Íhaldsflokksins. Ég tel að áhrif hans og stuðningur, ásamt með jákvæðari afstöðu alþingismanna 1921 en tveim árum fyrr, hafi leitt til þess að lagafrumvarpið var samþykkt.  Þeir nafnar áttu jafnframt eftir að leiða saman hesta sína aftur um setningu mikilvægrar löggjafar nokkrum árum síðar, svo sem ég mun koma að.

Vökulögin voru merk heilsuverndar- og mannréttindalöggjöf, en jafnframt hafði setning þeirra aðra mikilvæga þýðingu, að mínu mati, sem var stórpólitísk og hafði mótandi áhrif, bæði á landsmálapólitík Alþýðuflokksins og þjóðfélagið í heild, allt frá setningu þeirra.  Skal það nú skýrt nokkru nánar.

 Svo sem kunnugt er var áttatímafrumvarp Jörundar Brynjólfssonar fellt á Alþingi með 17 atkvæðum gegn átta hinn 26. ágúst 1919.  Sjómannafélag Reykjavíkur hafði samþykkt það þannig  fyrir sitt leyti, en það dugði ekki til. Í febrúar 1921 lagði Jón Baldvinsson fram nýtt vökulagafrumvarp, að höfðu samráði við stjórnir  Alþýðusambandsins, Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Sjómannafélags Reykjavíkur, er félagsfundur þess hafði áður samþykkt. Þar var kveðið á um sex tíma svefnrétt og var það lögfest á lokadaginn 11. maí 1921.

 Þótt menn hafi ekki gert sér það ljóst tel ég líklegt að þessi atburður hafi haft stórpólitíka þýðingu, hvernig sem á er litið. Hann er sennilega  hinn fyrsti í sögu verkalýðshreyfingarinnar þar sem samþykkt í verkalýðsfélagi innan ASÍ leiðir til lagasetningar á Alþingi, eflaust einkum fyrir áhrif frá Ólafi Friðrikssyni,  sem var stjórnarmaður í Sjómannafélaginu og mikill áhrifamaður þar á bæ.  Hann hafði dvalið í Danmörku í mörg ár, var vel skólaður í fræðum jafnaðarmanna og þekkti mæta vel starfshætti dönsku verkalýðshreyfingarinnar. Því kemur ekki á óvart að málsmeðferðin í Sjómannafélaginu var öll í  samræmi við lýðræðis- og þingræðiskenningar jafnaðarstefnunnar, sem danska verkalýðshreyfingin hafði í hávegum. Allar voru þær runnar frá þýzka fræðimanninum Eduard Bernstein og voru  kallaðar endurskoðunarstefna vegna þess, að þær höfnuðu valdbeitingarkenningum  marxismans en boðuðu í þess stað friðsamlega þróun, skref fyrir skref, stig af stigi, í átt að þjóðfélagi hinnar lýðræðislegu jafnaðarstefnu.

 Í  ljósi þess, að hásetarnir höfðu krafizt átta tíma svefnhvíldar í lagafrumvarpi Jörundar árið 1919 en féllust 1921 á sex tíma hvíld sem fyrsta skref, er Alþingi samþykkti síðan í Vökulögunum, er hægt að álykta að þar með hafi sú þróun hafizt er síðan varð allsráðandi í pólitík Alþýðuflokksins. Unnið skyldi að  framgangi jafnaðarstefnunnar með friðsamlegum hætti,  skref fyrir skref, og  þannig reynt að umbreyta samfélaginu og móta þjóðfélag jafnaðarstefnunnar. Þessi hugsun, þessi stefna, hefur, allt frá 1921, mótað allt löggjafarstarf Alþýðuflokksins, sveitarstjórnarpólitík hans og kjarabaráttu verkalýðs- og launþegasamtakanna. Þessa hefur sérstaklega gætt á sviði alþýðu- og almannatrygginga, þar sem Haraldur Guðmundsson var  brautryðjandi, og almennt einn fremsti áhrifamaður alþýðuhreyfingarinnar þegar á bernskuárum hennar.

