Lög Bókmenntafélags jafnaðarmanna

1. gr.
Félagið heitir Bókmenntafélag jafnaðarmanna. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Hlutverk og tilgangur félagsins er:
a) Að gangast fyrir almennri kynningu á jafnaðarstefnunni og umræðum um markmið og úrræði jafnaðarmanna í þjóðfélagsmálum, innanlands sem utan.
b) Að koma á framfæri upplýsingum og fróðleik um jafnaðarstefnuna, grunngildi hennar og sögulega þróun.
c) Að efla skilning á gildi stjórnmálalegs lýðræðis.
d) Að fylgjast með og efla þekkingu á alþjóðamálum, eftir því sem aðstæður leyfa.

3. gr.
Takmarki sínu hyggst félagið ná m.a. með:
a) Málþingum, fræðslufundum, vefsíðu undir nafni félagsins og útgáfu prentaðs efnis.
b) Samstarfi við innlend og erlend fræðafélög, er starfa á sama vettvangi, háskóla, rannsóknastofnanir og hugveitur, innanlands og utan.

4. gr.
Félagar geta allir þeir orðið, sem vilja styðja markmið og tilgang félagsins. Skulu þeir, sem vilja gerast félagar senda fulltrúaráði félagsins skriflega umsókn til samþykktar. Netfang og símanúmer skal koma fram í umsókninni. Árgjald félaga er jafnvirði 20 evra á hverjum tíma.

5. gr.
Aðalfundur skal haldinn í nóvember annað hvort ár og skal hann boðaður á rafrænan hátt. Hann kýs 11 manna fulltrúaráð, sem skiptir með sér verkum. Fulltrúaráðið kýs formann, ritara og gjaldkera úr sínum hópi og mynda þeir stjórn sem starfar í umboði fulltrúaráðsins. Fundurinn skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn reikninga félagsins og einn til vara. Fulltrúaráðið tekur allar ákvarðanir fyrir hönd félagsins. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála í fulltrúaráðinu. Hver félagsmaður, sem hefur greitt árgjald fyrir yfirstandandi ár hefur rétt til setu á aðalfundi með fullgildum réttindum. Á aðalfundi flytur formaður skýrslu um starf félagsins á liðnu ári. Gjaldkeri gerir grein fyrir fjárhag félagsins og fulltrúaráðið leggur fram starfsáætlun fyrir næsta starfsár.

6. gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi tillögur til lagabreytinga verið sendar fulltrúaráði félagsins a.m.k. þrem vikum fyrir fundinn, eða fulltrúaráðið samþykkt tillögur til lagabreytinga til að leggja fram á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skal kynna í fundarboði.

Ákvæði til bráðabirgða:
Þeir sem sitja þann félagsfund þar sem lög þessi eru samþykkt, skulu teljast félagar og stofnendur félagsins.

Inline
Inline