Gætum sérstaklega að því, að grundvöllurinn að þessari mikilvægu stefnumótun  fór fram í grasrótinni árin 1919-1921, meðal hásetanna á félagsfundum í Sjómannafélaginu og í stjórnum verkalýðssamtakanna, en ekki að frumkvæði eða meðal háskólamenntaðra sérfræðinga og embættismanna á vinstri vængnum. Höfum einnig í huga, að þar sem Alþýðuflokkurinn var alltaf í miklum minnihluta á Alþingi átti hann aldrei annars kost en að semja við aðra flokka um að koma stefnumálum sínum fram, en láta þau liggja í láginni ella. Hefði hann gert það og snúið baki við endurskoðunarstefnunni og baráttuaðferðum hennar, eins og við þekkjum hana í framkvæmd,  hefði tilverugrunnur hans brostið og byltingarsinnar ef til vill tekið við.

Þegar við lítum yfir farinn veg sjáum við, að nær allt tryggingakerfi þjóðarinnar hefur verið byggt upp að frumkvæði Alþýðuflokksins og því þokað fram, skref fyrir skref,  stig af stigi, með samningum og samstarfi við aðra flokka á Alþingi. Það á yfirleitt við um allt hans starf á vettvangi þjóðmála,  sveitarstjórnarmála og kjaramála. Þannig hefur hann unnið samtímis með samningum að framgangi jafnaðarstefnunnar og lífskjarabótum fyrir allan almenning innan ramma lýðræðis og þingræðis. Alþýðuflokkurinn flutti  endurskoðunarstefnu Eduard Bernstein og okkar  jafnaðarmanna inn á Alþingi, þar sem hún hefur í rauninni verið mikilvæg grundvallarstefna á mörgum sviðum löggjafarstarfsins og hún er grundvöllur að allri stjórnmálabaráttu jafnaðarmanna víðast hvar í heiminum í dag.  Baráttu  fyrir því samfélagi, sem á síðari hluta 20. aldar var gjarnan kallað velferðarríkið. Og æ síðan.

  1. Slysatryggingarnar

Árið 1921 flutti Jón Baldvinsson tillögu til þingsályktunar um að þingið kysi nefnd manna til að semja frumvörp til laga um almennar ellitryggingar og um slysatryggingar. Þingmönnum þótti nokkuð vel í lagt að þessi ungi þingmaður skyldi fitja upp á lagasetningu í tveimur stórmálum svo skömmu eftir að hann hafði unnið pólitískan sigur með samþykkt vökulaganna, auk þess sem ekki væri við hæfi að þingið gæfi ríkisstjórninni fyrirmæli um efni lagafrumvarpa. Að svo búnu felldu þeir tillöguna.  Árið 1924 flutti hann tillöguna aftur, gjörbreytta, sýnilega að ráði þingreynds áhrifamanns. Í það skiptið lagði hann til að þriggja manna nefndin skyldi eingöngu semja lagafrumvarp um slysatryggingar sjómanna og landverkafólks. Það féll þingmönnum betur í geð og þeir samþykktu tillöguna. Þar með varð gamla fólkið enn að bíða og fékk ekki lögbundin ellilaun fyrr en með alþýðutryggingalögunum 1936. Þangað til  varð það að bíða og þrauka, eins og það hafði reyndar gert allt frá upphafi  Íslandsbyggðar. Til samanburðar má geta þess, að árið 1891 setti Þjóðþing Dana sama daginn tvenn lög um ellilaun til efnalítilla samborgara, enda litu Danir svo á, að í siðuðu menningarþjóðfélagi væri ekki við hæfi að gamalt fólk væri á nástrái og vergangi hvert sem augum væri litið. En Íslendingar voru enn ekki komnir á það menningarstig árið 1924.

En snúum okkur aftur að Slysatryggingum ríkisins árið 1925. Þriggjamannanefndin var skipuð þeim Þorsteini Þorsteinssyni hagstofustjóra, Gunnari Egilsson, forstjóra og fulltrúa útgerðarmanna og Héðni Valdimarssyni, fulltrúa Alþýðusambandsins. Hún gekk skjótt til verka og samdi lagafrumvarp um slysatryggingar er lagt var fyrir þingið snemmárs 1925. Meginkaflarnir voru tveir, annars vegar langreyndar og þróaðar sjóslysatryggingar, allt frá 1903, og hins vegar slysatryggingar fyrir landverkamenn, sem voru nýjar af nálinni en sniðnar mjög að sjómannatryggingunum. Þetta var gott og blessað en sumir þingmenn voru ekki ánægðir með að verkakonur skyldu ekki hafðar með. Þar var þó ekki allt sem sýndist því að í reynd voru þær taldar með,  raunar faldar í sérákvæði um annað starfsfólk í fiskiðnaði og sláturhúsum. Ég held að sú  leið hafi verið valin vegna þess, að hefði  fjölmenn  stétt þeirra verið nefnd berum orðum hefðu  atvinnurekendur ef til vill snúizt gegn frumvarpinu og ekki síður þingmenn, sem voru á báðum áttum. Sú leið, sem frumvarpsnefndin valdi, tryggði þeim aðild að tryggingunum, þótt um bakdyrnar væri.  Árið 1931 voru réttindi verkakvenna ennfremur styrkt verulega með sérstökum lögum, er samþykkt voru.

Með Slysatryggingalögunum 1925 var allt verkafólk á sjó og við ströndina slysatryggt og þingmenn voru afar stoltir af því stórvirki. Margir þeirra létu í ljósi gleði sína og stolt yfir þessari lagasetningu, eins og til dæmis Magnús Torfason, sýslumaður, sem sagði  ,,(T)ryggingamálin eru eitthvert hið stærsta framtíðarmál, sem þingið hefur nú með höndum… Ef tryggingamál þjóðarinnar komast í gott horf þá verða þau með tíð og tíma lyftistöng vors fátæka lands.“  Já, lyftistöng vors fátæka lands.

Enn sem fyrr var Jón Baldvinsson eini fulltrúi Alþýðuflokksins á Alþingi Íslendinga, en samt tókst honum að fá þennan mikilvæga lagabálk samþykktan. Hann flutti þingsályktunartillöguna, sat í þingnefndinni sem fjallaði um málið og fylgdi jákvæðu nefndaráliti hennar úr hlaði á þingfundunum, þar sem hann var helsti talsmaður og málsvari nefndarinnar.  Í umræðum í þinginu kom skýrt fram að það væri vilji ríkisstjórnar  Jóns Magnússonar að frumvarpið yrði samþykkt. Þarna kemur aftur fram stuðningur Jóns Magnússonar við stefnumál Alþýðuflokksins í þágu vinnandi fólks.  Jón Baldvinsson gaf eindregið til kynna að í  rauninni væri hér á ferðinni málefni, er byggðist á samráðshyggjunni (,,Corporatism“) sem fræðilega séð er þríhliða samkomulag ríkisvalds, launþegasamtaka og atvinnurekenda. Ef líta má á lögin um  Lífsábyrgð sjómanna á þilskipum 1903 sem fyrsta dæmið um samráðshyggjuna hér á landi eru lögin um Slysatryggingu rákisins 1925 önnur í röðinni. Allt frá þeim tíma hafa samningar af því tagi stundum verið gerðir, til dæmis júní-samningarnir 1964 og júlí-samningarnir 1965.

  1. Verkamannabústaðirnir

Það er yfirleitt samhuga álit flestra fræðimanna í málefnum velferðarríkisins að húsnæðismálin séu ein helzta burðarstoð þess. Þótt fræðilegar umræður hérlendis  hafi sennilega ekki verið komnar á það stig þegar Héðinn Valdimarsson lauk námi í Kaupmannahöfn, snemma á þriðja áratugnum, hefur hann efalaust gert sér góða grein fyrir því. Umfangsmiklar íbúðabyggingar fyrir verkafólk höfðu þá verið reistar víða á meginlandinu og Héðinn hafði þær daglega fyrir augunum í borginni við sundin. Hann lét það heldur ekki dragazt lengi, eftir að hann kom heim, að hefja baráttu fyrir  byggingu verkamannabústaða, bæði með tillöguflutningi í bæjarstjórn Reykjavíkur og á Alþingi.  

Alþýðuflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir hlutleysisstuðningi sínum við ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar árið 1927 að sett yrðu lög um byggingu verkamannabústaða og í trausti þess að við það loforð yrði staðið stóð þingflokkur hans einhuga að setningu laga um Byggingar- og landnámssjóð árið 1928, sem var Framsóknarflokknum mikið hjartans mál. En hinn ungi og óreyndi þingflokkur jafnaðarmanna  mátti bíta í það súra epli að það loforð var svikið sama ár . Ári síðar, 1929,   flutti Héðinn frumvarpið aftur og þá var því vísað til nefndar þar sem það mátti dúsa óhreyft þar til sex vikur voru eftir af þingtímanum. Þá var þingflokknum löngu orðið ljóst, að Framsóknarflokkurinn ætlaði að svíkja loforðið aftur svo að  Jón Baldvinsson skýrði forsætisráðherranum frá því, að yrði ekki staðið við það myndi Alþýðuflokkurinn láta af stuðningi við stjórnina. Það varð til þess að Tryggvi Þórhallsson tók á sig rögg, en átti óhægt um vik vegna þess, að sennilega var hann eini maðurinn í þingflokki framsóknarmanna sem vildi efna loforðið. Eftir miklar hræringar var vandinn leystur með því að forsætisráðherrann flutti breytingatillögur við frumvarp Héðins, sem gengu út á það að greinarnar í því voru allar felldar niður en breytingartillögur ráðherrans allar samþykktar í staðinn.

Svo hatrömm var andstaða framsóknarþingmanna við frumvarpið 1929, að þingflokkur þeirra þvertók fyrir að minnst væri einu orði á verkamenn í frumvarpinu, er lögfest var, sem hét þó á endanum ,,Lög um verkamannabústaði“, líklega vegna yfirsjónar hjá þingflokki framsóknarmanna. Minnstu mátti þó muna að  frumvarpið fengist samþykkt, en það hafðist þó á síðasta degi þingsins, 18. maí  1929. Í því samhengi er kaldhæðnislegt að þrátt fyrir allan bægslaganginn  komu andófsmennirnir í þingflokki Framsóknar ekki  vilja sínum fram í lokin, því að með klókindum tókst þeim Héðni, Haraldi og Tryggva Þórhallssyni að búa svo um hnútana að verkamönnum og öðru láglaunafólki  var í rauninni tryggður  allur forgangsréttur að íbúðunum.

Þótt hinn ungi þingflokkur Alþýðuflokksins hafi í sjálfu sér verið ánægður með setningu verkamannabústaðalaganna var sú ánægja blendin vegna aðdragandans. Hann hugsaði Framsóknarflokknum þegjandi þörfina, misgerðir hans voru geymdar en ekki gleymdar. Áður en langt um leið sagði þingflokkurinn upp stuðningi sínum við ríkisstjórn Tryggva og þegar Stjórn hinna vinnandi stétta var stofnuð 1934 setti Alþýðuflokkurinn það skilyrði að Alþýðutryggingum yrði komið á fót á kjörtímabilinu og stjórnarsáttmálinn yrði skjalfestur, fyrsta sinni í þingsögunni. Alþýðuflokkurinn var reynslunni ríkari. Haraldur Guðmundsson varð ráðherra  í þeirri stjórn og þurfti Alþýðuflokkurinn þá ekki lengur að eiga  það undir náð framsóknarráðherra hvernig  þingmál hans voru úr garði gerð.  Haraldur hafði  félagsmálin í hendi sér og lét nú fella úr gildi verkamannabústaðalögin frá 1929 og setja ný árið 1935, er þeir Héðinn höfðu samið á sínum tíma. Þar var fjallað með eðlilegum hætti um byggingu verkamannabústaða.

  1. Alþýðutryggingarnar

Alþýðutryggingalöggjöfin sem sett var  1936 er einhver merkasta félags- og velferðarlöggjöf, sem sett hefur verið hér á landi. Alþýðuflokkurinn hafði barizt fyrir henni   langa hríð og  flutti til dæmis tillögur um almannatryggingar 1929 og 1930. Í kjölfar þess skipaði ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar þriggja manna nefnd árið 1930, er skyldi semja drög að slíkri löggjöf. Hana skipuðu Haraldur Guðmundsson, Jakob Möller og  Ásgeir Ásgeirsson, sem var formaður. Hún gafst fljótlega upp og hófst þá Haraldur Guðmundsson sjálfur handa og samdi  drög að frumvarpi, sem sem þeir fullsömdu síðar, hann, Héðinn Valdimarsson og Vilmundur Jónsson. Þeir fluttu svo  fyrsta frumvarp flokksins um alþýðutryggingar árið 1932. Það var ákaflega vel og vandlega úr garði gert en fékk engar undirtektir í þinginu og það var ekki fyrr en ,,Stjórn hinna vinnandi stétta“ var mynduð árið 1934 að Alþýðuflokkurinn setti það skilyrði fyrir  aðild að henni að slík löggjöf yrði sett.

Það er eftirtektarvert í framhaldi af því, sem áður hefur komið fram í þessu erindi, að  samningaleiðin var farin til að koma  Alþýðutryggingamálinu fram,  Alþýðuflokkurinn hafði ekkert bolmagn til að fá lögin sett án stuðnings annarra flokka. Haraldur fékk þverpólitíska nefnd þriggja þingflokka setta á laggirnar í þinginu, sem flokksmenn hans höfðu að vísu meirihluta í og vann út frá frumvarpi hans, Héðins og Vilmundar árið 1932. Jón Blöndal, hagfræðingur og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Reykjavík sagði löngu síðar, að í lögunum um alþýðutryggingarnar 1936 hefði verið fólgin ,,bylting“  fyrir  launafólk, sérstaklega sjómenn og landverkafólk við ströndina. Þau boðuðu að mörgu leyti nýtt líf fyrir allan almenning til sjávarins, þótt alþýðuflokksmenn hafi orðið að sætta sig við að þeim voru ýmsar skorður settar. Hann einn réði ekki ferðinni, en að  lögunum samþykktum boðaði hann bjarta samtíð og glæsta  framtíð með nýjum lögum þegar tækifæri gæfist. Það kom árið 1944 þegar samið var um tilkomu almannatrygginganna.  Af því er mikil og óvenjuleg saga, sem ekki verður rakin hér.

Öllu þessu er nauðsynlegt að gefa sérstakan gaum meðal annars vegna þess, að í aðdraganda alþýðutryggingalaganna 1936 urðu stórpólitísk tímamót í stjórnmálum landsmanna. Alþýðuflokkurinn fékk þá örugga fótfestu í landsmálunum sakir þess, að velferðartillögur hans fengu mjög góðar undirtektir, samtímis  því, að hinir þingflokkarnir höfðu enga haldbæra stefnu fyrir landsmenn á vettvangi velferðarmálanna, þar sem mikil neyð ríkti. Alþýðuflokkurinn ruddi sér þá til rúms en þeir hinir héldu að sér höndum. Alþingi breyttist úr því að vera samkoma tveggja íhaldssamra borgaraflokka í það að vera þriggja flokka þing þar sem verkalýðsflokkurinn var áhrifamikill  sósíaliskur minnihlutaflokkur. Það var tilkoma alþýðutrygginganna 1936 sem ruddi brautina fyrir þessum miklu tímamótum, sem hófst með sextímasamþykkt togarahásetanna 1921.  

Í lögunum er fjöldi nýmæla og stórmerkilegra fyrirbæra, sem menn hafði varla dreymt um áður að launafólk fengi notið. Meðal mikilvægustu kafla í þeim voru slysatryggingarnar, sem voru reistar á gömlum grunni sjóslysatrygginganna og Slysatrygginga ríkisins árið 1925. Slysatryggingarnar eru elsti þáttur almannatryggingakerfisins og mega með réttu kallast flaggskip þeirra. Sjúkratryggingarnar, sem voru reistar að hluta til á gömlu sjúkrasamlögunum, voru  mikil blessun og lífskjarabót fyrir allt þéttbýlisfólk, sem tók þeim fagnandi. Fulltrúar sveitanna í þinginu báðust hins vegar undan því að dreifbýlisfólk ætti aðild að þeim, svo gáfulegt sem það var, enda sáu þeir sig löngu síðar um hönd. Loks voru ellitryggingar fyrir gamla fólkið, sem hafði aldrei notið neins stuðnings að gagni frá því opinbera, öndvert við til dæmis Dani sem ellilaunatryggðu allt sitt gamla fólk með tvennum lögum sama daginn árið 1891. Og var það þó allvel tryggt áður. En nú tók við ný og betri tíð fyrir gamalt fólk á Íslandi.

Með alþýðutryggingalögunum var tveimur ellilaunakerfum komið á laggirnar. Annars vegar Tíutólfárakerfið, sem ég nefni svo og allt eldra fólk átti skylduaðild að, sér að kostnaðarlausu, og hins vegar Lífeyrissjóð Íslands, sem allir Íslendingar áttu skyldubundna aðild að. Hann varð einn stærsti sjóður sinnar samtíðar hér á landi og stóð að mjög verulegu leyti undir greiðslum ellilauna næstum frá stofnun, árið 1936. Hann má teljast annar ef ekki fyrsti norræni ellilaunasjóðurinn, sem nær til heillar þjóðar og reyndar er mér ekki kunnugt um neinn annan lífeyrissjóð á heimsvísu, sem heil þjóð átti skyldubundna aðild að. Í lögunum var gerð heiðarleg tilraun til að koma atvinnuleysistryggingum á laggirnar, en sá lagakafli kom aldrei að gagni.  Ég held að hann hafi ekki verið settur þar að tilhlutan Alþýðuflokksins, sem hefði áreiðanlega miklu heldur kosið að atvinnuleysistillögur hans í alþýðutryggingafrumvarpi flokksins árið 1932 hefðu verið lögfestar. Þær voru enda hafður til hliðsjónar þegar atvinnuleysislögin voru sett árin 1955 og 1956.

Setning alþýðutryggingalaganna reyndist miklu stærra mál en menn höfðu gert ráð fyrir og allt fram til 1943 var sífellt unnið að endurbótum á þeim, sem alþýðuflokksmenn höfðu yfirleitt frumkvæði um. En þá var undirbúningur að setningu almannatryggingalaga þegar kominn á nokkurn rekspöl, þótt nýsköpunarstjórnin hafi ekki komizt á laggirnar og samþykkt það fyrr en ári síðar, í október 1944. Um það verður ekki fjallað hér en í staðinn minnt á, að þegar alþýðutryggingalögin voru sett voru líka lögfest ný framfærslulög í stað gömlu fátæktarlaganna og sérstök lög um ríkisframfærslu langveikra manna og öryrkja, sem Vilmundur Jónsson samdi.  Hvorttveggja mikil þjóðfélagsbót.

Auðvitað er ljóst að með öllum þessum miklivægu velferðarlögum á fjórða áratugnum gjörbreyttist samfélagið til hins betra, þannig, að þegar á allt er litið má líta svo á sem lífskjarabylting hafi átt sér stað. Ég er auðvitað ekki að segja að alþýðuflokksmenn hafi verið einir að verki í sölum Alþingis, því að sitthvað annað var vel gert, en ótvírætt er að tryggingahluti velferðarkerfisins var í öllu falli settur að þeirra frumkvæði, sem þeir knúðu fast fram, auk þess sem þeir komu að mörgu öðru, til dæmis uppbyggingu skólakerfisins, mikilvægum þáttum heilbrigðiskerfisins, atvinnuleysistryggingunum 1955 og 1956, að öðru ótöldu. Þeir höfðu forystu um uppbyggingu velferðarkerfisins, og þar með velferðarríkisins, sem ef til vill náði hámarki sínu á árunum frá 1947 og fram yfir 1950, þegar merkir fræðimenn telja að Ísland hafi verið fremst í flokki norrænna velferðarríkja. Ég tel, að þetta tímabil megi kalla Gullöld I í sögu Alþýðuflokksins; síðar átti svo önnur eftir að koma. En nú er sennilega sumum nóg boðið svo að ég læt staðar numið.   

Eftirmáli, 11. apríl 2016.

Því miður var ekki hægt að koma öllum þeim efnisatriðum fyrir í þessu erindi, sem ég hefði gjarnan viljað og því set ég þau í þennan eftirmála.

Í fyrsta lagi verður það að koma fram, að ástæðan fyrir eindreginni andstöðu þingmanna Framsóknarflokksins við verkamannabústaðafrumvarpinu 1929 var sú, að fyrir þeim var framtíð þjóðarinnar, heill hennar og hagur, fólginn í sveitunum. Þar byggi kjarni mannlífsins. Svo hafði það alltaf verið og myndi verða um ómunatíð. Flóttinn úr sveitunum græfi undan því þjóðlífi, sem alltaf hefði dugað þjóðinni bezt og svo myndi áfram verða, tækizt að stöðva hann og helzt að snúa honum við. Fullkomnar íbúðir í þéttbýli fyrir ungt verkafólk myndi verka sem ómótstæðilegur segull á það.

Þeir kváðust í sjálfu sér ekki vera  á móti byggingu fyrsta flokks íbúða fyrir verkafólk við ströndina, en teldu að röðin kæmi ekki að þeim fyrr en búið væri að byggja yfir allt sveitafólkið og gera við gamlar og úr sér gengnar íbúðir í sveitunum. Já, íbúðir sem voru uppspretta hinnar hræðilegu berklaveiki. Það hefði náttúrulega verið risastórt verkefni í áratugi að endurnýja allan þann húsakost. Auðvitað voru sveitabæirnir heilsuspillandi forsmán, en verkafólkið við ströndina þurfti líka á vönduðum íbúðum að halda. En ofangreint er sem sagt skýringin á hatrammri andstöðu framsóknarmanna við byggingu verkamannabústaða.

Þessu næst þarf að rifja upp, að ekki liðu mörg ár þar til Eysteinn Jónsson hafði  forgöngu um löggjöf, sem varð grundvöllur að einhverjum mestu íbúðabyggingum á Rvíkur-svæðinu sem um getur. Árið 1932 samdi hann, lagði fram og fékk orðalaust samþykkt lög um byggingarsamvinnufélög. Framsóknarmönnum datt ekki í hug að andmæla frumvarpinu. Það fékk nánast flýtimeðferð. Aðeins einn þingmaður mælti gegn því: Héðinn Valdimarsson, sem kvað það óþarft, vmb-kerfið gæti sem bezt þjónað sama tilgangi. Í sömu ræðu sagði hann að bfélög verkamanna ættu að byggja bæði eignaríbúðir og leiguíbúðir, gallinn væri sá að fjármagn og lagaheimild vantaði til hins síðarnefnda. En furðulegt er að hugsa til þess, að sami þingflokkur og barðist með klóm og kjafti gegn vmb 1929 samþykkti þegjandi samvinnuíbúðalögin 1932.

Loks er það íhugunarefni að í tíð Jóns heitins Magnússonar fékk Alþýðuflokkurinn samþykkt tvenn mjög mikilvæg lög án þess neitt gefi til kynna að flokksmenn hans hafi snúizt  gegn þeirri lagasetningu eða reynt að spilla fyrir henni. Þvert á móti bendir allt til þess að hann hafi eindregið stutt Jón Baldvinsson í viðleitni hans til að fá bæði  lögin samþykkt. Þetta voru Vökulögin 1925 og lögin um Slysatryggingar ríkisins 1935. Á nánast sama tíma barðist þingflokkur Framsóknarflokksins af öllu afli gegn verkamannabústöðunum tvö ár í röð. Þetta stingur í augu. Og hafði sín áhrif, eins og fram kemur í erindinu. Ég held að þau hafi verið langvinn; í þingflokkinn voru að koma ungir menn eins og  Emil Jónsson, sem vitaskuld heyrðu um þetta og drógu sínar ályktanir.

Þetta vildi ég sagt hafa. Með kærri kveðju,

Sigurður E. Guðmundsson.

, , , ,

Inline
Inline